Goðsagnakennd „Ég hef alltaf verið mjög upptekin af goðsögunni og að líf okkar gæti verið goðsagnakennt. Ég kemst að því með að skrifa þessa bók að það eru dyr þarna á milli,“ segir Elísabet Jökulsdóttir.
Goðsagnakennd „Ég hef alltaf verið mjög upptekin af goðsögunni og að líf okkar gæti verið goðsagnakennt. Ég kemst að því með að skrifa þessa bók að það eru dyr þarna á milli,“ segir Elísabet Jökulsdóttir. — Morgunblaðið/Golli
Eftir Ásgeir H Ingólfsson asgeirhi@mbl.is „ÉG svaf hjá í Central Park.“ Svona byrjar bókin og ég veit ekki hvort ég á eftir að lesa bók með kröftugri upphafsorðum fyrir þessi jól.

Eftir Ásgeir H Ingólfsson

asgeirhi@mbl.is

„ÉG svaf hjá í Central Park.“ Svona byrjar bókin og ég veit ekki hvort ég á eftir að lesa bók með kröftugri upphafsorðum fyrir þessi jól. Hann er svartur og hún er hvít, hann er hattagerðarmaður og trommuleikari og hún er skáld, hann er Algea og hún er ég-ið, hún heitir Elísabet Jökulsdóttir og svarar spurningum mínum á ísköldum degi í Dublin. Bókin heitir Heilræði lásasmiðsins og fjallar um samband hennar við Algea sem hefst í New York en lýkur í Vesturbæ Reykjavíkur. Þau tvö eru alla tíð í forgrunni, ást þeirra, kynlífið, rifrildin og þögnin sem er á milli þeirra. En þarna hittum við líka fyrir fjölskyldu Elísabetar og vini, drauga og goðsagnir – og vitaskuld véfréttarlega lásasmiði sem bjarga konum í neyð.

Óflúrað kynlíf

„Ég sé söguna eins og smásjá, verkfæri til að rannsaka hvað gerðist,“ segir Elísabet mér um þessa smásjá á eigið líf. En var ekkert óþægilegt að skrifa svona opinskátt án þess að hafa skáldaða persónu til varnar? „Ég komst að því að best var að segja þetta bara eins og það var. Um leið og ég ætlaði eitthvað að fara að upphefja kynlífið eða skammast mín fyrir það eða eitthvað svoleiðis þá virkaði það ekki. Ég var ekki að flúra þetta eða upphefja kynlífið eins og oft er gert.“ En hún játar að hafa fengið bakþanka þegar bókin var í próförk og eftir að hún kom út, og man eftir uppgötvun sinni við skriftirnar: „Já, nú veit ég til hvers skáldskapurinn er, hann er til þess að fela sig. En í raun er fáránlegt ef það er feimnismál að skrifa um kynlíf, ég hef alltaf haft áhuga á kynlífi og fannst gaman að skrifa um það, en ég varð stundum að telja í mig kjark. Annars hugsaði ég mest til Ástu Sigurðardóttur rithöfundar sem dó fyrir löngu. Ég var 16 ára þegar ég las hana, og hvernig hún skrifaði, ósvífið en erótískt, um konu sem langaði að fylla hendur sínar af hári karlmannsins, hafði mikil áhrif á mig.“

En myndi Algea kannast við sjálfan sig í sögunni? Ýmsu virðist Elísabet trúa lesandanum fyrir sem hún gat ekki sagt honum – en þó virðist hún hafa sagt honum meira en hann henni. „Í einum kaflanum reyni ég að ímynda mér hvernig hann sjái þetta. Mér fannst ég svo ein, ég var edrú og var búin að fara í þerapíu og var svo æðisleg – en svo sá ég sjálfa mig bara sem algjört kontról-frík. Þessi svokallaða góðmennska mín, að láta hann fá pening og bjóða honum hingað, þetta er náttúrlega bara misskilin góðmennska, maður heldur að þetta sé góðmennska en þetta er stjórnsemi.“

Jökull og aðrir draugar

Jökull Jakobsson, faðir Elísabetar, var landsþekkt leikskáld sem lést aðeins 44 ára gamall fyrir bráðum 30 árum. Þeir sem eru ekki nógu gamlir til að muna Jökul þekkja hann sjálfsagt margir úr minningabókum, ljóðabókum og blaðagreinum bæði barna hans og barnsmóður og fyrrverandi eiginkonu. „Við pössum okkur að halda engin fjölskylduboð,“ segir Elísabet þegar ég reyni að hnýsast en játar svo tilgátu minni að bækurnar séu fjölskylduboðin og glottir í símann. „En maður hefur verið upptekinn af kallinum. Hann er þessi týpíski skuggi – eins og þeir verða, James Joyce á Írlandi og Halldór Laxness á Íslandi. Svo er þetta líka bara alkóhólisminn, maður verður svo upptekinn af alkanum. En það er líka ástarjátning að skrifa um pabba, aðferð til að skilja okkar samband, og birta mynd af honum. Það er eðlilegt að skrifa um þá sem maður elskar. Mínar skriftir eru alltaf einhvers konar ástarjátning hvort sem er. Ég skrifaði t.d. um fótbolta af því ég elska fótbolta.“

Jökull er þó ekki eini draugur bókarinnar, í henni er heil herdeild lítilla persóna, vina og vandamanna bæði hennar og Algea og þeir eru alls ekki allir á lífi. „Þessir draugar eru náttúrlega bara þráhyggjan mín – og þegar maður setur þetta á blað er þetta hálfógnvekjandi,“ segir Elísabet. En þetta er líka afskaplega goðsagnakennd bók, þótt hún sé sannsöguleg verður hún aldrei hversdagsleg. „Ég hef alltaf verið mjög upptekin af goðsögunni og að líf okkar gæti verið goðsagnakennt. Ég kemst að því með að skrifa þessa bók að það eru dyr þarna á milli. Maður getur farið á milli þessara heima, ímyndunar og raunveruleika, og þetta er ekki alltaf svona aðskilið eins og manni er kennt. Stundum finnst manni líf okkar vera ofið úr goðsögunni þótt við vitum það ekki, enda gætum við kannski ekki lifað ef við værum alltaf rosalega meðvituð um það.“

Henni finnst gaman að því að ég kalli þetta goðsögubók og rifjar upp hvernig Matthías Viðar heitinn, vinur hennar, vakti áhuga hennar á goðsögunni. „Goðsagan klofnar í list, trú og vísindi – áður var goðsagan til að útskýra heiminn,“ segir Elísabet um tæki sitt til þess að útskýra heiminn.