— Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þrjú fyrirtæki á sviði greiðslumiðlunar hafa verið sektuð um 735 milljónir króna. Þau höfðu með sér ólögmætt samráð í þeim tilgangi að ýta keppinauti sínum út af markaðinum.

Eftir Egil Ólafsson

egol@mbl.is

Greiðslumiðlun, Kreditkort og Fjölgreiðslumiðlun hafa náð sáttum við Samkeppniseftirlitið um að greiða samtals 735 milljónir króna í sekt vegna brota á samkeppnislögum. Í sáttinni felst einnig að Greiðslumiðlun og Kreditkort viðurkenna að hafa haft með sér langvarandi og víðtækt ólögmætt samráð. Tók Fjölgreiðslumiðlun að hluta til þátt í því.

Upphaf málsins er að 13. júní 2006 gerði Samkeppniseftirlitið húsleit í starfsstöð Greiðslumiðlunar. Á grundvelli gagna sem þar fundust var síðar sama dag leitað hjá Kreditkortum. Í mars í fyrra var síðan gerð húsleit hjá Fjölgreiðslumiðlun.

Greiðslumiðlun sneri sér til Samkeppniseftirlitsins á síðasta ári og óskaði eftir að sátt yrði gerð í málinu og náðist hún í lok nóvember. Kreditkort og síðar Fjölgreiðslumiðlun óskuðu síðar eftir því að gera einnig sátt í málinu. Í sáttinni felst að Greiðslumiðlun greiði 385 milljónir í sekt, Kreditkort 185 milljónir og Fjölgreiðslumiðlun 165 milljónir.

Hörð viðbrögð við innkomu nýs aðila á markaðinn

Allt fram til ársins 2002 voru Greiðslumiðlun og Kreditkort einráð í viðskiptum með greiðslukort. Í nóvember það ár hóf danskt fyrirtæki, PBS International, starfsemi hér á landi í samkeppni við fyrirtækin tvö. Samstarfsaðili danska fyrirtækisins er Kortaþjónustan ehf.

Áður en PBS/Kortaþjónustan hóf starfsemi gerðu Greiðslumiðlun og Kreditkort að jafnaði upp við söluaðila einu sinni í mánuði. PBS/Kortaþjónustan bauð hins vegar upp á þá nýbreytni að bjóða söluaðilum örari útborgun vegna kortaviðskipta, sem styst var tveimur dögum eftir að viðskipti höfðu átt sér stað. Ótvírætt hagræði var í því fyrir fyrirtæki að fá fjármunina sem fyrst í hendur.

Greiðslumiðlun var í markaðsráðandi stöðu á þessum markaði. Í fréttatilkynningu Samkeppniseftirlitsins kemur fram að stjórnendur Greiðslumiðlunar hafi verið neikvæðir út í þessa nýju samkeppni og innan fyrirtækisins hafi verið tekin saman minnisblöð og ritaðir tölvupóstar „þar sem fram kemur ásetningur um að koma PBS/Kortaþjónustunni út af íslenskum færsluhirðingarmarkaði og voru aðgerðir ákveðnar í því skyni.“

Í úrskurði Samkeppniseftirlitisins er hvergi vitnað beint í þessi minnisblöð eða tölvupósta, en hins vegar segir að tilgangur Greiðslumiðlunar hafi verið að koma PBS/Kortaþjónustunni út af markaðinum og gefa þannig eins konar viðvörun öðrum sem hygðust hefja samkeppni hér á landi á þessu sviði.

Hafði samband við viðskiptavini Kortaþjónustunnar

Vegna stöðu sinnar á markaðinum bjó Greiðslumiðlun yfir upplýsingum um viðskipti PBS/Kortaþjónustunnar. Þetta notfærði Greiðslumiðlun sér og sneri sér beint til viðskiptavina PBS/Kortaþjónustunnar og bauð þeim sértæk kjör og tilboð. Um var að ræða verðlækkanir á þjónustu og örari útborganir sem öðrum söluaðilum stóðu almennt ekki til boða. Í sumum tilvikum var fyrirtækjunum boðin lækkun á posaleigu eða jafnvel ókeypis posar en það fól í sér ólögmæta samtvinnun.

Greiðslumiðlun beitti einnig tæknilegum hindrunum, svo sem áhættustýringu, til þess að gera söluaðilum í viðskiptum við PBS/Kortaþjónustuna erfiðara um vik að framkvæma kortaviðskipti. Þessar hindranir leiddu til tafa og óþæginda hjá söluðailum og korthöfum. Gögn málsins sýna einnig að Greiðslumiðlun, sem er aðili að VISA International, beitti VISA Europe þrýstingi og setti sérstakar reglur um færsluhirðingu sem voru til þess fallnar að hindra starfsemi PBS/Kortaþjónustunnar á Íslandi.

Margvíslegt ólöglegt samráð

Samkeppniseftirlitið telur að Greiðslumiðlun og Kreditkort hafi haft með sér margvíslegt ólögmætt samráð og að Fjölgreiðslumiðslun hafi að hluta til tekið þátt í því. Greiðslumiðlun og Kreditkort höfðu strax í nóvember 2002 með sér samráð sem miðaði að því að koma í veg fyrir að PBS/Kortaþjónustan næði fótfestu á Íslandi. Samráðið gekk m.a. út á að fyrirtækin sammæltust um að sækjast ekki eftir umsýsluleyfum undir vörumerkjum hvort annars. Greiðslumiðlun hafði samráð við Kreditkort um að það fyrirtæki myndi ekki fara út í posaleigu í samkeppni við Greiðslumiðlun, gegn samningi um að Kreditkort fengi þess í stað að kaupa VISA Raðgreiðslusamninga. Þetta fól í sér samráð um að takmarka samkeppni á posaleigumarkaði.

Fyrirtækin höfðu einnig með sér samráð um hlut útgefanda í þóknun frá söluaðilum vegna notkunar á debetkortum. Þau höfðu sömuleiðis með sér samráð um að draga úr tilboðum til viðskiptavina, auk samráðs um markaðs- og kynningarstarf. Samráð var einnig haft um setningu ýmissa skilmála sem tengist kortunum.

Kreditkort, Greiðslumiðlun og Fjölgreiðslumiðlun skiptust á upplýsingum um viðskiptaleg málefni, eins og t.d. upplýsingum um markaðshlutdeild, verð og verðlagningaráform. Kreditkort og Greiðslumiðlun höfðu einnig með sér samráð um ýmis þróunar- og fjárfestingaverkefni. Markmiðið með þessu var að verja stöðu félaganna og takmarka hættu af mögulegri samkeppni í framtíðinni.

Í úrskurði Samkeppniseftirlitsins segir að varðandi ýmis brot um samráð hafi Kreditkort og Greiðslumiðlun lagt á það áherslu að félögunum hafi láðst að sækja um undanþágu frá banni samkeppnislaga við samkeppnishamlandi samráði.

Samkeppnishamlandi samráð

Bæði kortafyrirtækin eiga ásamt bönkunum fyrirtækið Fjölgreiðslumiðlun. Innan fyrirtækisins var starfandi svokölluð RÁS-nefnd, en þar átti sér stað margs konar samráð um tækni- og öryggismál. Samkeppniseftirlitið telur að samráð um þessi atriði hafi verið samkeppnishamlandi á markaði fyrir notkun greiðslukorta. Dæmi um þetta samráð er samræming reglna um áhættustýringu og innhringihlutfall þegar kortin eru notuð í viðskipum. Samráð var haft um breytileg kortatímabil. Samráð var haft um viðmiðunarupphæðir þegar GSM símar voru notaðir til greiðslumiðlunar.

Varðandi ýmis þessara brota hefur Fjölgreiðslumiðlun lagt á það áherslu að félaginu hafi láðst að sækja um undanþágu frá banni samkeppnislaga um samkeppnishamlandi samráð. Samkeppnisstofnun telur einnig ekki unnt að útiloka að hluti brota Fjölgreiðslumiðlunar hafi verið framin af gáleysi.

Fyrirtækin játuðu brotin og auðvelduðu rannsókn

Varðandi ákvörðun um upphæð sekta segir Samkeppniseftirlitið að ekki verði framhjá því litið að Greiðslumiðlun hafi haft mjög sterka stöðu á markaðinum. Það verði jafnframt að líta til þess að fyrirtækin höfðu frumkvæði að því að leita eftir sáttum og þau hafi játað brot sín á samkeppnislögum undanbragðalaust. Með þessum aðgerðum hafi fyrirtækin þrjú auðveldað og stytt mjög rannsókn og málsmeðferð samkeppnisyfirvalda og það hafi haft jákvæð samkeppnisleg áhrif á markaðinum. Tekið er fram að við ákvörðun sekta sé Greiðslumiðlun umbunað fyrir að stíga fyrst fram og játa þátttöku sína í ólögmætu samráði.

Í úrskurði Samkeppniseftirlitsins kemur fram að fyrirtækin þrjú hafi fallist á að hlíta fyrirmælum sem ætlað er að efla virka samkeppni og koma í veg fyrir að samskonar brot verði framin á ný. Stjórnendum fyrirtækjanna er gert að undirrita yfirlýsingu um að þeir muni fara að kröfum Samkeppniseftirlitsins um þessi atriði.

Þetta felur í sér að Kreditkort og Greiðslumiðlun hætti allri viðskiptalegri samvinnu við keppinauta félagsins nema félögin fái undanþágu þess efnis. Kreditkort, Greiðslumiðlun og Fjölgreiðslumiðlun er gert að draga sig út úr öllum stjórnum, nefndum eða ákvörðunarhópum sem geta verið vettvangur fyrir ólögmætt samráð. Lagt er bann við því að Kreditkort, Greiðslumiðlun og Fjölgreiðslumiðlun miðli eða taki við upplýsingum sem raskað geta samkeppni.

Í úrskurðinum kemur fram að samkeppnisleg vandamál hafi stafað af tengslum milli Greiðslumiðlunar og Kreditkorts. Þannig hafa sömu fyrirtæki átt fulltrúa í stjórn bæði Greiðslumiðlunar og Kreditkorts. Þetta hafi skapað samráðsgrundvöll milli greiðslukortafélaganna og geti af þessu leitt mjög alvarlegar samkeppnishindranir. Samkeppniseftirlitið hefur því sett fyrirmæli til þess að rjúfa þessi stjórnunartengsl.

Samkeppniseftirlitið telur að samstarfið innan Fjölgreiðslumiðlunar hafi leitt til alvarlegra brota á samkeppnislögum. Vegna þess og í ljósi eðlis Fjölgreiðslumiðlunar sem samtaka keppinauta ætlar Samkeppniseftirlitið að láta fara fram heildstæða skoðun á starfsemi félagsins.

„Samráð keppinauta um t.d. verð og skiptingu markaða og samkeppnishömlur samtaka fyrirtækja er alvarleg atlaga að frjálsri samkeppni,“ segir í úrskurði Samkeppniseftirlitsins. Stofnunin vísar í þessu sambandi til dóms Hæstaréttar í svokölluðu grænmetismáli. Stofnunin telur brot Greiðslumiðlunar „mjög alvarlegt brot á 10. og 11. gr. samkeppnislaga sem voru til þess fallin að valda verulegri röskun á samkeppni.“

Stofnunin telur að brot Kreditkorta hafi falið í sér „mjög alvarlegt brot“ á 10 gr. samkeppnislaga sem hafi verið fallið til að valda verulegri röskun á samkeppni. Þá telur Samkeppniseftirlitið Fjölgreiðslumiðlun hafi brotið 10. og 12. gr. samkeppnislaga og að brotið hafi verið „alvarlegt“.

Í eigu banka og sparisjóða

EIGENDUR þeirra greiðslukortafyrirtækja sem viðurkenna að hafa brotið samkeppnislög eru bankar og sparisjóðir. Allir viðskiptabankarnir þrír eiga hlut í fyrirtækjunum þremur sem mál þetta varðar.

Greiðslumiðlun sem gefur út VISA-kort er í eigu þriggja banka og 23 sparisjóða. Eignaraðild þeirra er: Kaupþing 39,45%, Landsbanki Íslands 38,0%, Sparisjóðir 22,5% og Glitnir 0,05%.

Eigendur Kreditkorta eru Glitnir, SPRON, Landsbanki Íslands, Kaupþing og 16 sparisjóðir.

Fjölgreiðslumiðlun er í eigu viðskiptabankannna, sparisjóðanna, Greiðslumiðlunar og Kreditkorta, auk Seðlabanka Íslands.

Skipt um nafn og framkvæmdastjóra

Frá því að grunur vaknaði um að greiðslukortafyrirtækin hefðu brotið samkeppnislög hafa bæði fyrirtæki skipt um nafn og skipt um framkvæmdastjóra. Greiðslumiðlun heitir í dag Valitor hf. og Kreditkort heita í dag Borgun hf.
Meira á mbl.is/ítarefni

Kortaþjónustan varð fyrir umtalsverðu fjárhagstjóni

Eftir Bjarna Ólafsson og

Guðna Einarsson

KORTAÞJÓNUSTAN varð fyrir umtalsverðu fjárhagstjóni vegna samráðs Greiðslumiðlunar, Kreditkorta og Fjölgreiðslumiðlunar og ljóst er að fyrirtækið mun undirbúa höfðun skaðabótamáls vegna þess, segir Jóhannes Ingi Kolbeinsson, framkvæmdastjóri Kortaþjónustunnar.

Jóhannes segist fagna því að ákvörðun Samkeppniseftirlitsins líti nú dagsins ljós í kjölfar viðurkenningar Greiðslumiðlunar, Kreditkorta og Fjölgreiðslumiðlunar á ólöglegu samráði og misnotkun á markaðsráðandi stöðu. Niðurstaðan sé fagnaðarefni fyrir seljendur vöru og þjónustu jafnt sem neytendur.

„Við fögnum því að niðurstaðan sé loksins komin þótt hún komi okkur í sjálfu sér ekki á óvart,“ segir Jóhannes. „Þegar við komum inn á markaðinn árið 2002 buðum við betri kjör og örari uppgjör en samkeppnisaðilarnir og tók markaðurinn okkur mjög vel. Það sama er hins vegar ekki hægt að segja um samkeppnisaðilana og var okkur beinlínis tilkynnt af þeim að gera ætti út af við okkur.“

Segir Jóhannes það alrangt, sem segir í yfirlýsingu Valitor, að hvorki söluaðilar né korthafar hafi beðið skaða af brotunum. Segir hann keppinautana hafa beitt brögðum í þeirri viðleitni sinni að bola Kortaþjónustunni af markaði og látið það bitna á korthöfum. „Hugsunin var þá að gera korthöfum lífið svo leitt að þeir hættu að versla við þá söluaðila sem voru í viðskiptum við okkur.“ Meðal aðferða keppinautanna hafi verið aukaálag á kortafærslur og umbreytingar úr krónum í bandaríkjadali og aftur í krónur. Hafi korthafi verið látinn bera gengisáhættu af þeim færslum og hafi það getað leitt til aukakostnaðar fyrir hann. Þetta sérstaka ástand hafi varað í nokkra mánuði eða þar til gerð var athugasemd við það.

Jóhannes tekur fram að frá því að húsleitin var gerð árið 2006 og mannaskipti urðu hjá Greiðslumiðlun og Kreditkortum hafi aðstæður breyst og samskipti fyrirtækjanna við Kortaþjónustuna séu nú með eðlilegri hætti en áður.

Sektin helst til há

Haukur Oddsson, forstjóri Borgunar, áður Kreditkorta, segist í samtali við Morgunblaðið ánægður með að málinu skuli nú loks vera lokið. Þær áherslur sem komi fram í sátt Samkeppniseftirlitsins og Borgunar séu að fullu í takt við sjónarmið núverandi eigenda og stjórnenda Borgunar hvað þessi mál varði.

Tekur hann fram að brot þau sem Samkeppniseftirlitið vísi til hafi öll átt sér stað áður en eigendabreytingar áttu sér stað fyrir tæpum tveimur árum. „Núverandi meirihlutaeigendur fyrirtækisins hafa haft frumkvæði að því að stokka upp eignarhald þess til að tryggja góða stjórnar- og viðskiptahætti.“

Hvað varðar málið sjálft segir Haukur að sér þyki sektarupphæðin helst til há, einkum í ljósi þess að fyrirtækin höfðu engan fjárhagslegan ávinning af samstarfinu og að um ekkert verðsamráð hafi verið að ræða. Segir hann mikilvægt að undirstrika að það samstarf sem um var að ræða hafi snúið að miklu leyti að samráði um tæknilegar lausnir fyrirtækjanna.

„Annars tel ég rétt að taka það fram að Samkeppniseftirlitið tók afar fagmannlega á málinu og vann það vel.“

Ekki skaðað korthafa

Ljóst er að ekki var farið eftir reglum í ákveðnum tilfellum hjá Valitor, áður Greiðslumiðlun, á þeim áratug sem tekinn var til rannsóknar af Samkeppniseftirlitinu, að sögn Höskuldar H. Ólafssonar, forstjóra Valitor. Hann sagði brotið vera tvíþætt. Hvað varði brot gegn 10. grein er varði samráð og samskipti hafi verið of mikið um samskipti og samráð um ýmis málefni, ekki síst tæknileg málefni. Höskuldur sagði það mega m.a. rekja til þess að hér var smíðað mjög gott og hagkvæmt greiðslumiðlunar- og uppgjörskerfi sem kortafyrirtækin hafi m.a. komið að. Á þeim tíma hafi þessi fyrirtæki verið í eigu ríkisbankanna. Það sé ljóst að menn hafi átt að sækja um heimild til að eiga þessi samskipti, en það hafi ekki verið gert. Slíkt formlegt og óformlegt samráð hefur nú verið aflagt nema með leyfi Samkeppniseftirlitsins.

Hvað varðar brot gegn 11. grein varðandi misnotkun á markaðsráðandi stöðu sagði Höskuldur að Valitor, sem hefur slíka stöðu, hefði samþykkt að laga sig að gildandi reglum þar um. Hann taldi að markaðurinn hefði talsvert breyst frá því rannsóknin var gerð 2006 og aðilar breytt starfsemi sinni áður en niðurstaða hennar lá fyrir.

Fjármálafyrirtækin sem eiga kortafyrirtækin hafa tilnefnt starfsmenn sína í stjórnir kortafyrirtækja en nú verður að tilnefna stjórnarmenn sem ekki starfa hjá bönkunum.

Höskuldur segir í tilkynningu að hins vegar hafi rannsóknin leitt í ljós að hvorki söluaðilar né korthafar hafi borið skaða af þessum brotum. Valitor mun greiða 385 milljónir króna í sekt til ríkissjóðs vegna brota félagsins á samkeppnislögum á árunum 1995-2006. Segir Höskuldur, sem tók við stöðu forstjóra Valitor fyrir rúmu ári, að félagið hafi fallist á sátt við Samkeppniseftirlitið og þegar hafi verið brugðist við öllum ábendingum þess varðandi það sem betur megi fara í skipulagi og starfsemi fyrirtækisins.

Umfangsmikið mál

Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins, segir málið hafa verið með þeim umfangsmeiri sem eftirlitið hafi tekið fyrir. Aðspurður segir hann að rannsóknin hafi ekki miðað að því að kanna bótaskyldu einstakra aðila og engin afstaða hafi verið tekin til slíkrar bótaskyldu, enda ekki í verkahring eftirlitsins.

Hvorki Halldór Guðbjarnason, fyrrverandi forstjóri Greiðslumiðlunar, né Ragnar Önundarson, fyrrverandi forstjóri Kreditkorta, vildu tjá sig um málið að svo stöddu.