Það var grátlegt að heyra biskupinn yfir Íslandi messa yfir lýðnum á páskadagsmorgun. Hann lagði út frá hatri og hleypidómum sem hann segir hrjá mennina gagnvart öðrum kynþáttum. Mig setti hljóða.
Það var grátlegt að heyra biskupinn yfir Íslandi messa yfir lýðnum á páskadagsmorgun. Hann lagði út frá hatri og hleypidómum sem hann segir hrjá mennina gagnvart öðrum kynþáttum.

Mig setti hljóða. Getur verið að þetta sé sá sami biskup og neitar að gefa saman samkynhneigða í heilagt hjónaband. Getur verið að þessi sami Karl sé svo fullur hleypidóma gagnvart þessum ákveðna þjóðfélagshópi að hann getur ekki séð þau eigast frammi fyrir Guði og mönnum.

Hún er mögnuð merkingin í orðatiltækinu að sjá ekki bjálkann í eigin auga en bara flísina í auga náungans, já eða „að kasta grjóti úr glerhúsi“. Svo virðist sem Karl biskup hafi gerst sekur um hvort tveggja, að hafa stóran bjálka í eigin auga sem og að standa inni í miðju glerhúsinu með steinvöluna að vopni.

Karl hefur nefnilega hátt þegar kemur að málefnum samkynhneigðra. Ber Guð minn fyrir sig í sínum eigin hleypidómum í stað þess að leyfa okkur að hafa Guð í friði og hann hafi þá þessa skoðun fyrir sig og þá þjóðkirkjunnar menn sem kjósa svo. Beitir Guði fyrir sig í eigin hleypidómum, sem eiga sér litla stoð í nútímanum. Biblían er nefnilega gott rit en alls ekki leiðbeinandi um alla heimsins þáttu. Þar er ýmislegt sem við viðurkennum öll að standist varla tímans tönn, en er engu að síður til staðar í bókinni helgu.

Því þegar á hólminn er komið, hver er munurinn á hleypidómum gagnvart samkynhneigðum og öðrum kynþáttum? Er annar hópurinn hinum æðri? Já, og ef við ætlum okkur út í umræðu um þessa athöfn frammi fyrir Guði, til hvers er hjónabandið?

Hjónabandið

Getur verið að hjónabandið sé til þess eins að geta afkvæmi? Eru þá barnlaus hjón öðrum hjónum óæðri? Getur verið að þeim hjónum, sem nota tæknina sér til aðstoðar við fjölgun mannkyns, verði gert að skila inn hjúskaparvottorðinu vegna þess að þau gerðu þetta ekki „eins og Guð sagði“?

Við getum líka tekið þessa hugsun lengra. Þegar við horfum á þessa athöfn. Þessa kirkjunnar athöfn að gefa saman tvo elskendur í heilagt hjónaband. Þessa athöfn sem virðist Karli og hans líkum svona heilög að þeir vilja eingöngu hafa hana fyrir útvalda. Hvað með aðrar athafnir kirkjunnar, hvað ætla Karl og hans menn að gera varðandi börn sem fædd eru utan heilags hjónabands? Ætla þeir næst að neita að skíra þau frammi fyrir Guði og mönnum? Það er jú ekki Guðs vilji, að börn fæðist utan hjónabands. Hvers vegna ættum við að líta á Biblíuna sem heilagt ófrávíkjanlegt rit þegar kemur að einni athöfn en ekki annarri?

Ekkert með trú að gera

Nei, Karl. Þetta er einmitt ekki svona sem Guð vill að við höfum þetta. Þetta hefur einmitt, rétt eins og þú sagðir í páskamessunni þinni, ekkert með trú að gera. Þetta hefur með okkur mannfólkið að gera. Okkar hatur, okkar hleypidóma gagnvart fólki sem hefur ekkert af sér gert. Saklaust fólk sem hefur ekki valið heldur hefur fæðst ýmist annars staðar á hnettinum, í öðrum kynþætti eða með aðra kynhneigð en biskupinn og hans menn.

Það er ekki hægt að standa uppi í stól á hátíðisdögum og býsnast yfir hleypidómum mannkynsins ef maður er sjálfur uppfullur af þeim. Það er ekki biskupnum til sóma og vonandi kemst hann niður úr stólnum áður en meðlimir þjóðkirkjunnar hverfa með öllu.

Höfundur er fyrrverandi sóknarbarn

í þjóðkirkjunni