Afmælisbarnið „Jón Páll á vonandi eftir að leika sem oftast á tónleikum í framtíðinni og er svo sannarlega heiðurslistamaður Íslands [...].“
Afmælisbarnið „Jón Páll á vonandi eftir að leika sem oftast á tónleikum í framtíðinni og er svo sannarlega heiðurslistamaður Íslands [...].“ — Morgunblaðið/Golli
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Það er gleðilegt að Jón Páll Bjarnason, bíboppleikari Íslands númer eitt, skuli vera í fullu fjöri og búa yfir jafn frjórri sköpunargáfu og fyrr, sjötugur.

Það er gleðilegt að Jón Páll Bjarnason, bíboppleikari Íslands númer eitt, skuli vera í fullu fjöri og búa yfir jafn frjórri sköpunargáfu og fyrr, sjötugur. Enn dýrmætara þegar þrír af merkari djasslistamönnum Íslands hafa kvatt á síðustu mánuðum: Jón Sigurðsson bassi, Árni Scheving og Gunnar Reynir Sveinsson.

Fæddur á Seyðisfirði 6. febrúar 1938, fluttist ungur til Reykjavíkur, gekk í Gaggó Aust, fjölskyldan fórnaði útvarpstækinu svo hann gæti notað það sem magnara á laugardagskvöldum þegar hann spilaði á dansæfingum með Árna Scheving og Guðmundi Steinssyni, lék með Svavari Gests og tríói Gunna Sveins einsog Gunnar Reynir var kallaður þá; Scheving, Árni Egils, Gunnar Reynir og Gunnar Mogesen voru í kvintett hans 1958 og árið eftir lék hann með KK-sextettnum, hélt til Danmerkur og Þýskalands, lék á Sögu með Ragga Bjarna 1958, fluttist til Svíþjóðar árið eftir, var með hljómsveit á Hótel Loftleiðum 1972. Aftur út. Kom heim. Ákvað að setjast á skólabekk 1983, hélt til Los Angeles þarsem hann nam við Guitar Instute of Technology, lék m.a. með stórsveit Buddy Rich í Bandaríkjunum, sneri heim og er nú djassleikari Íslands númer eitt.

Þetta eru nokkrir stallar í lífshlaupi Jóns Páls Bjarnasonar og má margt heyra með honum á geisladiskum: Gunnar Ormslev: Jazz í 30 ár, KK-sextettinn: Gullárin. Ice með bandaríska kvartettnum hans, dúettskífu með Óla Gauk, skífunum tveimur með Útlendingahersveitinni, Bláum skuggum með Sigurði Flosasyni; auk þess allskonar hljóðritanir með söngvurum.

Það er dálítill munur á unga bíboppgítaristanum sem heyra má í Framsóknarhúsinu 1959 með félögum sínum og austurríska píanósnillingnum Friedrich Gulda og hinum þroskaða listamanni er leikur á diskum Útlendingahersveitarinnar og Bláum draumum. Óli Gaukur með sitt séríslenska Charlie Christian sánd var fyrsta fyrirmynd hans og svo Parker, sem hann kallar gjarnan „uppáhaldsgítarista sinn“ þó Parker hafi blásið á altó enda sló Jón Páll ekki gítarinn heldur blés. Eftir því sem árin hafa færst yfir hefur Jón Páll, einsog svo margir djassmeistarar, kafað æ dýpra í ballöðuleiknum. Tilfinningarnar voru djúpar er hann lék Lover man með Jazzmiðlum 1976 en á síðari árum hefur hann náð fullkomnun í ballöðutúlkun. Hlustum bara á sóló hans í minningarlagi Sigurðar Flosasonar um Gunnar Ormslev á Bláum skuggum: G.O.

Íslendingar hafa eignast marga djassleikara sem standa jafnfætis evrópskum kollegum sínum. Á lífsþráð sumra var skorið alltof fljótt s.s. Gunnars Ormslevs og Guðmundar Ingólfssonar. Aðrir hættu að spila í blóma lífsins, en sem betur fer héldu margir áfram að rækta listina og sannaðist það best er Útlendingahersveitin lék í fyrsta sinni á RúRek djasshátíðinni 1992. Jón Páll, Árni Scheving, Þórarinn Ólafsson, Árni Egilsson og Pétur Östlund höfðu allir leikið saman á árum áður, en nú sameinuðust þeir að nýju og skópu tæra list sem er varðveitt á geislaplötum og tónleikaupptökum. Þeir gimsteinar eru öllum aðgengilegir og Jón Páll á vonandi eftir að leika sem oftast á tónleikum í framtíðinni og er svo sannarlega heiðurslistamaður Íslands þó að úthlutunarnefndir listamannalauna hafi aldrei vitað af því.

Vernharður Linnet (linnet@simnet.is)