Ólafur Ragnar Grímsson
Ólafur Ragnar Grímsson
Hér fer á eftir nýársávarp Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands. Fyrirsagnir eru Morgunblaðsins.

Hér fer á eftir nýársávarp Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands. Fyrirsagnir eru Morgunblaðsins.

Góðir Íslendingar

Við hjónin óskum ykkur öllum gleðilegs árs og vonum að framtíðin verði landi og lýð mild og gæfurík þótt blikur séu á lofti og veður kunni að verða válynd.

Við erum minnt á það daglega hér á Bessastöðum að Íslendingar hafa löngum átt á brattann að sækja. Þegar Jónas Hallgrímsson sat á skólabekk hér handan við vegginn, svaf uppi á lofti og glímdi á túnum var þjóðin með öllu réttindalaus, svo ofurseld erlendu valdi að henni voru flestar bjargir bannaðar.

Ferðalöngum frá fjarlægum löndum brá heldur í brún við að hitta hér skítuga skólasveina sem sátu á fletum fullum af heyi; fæðið tros og siginn fiskur.

Við þennan harða kost óx samt og dafnaði frelsisandinn sem fylgdi Fjölnismönnum og öðrum frumherjum, gerði þeim kleift að hefja baráttu sem í fyllingu tímans færði þjóðinni sigur.

Við minntumst þess fyrir skömmu að 200 ár voru liðin frá fæðingu Jónasar Hallgrímssonar. Hátíðahöldin gáfu tilefni til að rifja upp hvernig verk hans og ævistarf geta í hnotskurn verið samnefnari fyrir brýnustu viðfangsefni komandi ára.

Jónas er enn brautryðjandi þótt aldir tvær séu liðnar frá æskuárum í Öxnadal. Hann sýndi okkur að frjóust verður þjóðarmenning þegar hún nýtir sér strauma heimsins; var sókndjarfur fyrir hönd íslenskunnar, leitaði endurnýjunar í tungutaki fyrri alda; ötull á vettvangi vísindanna en kappkostaði jafnframt að miðla þekkingu til almennings; unnandi náttúrunnar og um leið framfaramaður sem óf með ljóðum sterka strengi í sjálfsvitund Íslendinga.

Það er einstakt lán að geta á umbrotatímum sótt innblástur og leiðsögn í arfleifð slíks manns, að finna með hjálp Jónasar svörin við brýnustu spurningum nýrrar aldar.

Munum hvernig Jónas beitti íslenskunni

Þeir sem efast um að háskólar eða fyrirtæki geti áfram notað íslenskuna í daglegum önnum og halda því fram að enskan eða önnur heimsmál eigi leikinn, ættu að muna hvernig Jónas beitti íslenskunni, fangaði þekkingu í vísindum og tækni með snjöllum nýyrðum sem okkur eru nú svo tungutöm að flestum kemur á óvart að þau eru í raun gjöf Jónasar til Íslendinga, áminning um að íslensk tunga er tæk á allt, að móðurmálið býr yfir slíkum krafti til nýsköpunar að einungis hugarleti eða tískudaður eru afsökun fyrir því að veita enskunni nú aukinn rétt.

Dæmi Jónasar sýnir líka að þekking og reynsla af öðrum þjóðum geta nýst landsmönnum vel, að náin kynni af stefnum og straumum á alþjóðavelli geta markað grundvöll framfara á heimaslóð, forðað okkur frá forpokun og mótað efnivið í nýja sigra.

Sagan geymir sóknarskeið, sjálfstæðisbaráttuna, þjóðveldistímann, nýliðna áratugi svo að nokkur dæmi séu nefnd, sem eru til vitnis um að þá vegnar Íslendingum jafnan best þegar saman fara alúð við arfleifð þjóðarinnar og lifandi lærdómar af annarra reynslu, þekking á hinu besta í fari heimsins – þegar við erum í senn veraldarvön og trú okkur sjálfum.

Samtímanum svipar til ævi Jónasar á þann hátt að við heyjum líka sjálfstæðisbaráttu og munum enn frekar gera í framtíðinni.

Sú sjálfstæðisbarátta á rætur að rekja til byltinganna sem umskapað hafa veröldina, opnað lönd og álfur, veitt nýjum kynslóðum tækifæri til að kjósa sér búsetu hvar sem er. Áður mátti ganga að því vísu að íbúarnir yrðu áfram heimilisfastir hjá ættjörðinni, en nú eru engar slíkar tryggingar. Fólkið flytur bara burt ef annars staðar bjóðast betri kostir. Aldrei fyrr hefur unga fólkið í okkar álfu haft heiminn allan að vettvangi sínum.

Í sérhverju ríki verða ráðamenn nú að öðlast tiltrú ungra landa sinna, sannfæra nýja kynslóð um að vænsta leiðin til velfarnaðar sé að halda tryggð við ættjörðina.

Íslendingar hafa hingað til verið lánsamir í þessum efnum. Unga fólkið sækir nám og reynslu til annarra landa en leitar samt aftur heim. Ýmsar þjóðir hafa aðra sögu að segja. Því kynntist ég vel í heimsókn minni til Rúmeníu á liðnu ári og einnig í samræðum við ráðamenn í fleiri löndum.

Flest ríki í Austur- og Mið-Evrópu heyja nú harða baráttu um hugi unga fólksins því þúsundir kjósa á hverju ári að fara burt. Rúmenía hefur misst nærri hálfa milljón, bara til Ítalíu, og fólksstraumurinn frá Eystrasaltsríkjum er vaxandi vandi.

Víða um heim hef ég verið knúinn svara þegar ráðamenn ræða þennan vanda. „Hvernig tekst ykkur Íslendingum að halda í unga fólkið?“ spurði forseti Rúmeníu.

Að tryggja nýrri kynslóð farsæla framtíð í heimalandi er í reynd sjálfstæðisbarátta þessarar aldar, kjarninn í viðleitni stjórnvalda og atvinnulífs. Án árangurs á því sviði munu þjóðirnar bíða stórfellt tjón, eiga erfitt með að sækja fram og treysta grundvöll lífskjaranna.

Unga kynslóðin í okkar heimshluta er hin fyrsta sem býr við þá stöðu að hver og einn, karl eða kona, getur kosið sér land til búsetu. Hvorki stjórnarskrá, löggjafarþing né ríkisvald veita þá tryggingu sem úrslitum ræður. Nú hefur sérhver íbúi ákvörðun í eigin hendi og dæmir sjálfur hvar best er að vera; engin vistarbönd halda þeim sem vilja hasla sér völl í öðru landi.

Útrásin hefur skipt sköpum

Þótt okkur finnist eðlilegt að unga fólkið búi áfram hér heima, kannski vegna þess að ættjarðarástin sem við erfðum frá Jónasi og Fjölnismönnum er enn sterk í brjóstum okkar, þá sýnir reynsla annarra þjóða að barist er um hugi og hollustu kynslóðanna sem nú koma jafnt og þétt inn á völlinn.

Sem betur fer hefur tekist einkar vel að skapa ungum Íslendingum ríkuleg tækifæri til að tvinna saman rætur á heimaslóð og athafnasemi á veraldarvísu, en þó er engan veginn sjálfgefið að svo verði áfram.

Hér hefur útrásin, hin víðtæku alþjóðlegu umsvif í viðskiptum, vísindum og menningarlífi, skipt sköpum, veitt þúsundum tækifæri til að sanna getu sína, ná árangri sem nýst hefur allri þjóðinni vel.

Með vissum hætti er útrásin ein af mikilvægum ástæðum þess að við Íslendingar stöndum vel að vígi í sjálfstæðisbaráttu nýrrar aldar. Hún er ríkur þáttur í sterkri stöðu þjóðarinnar, sönnun sem dugir ungu fólki þegar spurt er hvort það vilji veðja á ættjörðina.

Efnilegir vísindamenn og sérfræðingar finna í öflugum háskólum og rannsóknarstofnunum hér heima leiðir til þátttöku í alþjóðlegri þekkingarsköpun.

Síaukinn áhugi á íslenskri menningu, bókmenntum og listum í öðrum löndum veitir nýrri kynslóð aukinn kraft til að helga sig hinni listrænu köllun.

Árangur banka og íslenskra fyrirtækja víða um veröld hefur skapað nýjan vettvang fyrir athafnafólk og námsmenn sem sótt hafa þekkingu í fjármálum og viðskiptum til háskóla í ýmsum löndum.

Orkuútrásin getur líka, ef rétt er á haldið, styrkt til muna stöðu Íslands, veitt ungu fólki sem áhuga hefur á jarðfræði, náttúruvísindum, verkfræði og tæknistörfum fjölþætt tækifæri til að nýta menntun sína. Um leið hjálpum við öðrum þjóðum að virkja hreinar orkulindir og eflum baráttuna gegn breytingum á loftslaginu, tökum öflugan þátt í brýnasta verkefni þessarar aldar.

Það hafa verið forréttindi fyrir mig að leggja sókn á svo mörgum sviðum nokkurt lið, greiða götu unga fólksins.

Embætti forseta Íslands var í öndverðu tákn um sigur fátækrar þjóðar og kannski er eitt mikilvægasta hlutverk þess á okkar tímum fólgið í liðveislu á vettvangi sjálfstæðisbaráttu nýrrar aldar, að gagnast ungu fólki í glímunni um framtíðina og taka þannig þátt í að sannfæra sérhvern ungan Íslending um að besti kostur hans eða hennar sé að hafa ættjörðina að athafnavelli, að helga Íslandi heimili sitt og fjölskyldulíf.

Það hefur veitt mér mikla gleði að vinna með ykkur að þessum verkum og ég mun ætíð meta mikils trúnaðinn sem þjóðin hefur falið mér. Sé það nú á nýju ári vilji Íslendinga að ég beri áfram þessa ábyrgð er ég fús að axla hana en veit um leið af eigin reynslu að embætti forseta Íslands fylgja ríkar skyldur. Enginn getur innt þær af hendi svo vel sé nema njóta trausts meðal þjóðarinnar.

Þótt óvissan sé ef til vill meiri nú en oftast áður, blikur á lofti eins og ég nefndi í upphafi, bæði vegna sviptinga í hagkerfi heimsins og þróunarinnar hér hjá okkur, skulum við ganga bjartsýn fram eftir vegi, kappkosta að efla samstöðuna og missa ekki sjónar á því sem mestu skiptir, hinum raunverulegu verðmætum sem veita hverjum og einum farsælt líf.

Kapphlaupið um auð og eignir hefur um skeið verið svipmót tímans, skilað ýmsum ávinningum þótt þúsundir berjist við hin bágu kjör, margir sitji fastir í fátæktargildru og enn sé brýnt að „gera velferðarnetið svo þéttriðið að það veiti öllum öruggt skjól“ svo vitnað sé til hvatningar í nýársávarpi fyrir fáeinum árum.

Þanþolið reynst ótrúlegt

Þanþolið í hagkerfinu hefur á köflum reynst ótrúlegt en nú bendir margt til að hollt sé að ganga hægar um gleðinnar dyr, nema staðar um stund og hugleiða hvað skiptir mestu.

Er það eyðslan, gæðin sem ganga kaupum og sölum, eða stundirnar með fjölskyldunni, ánægjan sem börnin veita foreldrunum, gleðin þegar við vitum að okkar fólki líður vel?

Svarið sem ungur piltur veitti á Forvarnardaginn fól í sér vísbendingu. Hann sagði að betra væri að kaupa minni íbúð því þá þyrftu foreldrarnir ekki að vinna eins mikið og fjölskyldan gæti verið meira saman.

Þessi lífssýn er okkur öllum áminning og sama gildir um önnur svör sem grunnskólabörnin gáfu á Forvarnardaginn. Þau báðu ekki um veraldleg gæði, nýjustu tæki eða tölvuleiki, heldur fóru fram á félagsskap með foreldrunum, gleðina sem hið hversdagslega veitir öllum, samveru á góðum stundum. Við ættum að hlusta á þetta unga fólk, muna lífsgildin sem þeim eru kærust.

Kannski er kominn tími til að við hægjum aðeins á kapphlaupinu, hefjum að nýju til vegs hófsemi og aðrar dyggðir sem byggðar eru á mannlegum gildum.

Þótt við höfum á stundum verið miklir eyðsluseggir Íslendingar og sú athafnasemi knúið aflvélar atvinnulífsins kann á komandi árum að vera skynsamlegt að venda sínu kvæði í kross, setja sparnað í öndvegi, gera aðhald og nýtni að aðalsmerki, nota áfram góða hluti í stað þess að kaupa sífellt eitthvað nýtt.

Árangur Íslendinga í efnahagsmálum er að sönnu athyglisverður en of mikil eyðsla er veikur hlekkur. Sé ætlunin að tryggja þjóðinni stöðugleika verður að sýna gætni, fara varlegar í framtíðinni.

Við þurfum að festa í sessi gildismat sem byggt er á dyggðunum sem ömmur okkar og afar mátu mikils, fólkið sem kom Íslandi úr fátækt til góðra efna.

Slíkt gildismat er forsenda þess að þjóðinni auðnist að vera áfram á sigurbraut og sjálfstæðisbarátta nýrrar aldar reynist okkur gæfurík, líkt og ævintýrið sem hófst þegar unglingurinn úr Öxnadal sótti skólann hér á Bessastöðum, sendi landsmönnum svo brýningar frá Kaupmannahöfn og varð fyrsti nútímamaðurinn í íslenskum skáldskap.

Í hans anda skulum við óttalaus mæta nýjum straumum um leið og við treystum ræturnar, missum ekki sambandið við upprunann.