Það er ljúft að byrja daginn á „einni lítilli morgunvísu“ úr smiðju Hálfdans Ármanns Björnssonar: Sólu hillir austri í, alla gyllir hnjúka. Logn og stilla, lítil ský leggja á syllur dúka.

Það er ljúft að byrja daginn á „einni lítilli morgunvísu“ úr smiðju Hálfdans Ármanns Björnssonar:

Sólu hillir austri í,

alla gyllir hnjúka.

Logn og stilla, lítil ský

leggja á syllur dúka.

Á forsíðu 24 stunda í gær var sagt frá nýstárlegu hjónabandi. Og fleira var markvert í fréttum, eins og vísa Hjálmars Freysteinssonar gefur til kynna:

Orkuveitan er ofur rík,

enn er verið að bora.

Indverji gekk að eiga tík,

Eiður náði að skora.

Hjálmar bætir við að tíkin hafi verið sögð í álögum, en ekki komi fram „hvort hún breyttist í eitthvert annað kykvendi við hjónavígsluna“.

Jón Arnljótsson lýsir því hvernig ævintýri enda „í alvörunni“:

Prinsessu Riddarinn, léttur í lund,

leiddi af Drekans brúnni.

Daðraði við hana dálitla stund,

svo drattaðist heim með frúnni.

En svo eru þeir sem lifa í veröld ævintýranna eins og Pétur Stefánsson:

Lífið mitt er líkast draumi

með ljúfum ævintýrablæ.

Og ekki er lukkan treg í taumi,

hún töltir með mér um allan bæ.

Og Sigmundur Benediktsson samgleðst Pétri:

Að því gauminn gefa ber

giftu saumar fína

ljúf í taumi lukkan er

leiðir drauma þína.

pebl@mbl.is