„Ég veit ekki alveg hvernig það gerðist að Íslendingar tóku yfir bar í Berlín,“ segir Arnar Eggert Thoroddsen um þá stemningu er hefur skapast um barinn 8mm í Berlín. Arnar Eggert var búsettur í Berlín frá árinu 2005 til 2006.
„Ég veit ekki alveg hvernig það gerðist að Íslendingar tóku yfir bar í Berlín,“ segir Arnar Eggert Thoroddsen um þá stemningu er hefur skapast um barinn 8mm í Berlín.

Arnar Eggert var búsettur í Berlín frá árinu 2005 til 2006. „Hljómsveitin Singapore Sling vandi komur sínar þangað, síðan skall á einhver virkni meðal ungra Íslendinga í Berlín og þá gerðist það að þeir fóru að fjölmenna á Áttuna. Síðan hefur orðspor barsins haldið áfram að breiðast út og nú er svo komið að hægt er að treysta á að hitta tvo til þrjá Íslendinga í hvert skipti sem maður rekur nefið þangað inn.“

Kringlóttir heim af barnum

„Þetta er harðkjarna drykkjubúlla,“ segir Arnar Eggert beðinn um að lýsa Áttunni. „Enginn fer þarna inn án þess að koma út löngu seinna kringlóttur. Það er einhvern veginn ekki hægt að fá sér bara einn drykk á þessum bar. Mér finnst Áttan vera einhvers konar röff útgáfa af Sirkus, mínus skraut og krúttlegt dót.“

Berir og drukknir karlmenn

„Svo hafa myndast hér siðir, Íslendingarnir fara til dæmis alltaf úr að ofan þegar líður á kvöldið. Þarna er þröngt og þegar margt fólk er á staðnum eru allir berir að ofan í einni hringiðu.“

Arnar Eggert segir eigendur barsins hafa tekið ástfóstri við Ísland og Íslendinga. „Þeir komu hingað til lands og sönkuðu að sér alls kyns tónlist og stundum eru sett á fóninn íslensk lög eins og til dæmis Paradísarfugl með Megasi og Spilverki Þjóðanna.

Mér þykir vænt um þennan stað, einhvern veginn endar maður alltaf á þessum stað sama hvað maður reynir að breyta til.“

dista@24stundir.is