[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Yfirvöld í Svíþjóð hafa heimilað Volvo Trucks í Svíþjóð að framkvæma rannsóknir á almennum vegum, sem felast í prófum á aksturslagi þreyttra ökumanna.
Yfirvöld í Svíþjóð hafa heimilað Volvo Trucks í Svíþjóð að framkvæma rannsóknir á almennum vegum, sem felast í prófum á aksturslagi þreyttra ökumanna. Flutningabílarnir, sem notaðir verða við prófanirnar, verða búnir fullkomnasta tæknibúnaði, sem Volvo hefur þróað til að koma í veg fyrir slys af völdum athyglisbrests þreyttra ökumanna. Mörg þúsund flutningabílar aka um vegi Svíþjóðar á degi hverjum, þar sem stór hluti þeirra er kominn um langan veg frá öðrum löndum. Algengasta orsök slysa þar sem flutningabílar koma við sögu er þreyta, athyglisbrestur og áfengisnotkun.

Þreyttir ökumenn valda fjölda slysa

Rannsóknir sýna að þreyta ökumanna er orsök 20% allra slysa sem verða í umferðinni í Svíþjóð. Lars-Göran Löwenadler, öryggisstjóri hjá Volvo Trucks, segir að ástæða þess að sótt var um að fá að framkvæma rannsóknirnar í almennri umferð sé að reyna tæknibúnað Volvo við raunverulegar aðstæður í því skyni að hámarka virkni kerfisins. Volvo hyggst bjóða þennan búnað í öllum flutningabílum frá fyrirtækinu að lokinni þróun.

Við fyrirhugaðar rannsóknir verður búnaðurinn látinn fylgjast með og greina aksturslag ökumanna og átta sig á alvarlegum frávikum frá akstursvenju og aðvara ökumann án tafar. Löwenadler segir að þróun kerfisins sé á lokastigi og nú séu einungis eftir prófanir við raunverulegar aðstæður til að sannreyna hæfni hans.

Miklar öryggisráðstafanir

Í fréttilkynningu frá Brimborg, umboðsaðila Volvo hér á landi, kemur fram að við prófanirnar verður ekið á fyrirfram völdum vegum með tvöfaldri akrein og verður aðstoðarmaður í hverjum bíl. Bílarnir verða útbúnir þannig að aðstoðarmaðurinn geti yfirtekið stjórn vörubílsins umsvifalaust gerist þess þörf. Bílarnir verða sérmerktir og búnir viðvörunarljósum auk þess sem vörubílunum verður fylgt eftir af öðrum bíl til að aðvara aðra ökumenn.

Þar segir einnig að nú þegar sé eftirtalinn öryggisbúnaður í boði í vörubílum frá Volvo Trucks:

Akreinavari: Kerfið fylgist með strikamerkingum á veginum og fylgist með staðsetningu flutningabílsins miðað við þær. Kerfið aðvarar ökumanninn verði alvarlegt frávik frá staðsetningunni.

Aðlögunarhæfur hraðastillir: Búnaðurinn tryggir að fjarlægð milli flutningabílsins og annarra bíla fyrir framan sé nægileg þannig að ekki skapist hætta á aftanákeyrslu stöðvist næsti bíll fyrir framan skyndilega. Nálgist flutningabíllinn bíla fyrir framan of mikið aðvarar kerfið ökumanninn og hægir á honum bregðist hann ekki við. Hraðastillirinn eykur síðan hraða bílsins sjálfkrafa upp í fyrri hraða um leið og aðstæður leyfa.

ESP: Stöðugleikastýrikerfi fyrir flutningabíla með dráttarvagna, sem hefur að markmiði að koma í veg fyrir stjórnlaust skrið ökutækisins, t.d. í hálku, og jafnvel veltu.