Stórkostlegt „Mér finnst þetta bara stórkostlegt hjá krökkunum,“ segir Carl A. Bergmann úrsmiður sem rekur verslun við Laugaveg og hefur verslað með úr í fleiri áratugi í miðborginni. Hann segir framtakið jákvætt.
Stórkostlegt „Mér finnst þetta bara stórkostlegt hjá krökkunum,“ segir Carl A. Bergmann úrsmiður sem rekur verslun við Laugaveg og hefur verslað með úr í fleiri áratugi í miðborginni. Hann segir framtakið jákvætt. — Morgunblaðið/Ómar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hópur ungra manna fór í skjóli nætur niður Laugaveginn vopnaður penslum og málningu. Einhver gæti haldið að hér væri eitthvað misjafnt á ferð en sú er alls ekki raunin.

Hópur ungra manna fór í skjóli nætur niður Laugaveginn vopnaður penslum og málningu. Einhver gæti haldið að hér væri eitthvað misjafnt á ferð en sú er alls ekki raunin. Málningin var hvít og tilgangurinn að útmá veggjakrot sem hópurinn segir mikla sjónmengun af. „Við viljum bæta almennt geð borgarbúa,“ segir talsmaður samtakanna.

Eftir Sunnu Ósk Logadóttur

sunna@mbl.is

Ji, er það?“ sagði Heiða Agnarsdóttir, verslunarstjóri hjá GK Reykjavík við Laugaveg er blaðamaður og ljósmyndari Morgunblaðsins sögðu henni frá því í gærmorgun að búið væri að mála yfir veggjakrotið á húsnæði verslunarinnar. „Ég kem nefnilega alltaf inn bakdyramegin, svo ég sá þetta ekki í morgun,“ segir hún og brosir út að eyrum meðan hún skoðar afrakstur uppátækis Góðverkasamtakanna betri bæjar, sem hún kannast þó ekki við.

Góðverkasamtökin láta líka ekki mikið yfir sér. Vinna verk sín í hljóði og koma meðlimir þeirra ekki fram undir nafni. Í samtali við Morgunblaðið sagði talsmaður þeirra að hópinn skipuðu nokkrir karlmenn um tvítugt sem ættu það sameiginlegt að búa í miðbænum og vera annt um hverfið sitt. „Þetta er að verða helvíti ógeðslegt hérna,“ segir hann. Hugmyndin að góðverkinu kviknaði þegar félagarnir voru að ganga fram hjá Herrafataverslun Guðsteins um síðustu helgi. „Þar er svo fallegt listaverk sem búið er að skemma með kroti. Þá ákváðum við að grípa til aðgerða. Við örkuðum út í búð og keyptum okkur fötu af málningu og pensla. Þetta var nú ekki meira mál!“

Í stuttri tilkynningu frá samtökunum segir að þau hafi farið í „fyrsta sinn á stjá“ í fyrrinótt með málningargjörningnum og því ekki hægt að skilja skilaboðin öðruvísi en að von sé á meiru. „Það er aldrei að vita hvað verður,“ segir talsmaðurinn. „Við viljum einbeita okkur að því að fegra miðbæinn og bæta almennt geð borgarbúanna.“

Jákvætt fyrir miðborgina

„Mér finnst frábært að ungt fólk hafi tekið sig til og gert þetta, það er alveg æðislegt,“ segir Heiða hjá GK um uppátæki Góðverkasamtakanna. „Allt sem gerir ímynd miðborgarinnar jákvæðari er alveg frábært.“

Hún segir veggjakrot vera vandamál, „en við erum yfirleitt dugleg að mála yfir.“ Hún segist oft geyma málningarfötu og pensla inn af versluninni sem hægt sé að grípa til þegar á þurfi að halda. „Það er auðvitað mikilvægt fyrir okkar rekstur að umhverfið sé snyrtilegt. Svo þetta er frábær hjálp,“ segir hún um verk Góðverkasamtakanna.

Heiða segist ekki viss um að veggjakrot sé meira nú en áður. Alltaf hafi verið krotað á Laugavegi. Hún játar að stundum fari veggjakrotið hreinlega framhjá sér, það venjist að hafa það fyrir augunum.

Hélt að eigandi hússins hefði málað yfir krotið

„Ég tók strax eftir því þegar ég mætti í vinnuna í morgun að búið var að mála yfir veggjakrotið,“ segir María Guðmundsdóttir sem starfar í versluninni Hjá Berthu við Laugaveg. „Ég hélt að eigandi hússins hefði gert þetta en er svo að frétta að hér hafi verið að verki hópur af ungu fólki. Þau eiga bara allan heiður skilið fyrir þetta. Mér finnst þetta bara alveg æðislegt hjá þeim.“

María segir veggakrot mikið vandamál við Laugaveginn. „Það er reglulega krotað hér á húsið hjá okkur og einnig er verið að líma hér upp auglýsingaplaköt. Það er mikill sóðaskapur af þessu. Það er því sérstaklega ánægjulegt að heyra af svona duglegu ungu fólki.“

Stórkostlegt uppátæki

Carl A. Bergmann úrsmiður, sem rekur samnefnda verslun við Laugaveg, hélt þegar hann mætti í vinnu í gærmorgun, að kaupmaðurinn við hliðina á sér hefði tekið upp pensilinn og málað yfir krotið. „Mér finnst þetta bara stórkostlegt hjá krökkunum,“ segir Carl og skoðar ummerkin eftir verk næturinnar, skjannahvítan vegg þar sem áður var blátt krot. „Þetta er gaman að heyra, mjög jákvætt, það er ekki hægt að segja annað.“

Hann segir mikilvægt að halda verslunarhúsnæðinu snyrtilegu, ekki síst vegna þess að húsið sé sögufrægt, þar hafi áður Gunnar í Von verið með fyrstu kjötverslun borgarinnar. „Þannig að ég lifi í voninni,“ segir Carl hlæjandi en hann hefur rekið verslun í miðbænum í fleiri áratugi. „Nei, mér finnst veggjakrotið ekkert hafa aukist, þetta er bara eins og þetta hefur alltaf verið.“

Sigurður Þórðarson

Okkur stendur ekki á sama

Þær sögur ganga fjöllum hærra að braskarar kaupi upp gömul hús...og sjái hag sínum best borgið með því að þau drabbist niður svo leyfi fáist til að byggja á dýrum lóðum. Nú sjást merki þess að borgararnir séu vaknaðir og séu að ýta við stjórnmálamönnunum. Góðverkssamtökin Betri bær hafa málað yfir veggjakrot og sóðaskap í miðborg Reykjavíkur og er það vel. Okkur Reykvíkingum stendur ekki á sama, við viljum ekki slömm í miðbænum.

siggith.blog.is

Sneott Bergz

Beint í steininn

Já, þetta veggjakrot er orðið óþolandi. Þetta fer alveg ferlega í taugarnar á mér. Óþolandi að sjá einhverja aula vera að fremja skemmdarverk á eigum annarra með þessum hætti. Þetta lið þarf að góma og stinga á Hraunið eftir að hafa borgað skaðabætur og þrifið upp eftir sig ósómann. Þá myndi það kannski sjá að sér.

hvala.blog.is

Haukur Arnar Árnason

Hugmynd að lausn

Algjörlega til fyrirmyndar. En, stundum eru til betri lausnir. Ef einhver hefur áhuga, þá á ég málningu sem ekki er hægt að krota / spreyja á. Hefur þann eiginleika að það tollir ekkert á henni. Bara hugmynd að jafnvel framtíðarlausn

madasahatter.blog.is