Rússnesk trúarlög og veraldarsöngvar fyrir blandaðan kór og einsöngvara eftir: Znamennij, Svíridov, Tsjenokov, Bortnyansky, Lvov, Davidov, Alyabyev og Sodorovich, ásamt rússneskum þjóðlögum. Kór Tretjakov-listasafnsins í Moskvu.

Rússnesk trúarlög og veraldarsöngvar fyrir blandaðan kór og einsöngvara eftir: Znamennij, Svíridov, Tsjenokov, Bortnyansky, Lvov, Davidov, Alyabyev og Sodorovich, ásamt rússneskum þjóðlögum. Kór Tretjakov-listasafnsins í Moskvu. Stjórnandi Aleksey Púzakov, þjóðlistamaður Rússlands. Einsöngvarar: Olga Nikiforova–sópran, Olga Úshakova–sópran, Tatiana Zheranzhe–alt, Andrey Nemzer–tenór og Tímúr Bondarchúk–baritón. Mánudaginn 24. mars, annan í páskum, kl. 15.

ÞAÐ er mikið framboð og vaxandi af tónleikum í landinu svo stundum jaðrar við að það sé um of.

Einstökum tónleikum verður þó aldrei ofaukið. Tónleikar sem hafa þannig áhrif á mann að veröldin verði bjartari að þeim loknum og vellíðan manns aukist.

Í annarri heimsókn Tretjakov-kórsins til Íslands lá leiðin til Akureyrar og var sú heimsókn söngelskum áheyrendum þar ekki síðri himnasending en vænar snjókveðjur himnaföður skíðafólki í Hlíðarfjalli.

Kórinn ræður yfir nánast öllu sem góðan kór má prýða, að minnsta kosti í þessari tegund tónlistar.

Mann undrar síst þegar fylgst er með látlausri, en markvissri handleiðslu Aleksey stjórnanda, að hann hafið hlotið eina æðstu viðurkenningu þjóðar sinnar.

Kórinn er greinilega leiðitamur í besta skilningi þess orðs og örugglega nánast sem hugur stjórnandans.

Raddblær, raddgæði, jafnvægi milli radda og gríðarlegt raddsvið er eins og best verður á kosið. Að heyra þarna nánast djúpjarðartóna og ljóssækna silfurtóna gerði mann oft agndofa.

Einsöngvararnir skreyttu svo herrlegheitin með heillandi og einlægum flutningi.

Öll næðu tæknitök kórs og stjórnanda skammt ef hjartans einlægni skorti, en ég fullyrði að af henni var barmafylli.

Það leyndi sér ekki að þéttsetinn salurinn svaraði þessari himnatónasendingu einkar hjartanlega með langvarandi lófaklappi.

Svörin í aukalögum voru ríkuleg.

Jón Hlöðver Áskelsson