Nútímaþægindi Marisa Gutierrez, 49 ára húsmóðir, notar örbylgjuofn á heimili sínu í bænum Las Guasimas á Kúbu.
Nútímaþægindi Marisa Gutierrez, 49 ára húsmóðir, notar örbylgjuofn á heimili sínu í bænum Las Guasimas á Kúbu. — AP
Las Guasimas. AP. | Ana Magdalena Melian, 91 árs húsmóðir á Kúbu, hafði aldrei séð örbylgjuofn þegar slíkur ofn birtist í eldhúsi hennar fyrir atbeina kommúnistastjórnarinnar í Havana.
Las Guasimas. AP. | Ana Magdalena Melian, 91 árs húsmóðir á Kúbu, hafði aldrei séð örbylgjuofn þegar slíkur ofn birtist í eldhúsi hennar fyrir atbeina kommúnistastjórnarinnar í Havana.

„Sumt efnað fólk í Havana átti örbylgjuofn en við hin létum okkur ekki dreyma um slíkan munað,“ sagði Melian. Um 3.000 heimili í bænum Las Guasimas fengu örbylgjuofn til afnota í tilraunaskyni í desember. Margir vona að tilkoma tækjanna sé undanfari þess að nýkjörinn forseti Kúbu, Raul Castro, afnemi bann við ýmsum heimilistækjum sem eru á boðstólum víðast hvar annars staðar í heiminum.

Útsendarar kommúnistastjórnarinnar heimsóttu fjölskyldurnar í Las Guasimas reglulega í þrjá mánuði til að spyrja hvernig þeir hefðu reynst og fylgjast með orkunotkuninni. Ofnarnir mæltust svo vel fyrir að stjórnin íhugar nú að bjóða öllum fjölskyldum Kúbu örbylgjuofna á langtímalánum.

Þyrfti 20 ára lán

Kúbumenn hafa fengið slík lán til að kaupa litasjónvarp, hraðsuðupotta, loftkælingartæki og ísskápa. En aðeins útlendingar og fyrirtæki hafa getað keypt örbylgjuofna, tölvur og DVD-spilara.

„Það er eins og örbylgjuofninn hafi fallið beint af himnum ofan,“ sagði Marisa Gutierrez, 49 ára húsmóðir. „Við vonum að fleira komi í framtíðinni. Tölvur og símar á hvert heimili.“

Samkvæmt minnisblaði, sem lekið var í erlenda fjölmiðlamenn í Havana fyrr í mánuðinum, hefur ríkisstjórnin þegar samþykkt ótakmarkaða sölu á örbylgjuofnum, tölvum, DVD-spilurum, sjónvarpstækjum af öllum stærðum og rafknúnum reiðhjólum. Í minnisblaðinu sagði að þetta væri mögulegt vegna aukins framboðs á rafmagni.

Kúba hefur fengið ódýra olíu frá Venesúela á síðustu árum og það hefur gert Kúbumönnum kleift að auka raforkuframleiðsluna. Lán frá Kína hafa einnig auðveldað þeim að flytja inn varning sem framleiddur er þar og í Suður-Kóreu.

Í minnisblaðinu kemur fram að selja eigi tölvur, örbylgjuofna og önnur rafeindatæki í verslunum sem taka aðeins við svonefndum „skiptanlegum pesóum“, kúbverskum gjaldmiðli sem notaður hefur verið í sérstökum verslunum á Kúbu frá 1995 og er 24-sinnum verðmeiri en venjulegi pesóinn. Flestir Kúbumenn myndu ekki hafa efni á örbylgjuofnum í slíkum verslunum og það er jafnvel erfitt fyrir marga að kaupa ofnana þótt þeir fái lán fyrir þeim.

Gert er ráð fyrir því að fjölskyldurnar geti keypt örbylgjuofn fyrir 2.000 pesóa, sem svarar 6.700 krónum. Meðallaun ríkisstarfsmanns á Kúbu eru rúmlega 400 pesóar á mánuði, eða 1.500 krónur.

„Ef ég þarf að kaupa örbylgjuofninn tekur það mig tuttugu ár að borga lánið upp,“ sagði Sergio Rodriguez, 76 ára fyrrverandi vörubílstjóri sem fær tæpar 800 krónur á mánuði í ellilífeyri.