Skutbíll Þriðja kynslóð Golf Variant var heimsfrumsýnd í mars á þessu ári.
Skutbíll Þriðja kynslóð Golf Variant var heimsfrumsýnd í mars á þessu ári. — Morgunblaðið/Ómar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fyrsta útgáfa af Golf Variant sá dagsins ljós árið 1993 en áður hafði nafnið „variant“ verið lengi notað yfir lengri og rúmmeiri fólksbíla frá VW.

Fyrsta útgáfa af Golf Variant sá dagsins ljós árið 1993 en áður hafði nafnið „variant“ verið lengi notað yfir lengri og rúmmeiri fólksbíla frá VW. Nafngiftin vísar í fjölnýtileika slíkra ökutækja og er Golf Variant ekki eini VW fólksbíllinn sem ber þetta eftirnafn því einnig er framleiddur skutbíllinn Passat Variant sem geymir öllu meiri lúxus og fæst fyrir ögn meiri peninga. Eru bílarnir þó vissulega líkir í útliti.

Þriðja kynslóð VW Golf Variant var frumsýnd á bílasýningunni í Genf í mars á þessu ári en hér er um að ræða fimm dyra skutbíl og er þar af leiðandi hugsaður sem töluvert nýtilegri bíll en hinn öllu algengari þriggja dyra Golf. Hekla, umboðsaðili fyrir Volkswagen á Íslandi, býður upp á tvær vélar í nýjan Golf Variant, annars vegar 1,6 lítra FSI bensínvél með aflgetu upp á 102 hestöfl og hins vegar 1,9 lítra TDI dísilvél með aflgetu upp á 105 hestöfl.

Eyðslugrannur

Undirritaður prufaði Variant með síðarnefndri vél á dögunum – gylltan og leðurklæddan. Það er töluverður glæsibragur yfir bílnum miðað við verðflokkinn og mætti í því samhengi helst benda á króm í kringum glugga, innbyggð stefnuljós í hliðarspeglum og fallegt grill. Og þægindin eru mikil, einkum þegar setið er í leðurklæddum sætum sem auðveldlega má hagræða eftir líkama og þörfum. Mælaborðið er jafnframt snyrtilegt og sett upp á einfaldan og aðgengilegan hátt og aksturstölvan er skýr og læsileg.

Það fer ekki á milli mála að það er dísilolía sem knýr vélina þegar vélarhljóðið fer að hljóma en 1,9 lítra dísilvélin er ansi skemmtileg og snörp. Bíllinn er ekki ýkja þungur miðað við stærð og komast því hestöflin 105 ágætlega til skila en það tekur hann 11,6 sekúndur að komast úr kyrrstöðu í 100 km/klst. Þá er uppgefin eldsneytiseyðsla fremur ásættanleg eða 7,4 lítrar á 100 km í blönduðum akstri. Prufuaksturinn var í það heila afar þægilegur en þó fannst mér stundum 5 gíra beinskiptingin svolítið óþjál.

Sver sig í ættina

Vafalaust má kalla Golf Variant vísitölubíl sem sniðinn er að þörfum vísitölufjölskyldunnar. Hann er alla vega vel búinn í flest þau verkefni sem hið hefðbundna fjölskyldulíf kallar á – innanbæjar sérstaklega en svo er ekkert til fyrirstöðu að aka honum út á land og í lengri ferðalög.

Öryggisbúnaður er talsverður í bílnum og geymir hann til að mynda þriggja punkta öryggisbelti í öllum fimm sætum bílsins, sex öryggispúða, ABS bremsur með hemladreifikerfi og hjálparafli á bremsum, aftengjanlega spólvörn (ASR), diskahemla á öllum hjólum og forstrekkingu á öryggisbeltum framsæta. Og rafeindastýrð stöðugleikastýring (ESP) er svo í samspili við ABS og hemlunaraðstoð grípur strax inn í aksturinn við varasamar aðstæður.

Af þægindabúnaði má nefna hraðatengingu í hljómtækjum, armpúða í framsætum sem eru ávallt vel til fundnir, hraðastilli, kælingu í hanskahólfi og rafstýrða og hitaða hliðarspegla.

Golf Variant er nokkuð lágur og nettur og töluvert rúmmeiri en hann kann að virðast utan frá en alls rúmar bíllinn 690 lítra af farangri og 1550 lítra með aftari sætisröðina niðurfellda. Þá er farangursrýmið orðið alls 1,74 metrar á lengdina en bíllinn getur borið allt að 629 kg utan við eigin þyngd sem er 1173 kg.

Að frátöldu auknu rými er bíllinn að öðru leyti mjög Golf-legur, ef svo má segja, bæði hvað varðar búnað og útlit, innra og ytra. Og er ekkert nema gott um það að segja enda sérlega myndarleg og fjölhæf fjölskylda.

VW Golf Variant

Vél: 1,9 lítra TDI dísilvél

Afgeta: 105 hestöfl við 4000 snúninga

Snerpa: 11,4 sekúndur í 100 km/klst

Lengd: 4204 mm

Breidd: 1759 mm

Hæð: 1513 mm

Hjólhaf: 2578 mm

Farangursrými: 350 lítrar, 1305 með aftursæti niðurfelld.

Eyðsla: 7,4 l/km í blönduðum akstri

CO2 útblástur: 132 g/km

Verð: 2.590.000 kr

Umboð: Hekla