JAKOB Jóhann Sveinsson, Íslandsmethafi í bringusundi, tekur þátt í heimsbikarmóti í sundi í Berlín á morgun og sunnudag. Af þeim sökum er hann ekki á meðal keppenda á Íslandsmeistaramótinu í 25 m laug sem hófst í Laugardal í gær.

JAKOB Jóhann Sveinsson, Íslandsmethafi í bringusundi, tekur þátt í heimsbikarmóti í sundi í Berlín á morgun og sunnudag. Af þeim sökum er hann ekki á meðal keppenda á Íslandsmeistaramótinu í 25 m laug sem hófst í Laugardal í gær. Jakob Jóhann hyggst keppa í 50, 100 og 200 m bringusundi á mótinu í Berlín en þar verða margir af sterkustu sundmönnum Evrópu á meðal þátttakenda. Á mótinu verður synt á 25 m braut.

Fyrr í þessari viku var Jakob Jóhann á meðal þátttakenda á heimsbikarmóti í Stokkhólmi. Hann var nokkuð frá sínu besta í öllum greinunum þremur sem hann tók þátt í. Jakob Jóhann náði bestum árangri í 200 m bringusundi. Þar hafnaði hann í 10. sæti á 2.14,27 mínútum, sem er tæpum fjórum sekúndum frá sex ára gömlu Íslandsmeti í hans eigu. Jakob synti 100 m bringusund á 1.02.07 en Íslandsmet hans er 1.00,51 og þurfti að synda á þeim tíma í Stokkhólmi til þess að komast í átta manna úrslit. Loks synti Jakob Jóhann 50 m bringusund á 28,99 sekúndum og varð í 15. sæti. Íslandsmet hans, sem sett var fyrir tveimur árum, er 28,22 sekúndur.