[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hvað eiga John Waine, Audrey Hepburn, Sting og Jude Lowe sameiginlegt?

Hvað eiga John Waine, Audrey Hepburn, Sting og Jude Lowe sameiginlegt? Jú , Þórunn Stefánsdóttir komst að því að þau hafa öll verið einlægir aðdáendur vespunnar og það sama má segja um fleiri ríka og fræga sem hafa keppst um að aka um og láta mynda sig á þessu fagra fyrirbæri. Þá hefur vespan líka komið fram í ýmsum kvikmyndum.

Rinaldo Piaggio stofnaði Piaggio árið 1884, þá tvítugur. Fyrirtækið framleiddi varahluti í skip, lestarvagna, lestarvélar, vörubíla og margt fleira að lokinni seinni heimsstyrjöldinni. Efnahagur Ítalíu var í molum eftir styrjöldina og Enrico Piaggio, sonur Rinaldo, og félagar hans ákváðu þá að framleiða farartæki sem fjöldinn hefði efni á að kaupa og reka. Eftir margar misheppnaðar tilraunir fékk hann Vorradino D‘Ascanio til þess að taka við stjórn hönnunar. D‘Ascanio var lærður hönnuður og hafði fram að því starfað sem flugvélasmiður. Hann hafði ekki mikinn áhuga á mótorhjólum og sú hönnun sem hann sýndi Enrico Piaggio var ólík öllum öðrum mótorhjólum. Ýmislegt í hönnuninni minnti á flugvélar þess tíma, til dæmis framhjólið og hönnun ,,skeljarinnar“ sem faldi vélina. Ökumaðurinn sat með fætur saman, með ,,skjöld“ sér til varnar og gírskiptingin var í öðru handfanginu. Hjólið átti að vera einfalt og þægilegt. Þegar Enrico Piaggio skoðaði mynd af hjólinu í fyrsta skipti sagði hann: ,,Það er eins og vespa!“ vegna breiða ,,skjaldarins“ að framan og granna ,,mittisins“. Í apríl 1946 var fyrsta vespan framleidd.

Vespan sló nánast strax í gegn og á komandi árum átti Piaggio fullt í fangi með að anna eftirspurn. Árið 1946 voru framleiddar 2.484 vespur, árið 1953 var ársframleiðslan komin upp í 171.200. Árið 1956 hafði verið framleidd um ein milljón slíkra hjóla, en í dag hafa verið framleiddar nálægt sautján milljónir vespna.

Engar áhyggjur af bílastæðum

Trausti Hafsteinsson blaðamaður er einn þeirra Íslendinga sem bruna um götur borgarinnar á glæsilegri vespu.

„Vespuna hafa hann og eiginkonan átt í þrjú ár en við gáfum hana hvort öðru í morgungjöf er við gengum í hjónaband. Hana höfum við keyrt hér á landi síðustu 2 ár við góðan orðstír og hlökkum við ávallt til þegar snjóa leysir og hægt er að taka vespuna út úr bílskúrnum á nýjan leik.“

– Keyptir þú hana hér heima eða í útlöndum?

„Vespan var keypt á Ítalíu er við bjuggum þar. Hún var óspart nýtt í skemmtilegar ferðir með vinum um Emilia-Romagna-héraðið á Ítalíu og var bráðnauðsynlegur ferðamáti þar í landi. Þó svo að ítalska umferðarmenningin geti verið ansi fjörug á köflum taka ítalskir ökumenn mun meira tillit til vespunnar en íslenskir kollegar þeirra. Hérna geta stóru jeppakarlarnir sko ekki farið að taka tillit til einhvers vespukrílis. Vespuna fluttum við svo með okkur í gámnum þegar við komum heim eftir ævintýrið og greiddum að sjálfsögðu undarlega há gjöld til íslenska ríkisins við innflutninginn.“

– Hvers vegna vespa?

„Þetta er bara svo skemmtilegt farartæki og virkilega gaman að ferðast um á því. Þó að vespan sé ekki hraðskreið, nær að hámarki 80 kílómetra hraða í halla, dugar hún vel í höfuðborginni. Ég þarf ekki að hafa neinar áhyggjur af bílastæðum. Það spillir svo ekki hversu sparneytin vespan er þar sem það er ekki lengur fyrir venjulegan mann að standa straum af bensínkostnaði bifreiðar.“

– Vekur þú athygli á götunum?

„Að sjálfsögðu geri ég það enda ein flottasta vespa landsins á ferðinni. Ég lærði það hins vegar fljótt að eina hugsunin sem gildir á vespunni er að hugsa líkt og um bíl væri að ræða. Það þýðir ekkert að keyra endalaust úti í kanti þó að umferðin sé hröð. Þar sem ég keyri iðulega á mörkum löglegs hámarkshraða innanbæjar hef ég tekið vel eftir því að umferðin er svo langt yfir þeim mörkum. Síðan er mjög greinilegt að íslenska þjóðarstoltið kemur í veg fyrir að nokkur maður geti keyrt fyrir aftan vespu, það bruna allir fram hjá, óháð því hvort þeir skapa sjálfum sér eða mótumferð hættu við framúraksturinn.“

– Hvernig finnst þér vespan henta íslenskri veðráttu?

„Það var óneitanlega þægilegra að keyra um á henni í ítalskri veðráttu, klæddur stuttbuxum og hlýrabol. Hins vegar hef ég náð að nýta hana lygilega mikið hér á landi, það gildir bara að búa sig vel og klæðast hlífðarfatnaði öryggisins vegna.“

Ást við fyrstu sýn

Gunnar Hansson leikari féll kylliflatur fyrir vespunni þegar hann fór nýfermdur með mömmu sinni til Ítalíu og hefur nú einkaumboð fyrir Piaggio-vespur hér á landi.

,,Í grunninn má segja að vespan sé minn gamli draumur. Ég fékk ferð til Ítalíu í fermingargjöf og við mamma fórum þangað saman. Á Ítalíu varð ég strax ástfanginn af vespunni. Ég leigði mér eina slíka og féll þá endanlega kylliflatur,“ segir Gunnar.

Löngunin í eigin vespu hefur blundað með Gunnari síðan og síðustu tíu árin hefur hann skoðað vespur á netinu með það í huga að finna vespu fyrir sjálfan sig.

,,Í fyrra fór ég ásamt fjölskyldunni í aðra Ítalíuferð og þá vildi svo til að húsið sem við leigðum var rétt hjá höfuðstöðvum Piaggio. Ég fór þangað ásamt konunni minni sem ég kynnti sem viðskiptafélaga minn. Mér var tekið mjög vel og ég endaði á fundi með toppunum í fyrirtækinu. Það kom í ljós að þeir eru mjög hrifnir af Íslandi, sögðu að vespan hefði selst mjög vel í Norður-Evrópu og þeim fannst upplagt að kanna markaðinn á Íslandi. Í janúar sendu þeir hingað fimm vespur sem prufueintök, ein þeirra er mín eign, og nú er að koma til landsins þokkalega stór pöntun. Nú er að koma vor og boltinn fer að rúlla. Undanfarnar tvær vikur hefur síminn ekki stoppað og það er greinilegt að það hafa margir verið á svipuðum nótum og ég. Fólk sem hefur ferðast um Evrópu þekkir Piaggio-merkið vel og af hinu góða.“

Vespan er góður kostur í dag þegar bensínverð hækkar upp úr öllu valdi og ekki spillir að hún stenst ýtrustu umhverfisstaðla. Því má með sanni segja að vespan sé umhverfisvænt farartæki.

,,Það kostar um þúsundkall að fylla hana,“ segir Gunnar og bætir við að það megi komast langt áður en það þurfi að fylla tankinn aftur.

,,Vespan er sjálfskipt og einföld í notkun og þetta eru alls engar saumavélar. Til eru þrjár mismunandi vélarstærðir og sú stærsta er mjög kraftmikil. Þær sem hafa minnstu vélina kosta um 340 þúsund krónur og kröftugasta vespan kostar 6-700 þúsund. Í ár er framleidd sérstök afmælisútgáfa, í tilefni 60 ára afmælis fyrirtækisins, og er hún með ekta leðursætum og fleira flotteríi. Við höfum fengið frábæran þjónustuaðila, Bifreiðaverkstæði Reykjavíkur, í lið með okkur til þess að sjá um viðgerðir og aðra þjónustu.“

Gunnar leggur áherslu á það að vespan henti báðum kynjum og þær séu ekki síður hannaðar með konur í huga.