Galdrakarl Dannie Richmond var trommuleikari George Adams og Don Pullen kvartettsins. Hann var feiknagóður trymbill.
Galdrakarl Dannie Richmond var trommuleikari George Adams og Don Pullen kvartettsins. Hann var feiknagóður trymbill.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Það er eitt það skemmtilegasta og jafnframt það magnaðasta í tilverunni að spá í það sem heitir listræn upplifun.
Það er eitt það skemmtilegasta og jafnframt það magnaðasta í tilverunni að spá í það sem heitir listræn upplifun. Hvaða „kemistría“ er að verki þegar maður dettur niður á bók sem er þannig aflestrar að hún breytir lífi manns, og hvað er í gangi þegar maður finnur að upplifun á tónleikum bókstaflega potar í persónu manns og hefur djúp áhrif. Maður upplifir alls konar hluti – sumir þeirra gera mann alveg mát af hrifningu, meðan annað er hrútleiðinlegt – flest allt hangir í einhverri miðju þar á milli og það er ómögulegt að segja til um það fyrirfram hvað það verður sem mun sitja eftir í endurminningunni.

Þá velti ég því fyrir mér hvort það sé ekki tómur gleðispillir að ganga full væntinga á vit lífsins. Ætti maður ef til vill að vera sem munkur sem væntir einskis og upplifir að launum himnaríki?

Þeirri spurningu er ekki gott að svara, í veröld þar sem vonir fólks og væntingar eru stór „bissness“.

Það var þannig þegar ég álpaðist á tónleika í Austurbæjarbíói haustið 1979, þar sem kvartett George Adams og Dons Pullens spilaði. Ég get ómögulega munað hvers vegna ég keypti miðann en minnir að ég hafi farið ein, þar sem vinirnir hafi ekki haft áhuga. Þetta var ólíkt mér, því ég þekkti kvartettinn ekki neitt. Ég get ekki líkt þessum tónleikum við neitt annað en algleymi, því þar gerðist eitthvað sem breytti sjálfri mér og lífi mínu.

Svipað upplifði ég einhvern tímann á unglingsárum, ég var ein heima og leiddist. Ég rambaði á bók í bókahillunni og byrjaði að lesa – og upplifunin var svo megn að bókina spændi ég upp á örfáum klukkutímum og hef ekki verið söm. Hún hét Bréf úr myllunni minni þessi litla bók og er eftir franska skáldið Alphonse Daudet.

Ég get varla sagt að ég muni eftir bókinni í smáatriðum en upp úr stendur einhver yndisleg lýrik sem settist að í mér. Þessi bók lét ekkert yfir sér, ég vissi ekki og veit ekki enn neitt um höfundinn, hún var ekki um neitt sérstakt en hún var þarna, rataði í hendur mínar og varð ein af vörðum hugans um það besta sem ég hafði upplifað. Víst hef ég lesið margar betri bækur en um það snýst málið ekki.

Galdurinn sem ég er að lýsa er óræð gáta sem snýst um augnablikið þar sem allt fellur að einu í því að skapa eitthvað algjörlega einstakt. Þetta er aðdráttarafl listanna.

Jú, það má kalla þetta rómantíska sýn, og ef til vill einhvers konar upphafningu, en í rauninni er það hvorugt, þar sem dæmið er algjörlega óútreiknanlegt og breyturnar ófyrirsjáanlegar frá einni manneskju til þeirrar næstu. Maður veit aldrei – og vill sennilega ekki vita fyrirfram hvar maður finnur stóra kikkið en leitin er góð.

Bergþóra Jónsdóttir (begga@mbl.is)