Fréttaskýring Eftir Helga Snæ Sigurðsson og Höskuld Ólafsson EITT af frumskilyrðum þess að íslensk tunga deyji ekki út er að ný orð bætist í hóp þeirra sem fyrir eru.

Fréttaskýring

Eftir Helga Snæ Sigurðsson og

Höskuld Ólafsson EITT af frumskilyrðum þess að íslensk tunga deyji ekki út er að ný orð bætist í hóp þeirra sem fyrir eru. Orð sem annað hvort ná utan um nýja „íslenska“ hugsun eða orð sem þýða má úr erlendu tungumáli. Ný orð verða hins vegar ekki til af sjálfu sér og þó einhverjum snjöllum orðasmiði detti sniðug þýðing í hug er ekki þar með sagt að hún öðlist strax gildi. Málræktarsvið Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum hefur m.a. það hlutverk að styðja við íðorðasöfnun í landinu og einnig að halda utan um nýyrðasköpun. Ágústa Þorbergsdóttir, starfsmaður stofnunarinnar, segir íðorðanefndir oft vera grasrótarsamtök og ekki alltaf settar á laggirnar með formlegum hætti. Íðorðanefndirnar tengjast mjög oft fagfélögum og eru skipaðar að þeirra eigin frumkvæði. Algengt er að þeir sem sitja í íðorðanefndunum séu háskólakennarar í viðkomandi fagi. Málræktarsvið Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum tilnefnir ekki í slíkar nefndir en hefur mikinn áhuga á starfi þeirra. Hins vegar er flugorðanefnd dæmi um stjórnskipaða nefnd og heyrir hún undir samgönguráðuneytið. Nefndirnar geta lagt orð í orðabanka, sem enn er kenndur við Íslenska málstöð á netinu, en þar eru 40 orðasöfn.

Tískuviti skráður

Hvað nýyrði í almennu máli varðar, orð sem ekki falla í neinn sérstakan flokk í íðorðasafni, þá segir Ágústa að ef stofnunin frétti eða sé látin vita af nýyrði eða tökuorði þá sé það skráð. Dæmi um slíkt er enska orðið „trendsetter“, sem auglýst var eftir þýðingu á í fyrra í nýyrðasamkeppni og þá kom fram orðið tískuviti. „En það getur auðvitað einhver búið til orð eins og tískuviti og aldrei látið okkur vita af því,“ bætir Ágústa við. Auðveldara sé að halda utan um þau orð sem orðanefndir komi með, þar sem þær haldi utan um sín orðasöfn og vinni í þeim. Ekki sé auðvelt að finna ný orð í almennu máli vegna gríðarlegs textamagns sem þyrfti að fara yfir. Þar gætu þó aðferðir tungutækninnar auðveldað verkið í framtíðinni.

Vald fjölmiðla

Ágústa segir að fólk hafi mikinn áhuga á nýyrðum sem tengjast tækni. Þar megi nefna orðið „tónhlaða“, sem eigi að ná yfir stafræna spilara á borð við iPod.

Babb geti komið í bátinn þegar tækið breytist, í þessu tilfelli úr því að vera aðeins hljóðspilari í það að geta sýnt hreyfimyndir, ljósmyndir og sjónvarpsefni. Þá er merking orðsins orðin of þröng.

Þegar farsíminn leit dagsins ljós veltu menn ýmsum orðum á milli sín, t.d. „heimssíma“. Að lokum stóð val milli farsíma og gemsa, en orðin virðast álíka mikið notuð. „Það er enginn einn sem ákveður slíkt. Þetta ákveða fjölmiðlarnir mjög mikið, þið hafið ekki minna vald en við. Með því að nota þessi orð í fréttum heyrir fólk þau,“ segir Ágústa.

Tímafrek vinna

Jóhannes B. Sigtryggsson, starfsmaður málræktarsviðs, segir að langflest þeirra orða sem finna má í nýyrðadagbókinni hafi verið skráð í tengslum við málfarsráðgjöf hjá Íslenskri málstöð. Hún sé því ekki afrakstur skipulegrar orðtöku úr nútímamáli. „Við höfum ekki mikinn tíma til að sinna þessu sérstaklega en ef við rekumst á nýyrði skrifum við þau hjá okkur.“ Jóhannes segir málnefndir í öðrum löndum, t.d. Svíþjóð, safna skipulega nýyrðum; úr dagblöðum, nýjum bókum og öðrum miðlum og þar séu gefnar út orðabækur yfir nýyrði.

Málræktarsvið Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum stefnir hugsanlega að frekari nýyrðasöfnun. „Það er í rauninni ekki hægt að fá skýrt yfirlit yfir nýyrði nema með skipulegri söfnun, t.d. leit í gagnasafni Morgunblaðsins að orðum, athuga aldur þeirra og uppruna. Við höfum auðvitað áhuga á að safna sem flestum nýyrðum en höfum ekki komist í að safna þeim skipulega. Þetta er mjög tímafrekt og nú horfum við frekar til þess hvort hægt verður í náinni framtíð að nota nútímalegri aðferðir, það er að láta tölvur vinna verkið að mestu leyti.“

Nýyrðafjöld

Á hverjum tíma eru mörg erlend orð í umferð sem gott væri að fá þýðingu á. Hér eru nokkur dæmi og tillögur góðra orðasmiða :

Þórarinn Eldjárn lagði eftirfarandi til um enska orðið „shortcut“: skáskot (samanber „að skáskjóta sér“) og um enska orðið „take-away“ leggur hann til nafnorðið meðtak (húmoristar gætu einnig talað um brottnámsrétti).

Pétur Þorsteinsson kom með þessar hugmyndir að enska orðinu „brunch“: dragbítur (árbítur sem dregst) og að blogga: Að daga. Bloggfærsla: Dögun.

Á meðal annarra orða sem ekki hafa verið íslenskuð eru eftirfarandi: Að gúggla, iPod, að deita, wannabe, grandparents, outlet og gigg. Hafi lesendur góðar hugmyndir að þýðingum á þessum orðum mega þeir gjarnan senda línu á menning@mbl.is.