Tena Palmer, Deitra Farr, Andrea Gylfadóttir, Ellen Kristjánsdóttir og KK ásamt hljómsveit. Föstudagskvöldið 21.3.2008.
FIMMTU blúshátíðinni í Reykjavík lauk með sálmatónleikum í Fríkirkjunni í Reykjavík einsog undanfarin ár. Fimm einsöngvarar komu fram, Sigríður, Elísabet og Elín Eyþórsdætur sungu bakraddir og Eyþór Gunnarsson lék á píanó, Björn Thoroddsen á gítar, Jón Rafnsson á bassa og Ásgeir Óskarsson, nýkjörinn heiðursfélagi Blúshátíðarinnar á trommur. Þegar svo margir söngvarar koma fram fær hver sitt afmarkaða pláss og er oft varla orðinn heitur þegar hætta skal. Íslendingarnir sungu með miklum ágætum og Björn Thoroddsen lék einn „Over The Rainbow“ beint frá hjartanu.

Svo kom Tena Palmer. Það var einstaklega gaman að heyra hana aftur, en hér bjó hún um árabil og söng bæði og kenndi. Oft var hún þá í slagtogi með framúrstefnudjassmönnum, en undanfarin ár hefur hún haft lifibrauð af blúgrasstónlist, bæði vestan hafs sem austan. Í Fríkirkjunni söng hún tvo sálma er Mahalia Jackson hljóðritaði ótal sinnum: „His Eyes Is On The Sparrow“ og „Walk Over God´s Heaven“. Þetta eru ólíkir sálmar; sá fyrrnefndi hægur og tilfinningaþrunginn, en hinn seinni kraftbirting rýþmans og fór Eyþór á kostum með sprellandi búggasveiflu ásamt hrynsveitinni. Tena var ekkert að rembast við að syngja í stíl Mahaliu og hið kanadíska hjarta hennar réð för í heitri túlkuninni. Deitra Farr kom síðan og söng „I Believe“ í ekta Mahaliu stíl. Deita er blússöngkona fyrst og fremst en söng með „sólsveit“ áðuren hún hellti sér útí blúsinn þarsem hún er í fremstu röð. Hún er alinn upp í heitri trú og fór létt með sálminn. Hún bætti svo nokkrum við og fékk alla söngvarana og blúshátíðarstjórann Dóra Barga til að syngja með og kirkjugesti líka og því líktust tónleikarnir helst messugjörð í lokin.

Hvað um það. Þetta var hin besta skemmtun og Mahaliusálmarnir þrír hjá Tenu og Deitru listilega fluttir.

Vernharður Linnet