Auður Kristjánsdóttir fæddist í Ytra-Skógarnesi í Miklaholtshreppi á Snæfellsnesi 19. maí 1926. Hún andaðist fimmtudaginn á Elli- og hjúkrunarheimilinu Grund í Reykjavík 13. mars síðastliðinn. Foreldrar hennar voru hjónin Sigríður Karitas Gísladóttir húsmóðir og bóndi, f. 1891, d. 1988, og Kristján Ágúst Kristjánsson bóndi í Ytra-Skógarnesi og skjalavörður Alþingis, f. 1890, d. 1934. Foreldrar Sigríðar voru Jóhanna Ólafsdóttir frá Sviðnum á Breiðafirði og Gísli Kristjánsson bóndi og smiður í Ytra-Skógarnesi. Foreldrar Kristjáns voru Ágústína Halldóra Gísladóttir og Kristján Kristjánsson bóndi á Rauðkollsstöðum. Systkini Auðar eru: Hanna, f. 1922, d. 1979, Baldur, f. 1923, d. 1994, Jens, f. 1925, Unnur, f. 1926, d. 2005, Arndís, f. 1929, d. 2007, Einar Haukur, f. 1930, Jóhanna, f. 1932, d. 2007, og Kristjana Ágústa, f. 1934.

Skólaganga Auðar var að þeirrar tíðar hætti hjá börnum í sveit. Grunnskóli Auðar var 4ra vetra nám í farskóla, samtals u.þ.b. 2 mánuðir hvern vetur, þá er hún var á aldrinum 10-13 ára. Þær systur, Auður og Unnur, fylgdust að í skólagöngu sem öðru og fóru báðar í það framhaldsnám sem kostur var á, sem var Héraðsskólinn á Reykjum veturinn 1944-1945 og síðan Húsmæðraskólinn á Laugalandi veturinn 1945-1946.

Auður missti föður sinn 1934, en hann lést þá afar óvænt eftir skurðaðgerð á sjúkrahúsi. Móðir hennar stóð þá eftir með 9 börn, það elsta 12 ára en hið yngsta aðeins 4ra mánaða. Auður og systkini hennar tóku því fljótt þátt í verkum fullorðinna, þar urðu allir að skila sínu, stúlkur jafnt sem drengir.

Sigríður, móðir Auðar, stóð fyrir búi í Ytra-Skógarnesi fram á árið 1948 en flutti þá til Reykjavíkur með þau börn sín sem þá voru enn heima. Auður hafði hleypt heimdraganum eftir námið á Laugalandi 1946 og bjó eftir það í Reykjavík.

Unga konan var m.a. ráðskona hjá vegavinnumönnum nokkur sumur og naut þar náms síns á Laugalandi. Á þessum árum var einungis unnið að vegagerð á sumrin og bjuggu vinnuflokkar, þar með taldar ráðskonur, í tjöldum. Auður gerði saumaskap að ævistarfi sínu, enda lék allt slíkt í höndum hennar. Hún starfaði um hríð á prjónastofu, síðan hjá Andrési, þeirra tíma þekktum klæðskera, en lengst af starfaði Auður í fataverksmiðjunni Gefjun. Á vordögum 1989 stóð Auður upp frá saumavélinni og starfaði frá þeim tíma á Hrafnistu í Reykjavík við aðhlynningu aldraðra, þar til hún fór á eftirlaun í árslok 1993.

Útför Auðar fer fram frá Neskirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 13.

Auður verður lögð til hinstu hvílu við hlið móður sinnar.

Í Ytra-Skógarnesi í Miklaholtshreppi, á sunnanverðu Snæfellsnesi, hófu níu systkini vegferð sína á árunum 1922-1934, þeirra á meðal þær tvær konur sem lengst hafa fylgt mér gegnum lífið, móðir mín Jóhanna og sú systra hennar sem við kveðjum í dag, Auður Kristjánsdóttir. Mitt fyrsta heimili var heimili stórfjölskyldunnar, þar sem amma Sigríður stóð í stafni og hélt heimili fyrir nokkur barna sinna, þeirra á meðal móður mína og Auði. Frá fyrstu tíð var Auður mér sem önnur móðir og hef ég búið við þau forréttindi í lífinu að eiga í raun tvær mæður, ef svo mætti segja, sem ég elskaði báðar. Þær hafa nú báðar kvatt jarðvistina, en minningin er ljúf og góð.

Þó Auður hafi hvorki gifst né eignast börn var hún þó ekki barnlaus, í þeim skilningi að systkinabörn hennar áttu stóran sess í hjarta hennar og gátu ætíð leitað til hennar með öll sín mál. Sjálfur naut ég ríkulega ástríkis Auðar og til hennar leitaði ég með mörg mín hjartans mál. Ég kynnti Ásdísi, sem síðar varð eiginkona mín, fyrst fyrir mömmu en strax eftir þá kynningu líka fyrir Auði, sem tók Ásdísi með þeirri elsku sem henni var svo eðlileg að þær urðu miklar og nánar vinkonur frá þeim degi og alla tíð. Ásdís eignaðist þannig tvær tengdamæður og hefur aldrei kvartað yfir því hlutskipti.

Ég leitaði til Auðar þegar élin voru dimm, en ekki síður á gleðistundum. Það tók mikið á Auði þegar við Ásdís misstum stelpurnar okkar, Helenu og Auði Björk. Hún gladdist því mikið þegar við vorum svo lánsöm að geta ættleitt barn og tók Róbert Rafni með mikilli ást og umhyggju.

Einkennandi fyrir persónuleika Auðar var nægjusemi, sjálfstæði og þakklæti. Hún þekkti tímana tvenna og sagði oft að gamalt fólk hefði aldrei haft það betra en nú. Hún tók höfðinglega á móti gestum og var rausnarleg, þegar það átti við. Væri lítið viðvik fyrir hana gert var hún afar þakklát og tók slíku aldrei sem sjálfsögðum hlut.

Þær tvíburasystur, Auður og Unnur, voru afar nánar alla tíð og ekki á allra færi að þekkja þær sundur, hvorki í útliti eða hugsun. Ömmubörn Unnar, þær Karen Lilja og Eva Björk, voru á vissan hátt líka „ömmubörn“ Auðar. Auður missti afar mikið þegar Unnur féll frá 30. maí 2005.

Auður hélt heimili með móður sinni í mörg ár, framan af ásamt fleiri systkinum sínum sem eitt af öðru stofnuðu eigin heimili, þannig að Auður var sú sem hvað lengst var stoð og stytta móður sinnar. Amma Sigríður dvaldi síðustu æviárin á Elli- og hjúkrunarheimilinu Grund, þar sem Auður vitjaði hennar nánast daglega. Það er því vel við hæfi að Auður mun nú fá hinstu hvílu við hlið móður sinnar í Fossvogskirkjugarði.

Sjálf naut Auður frábærrar umönnunar síðustu mánuðina í lífi sínu á Grund og var afar þakklát og ánægð með dvöl sína þar, þó illvígt krabbamein sem hrjáði hana síðasta rúma árið sem hún lifði, gerði það að verkum að hún naut ekki sem skyldi alls þess góða sem gert er á Grund. Mér er það bæði ljúft og skylt að þakka öllu því góða fólki sem kom að umönnun Auðar á Grund, þar eru margir mannlegir gimsteinar við störf.

Birgir Sigmundsson.

Mín fyrstu kynni af Auði voru þegar ég kom fyrst á Hrísateiginn vorið 1972. Þá var nýlega búið að kynna mig fyrir Jóhönnu, systur Auðar og tengdamömmunni tilvonandi, Rabba og þeirra börnum. Ég var svolítið feimin og stressuð, aðeins 18 ára stelpan, nýlega búin að kynnast Birgi. Ég þurfti svolítið að safna kjarki til að koma mér út úr bílnum og inn í hús, að hitta þessa frænku sem greinilega gegndi stóru hlutverki í lífi Birgis. En Auður var ekkert að bíða eftir stelpunni, hún kom einfaldlega út að bíl og sótti mig, heilsaði mér innilega og lét eins og við hefðum alltaf þekkst. Strax þarna á fyrsta degi sýndi hún mér þá einlægu væntumþykju sem átti eftir að einkenna öll okkar samskipti um ókomin ár.

Það var bara ekki hægt annað en að þykja vænt um Auði, hún var svo einstaklega hlýr persónuleiki, hógvær, nægjusöm og þakklát, hvað lítið sem fyrir hana var gert. Hún var ekkert fyrir að láta bera á sér og sínum skoðunum, þó hún hefði þær vissulega og ansi ákveðnar oft á tíðum. Gestrisin var hún og leið ekki vel, nema hún hefði svolítið fyrir sínum gestum. Ófáar pönnukökurnar var hún búin að baka ofan í okkur, í gegnum árin. Það var alltaf nóg um að spjalla þegar komið var í heimsókn, það þurfti að segja nýjustu fréttir af Róbert og fjölskyldum okkar, foreldrum, systkinum og öllum þeirra börnum. Hún fylgdist afar vel með öllu sem var að gerast, innanlands sem utan, svo oft voru helstu atburðir fréttanna ræddir í þaula. Það var gaman að spjalla við Auði, hún hafði mjög skemmtilegan húmor og sá oft hinar spaugilegustu hliðar á dægurmálunum.

Auði þótti slæmt að geta ekki staðið í bakstri og annarri fyrirhöfn, eftir að veikindi hennar ágerðust, en við þær aðstæður kom glöggt fram sá sterki karakter og dugnaður sem hún bjó yfir. Þegar hún loks fékk rétta greiningu, var það í raun aðeins til að staðfesta það sem hún vissi allan tímann sjálf, þó það tæki tímann sinn að fá rétta niðurstöðu og viðeigandi læknishjálp. Eftir að hún var loks greind með krabbamein, á miðju síðasta ári, varð tíminn með okkur því miður afar stuttur, en hún tókst á við veikindi sín af því æðruleysi og skynsemi sem einkenndi hana alla tíð.

Ég er óendanlega þakklát fyrir að hafa fengið að kynnast Auði og þekkja hana í nærri 36 ár. Hafðu þökk fyrir, ljúfan mín.

Ásdís.

Nú er hún farin, kletturinn í mínu lífi, sú sem ég gat alltaf leitað til og trúað fyrir öllum mínum málum, vitandi að það sem Auði var sagt í trúnaði, það fór ekki lengra.

Ég var alin upp frá þriggja mánaða aldri hjá ömmu minni Sigríði, sem mér varð strax eðlilegt að kalla mömmu, sem ég geri enn í dag þegar ég minnist hennar. Um leið varð það mér líka eðlilegt að kalla þau systur mínar og bræður, þau sem í raun voru systkini móður minnar. Þannig var Auður í raun aldrei frænka mín, heldur systir mín og þannig mun ég áfram minnast hennar.

Í fjöldamörg ár var það ómissandi hluti jólahaldsins hjá okkur Magga að eiga góða stund með þeim systrum, Auði og Unni, ásamt fjölskyldu Unnar. Eftir að Unnur lést í maí 2005 héldum við sem eftir stóðum þessum góða sið áfram. Það var í fyrsta skiptið um síðustu jól að Auður komst ekki til okkar vegna sinna erfiðu veikinda, en nú eru þær systur saman á ný og eftirleiðis munu þær báðar verða með okkur, ekki bara um jól og á öðrum góðum stundum, heldur alla daga.

Auður og Unnur voru í mínum huga tvær greinar á sama lífsins tré, þær voru mér báðar afar dýrmætar. Þegar þær komu saman á góðri stundu var engin lognmolla, heldur líf og fjör og hlutirnir kallaðir sínum réttu nöfnum.

Auður var á margan hátt einstök manneskja, svo ærleg, heiðarleg og traust, já kletturinn eini sanni.

Síðasta árið í lífi Auðar var henni afar erfitt, veikindin tóku sinn toll, krabbameinið gefur sjaldan grið. Þegar ljóst mátti vera síðasta sumar að Auði yrði erfitt að sjá um sig sjálf, eins og hún hafði gert alla tíð, kom upp óvissutíð. Úr þeirri óvissu rættist þó fyrr en varði, á þann veg að hún fékk þá úrlausn sem hún hafði sjálf óskað sér. Í lok nóvember 2007 flutti Auður á Elli- og hjúkrunarheimilið Grund og var hún afar ánægð með veru sína þar, þó dvölin yrði að vísu alltof stutt. Auði var sjálfri ljóst í hvað stefndi, ef til vill betur en öllum öðrum, en eftir að hún kom á Grund varð léttara yfir henni og hún tókst á við veikindi sín með þeirri rósemi og yfirvegun, sem henni var svo ríkulega gefin.

Þó sársaukinn sé mikill hjá okkur sem eftir stöndum, þegar við nú kveðjum Auði eftir svo langa samfylgd, er það þó huggun í harmi okkar að hún er nú laus undan þeim þrautum sem á hana voru lagðar síðasta spölinn á lífsleiðinni. Fyrir það ber að þakka.

Á síðustu árum varð samband okkar Auðar enn nánara en fyrr og mörg voru þau samtöl sem við áttum bara fyrir okkur. Að leiðarlokum vil ég þakka Auði enn einu sinni fyrir allt það sem hún gerði fyrir mig. Við Maggi kveðjum nú Auði með þakklæti fyrir allt og allt.

Ég vil að endingu þakka starfsfólki á Grund fyrir frábæra umönnun Auðar, þar voru allir boðnir og búnir til þeirrar líknar sem þurfti.

Dinah.

Okkur langar að minnast Auðar tvíburasystur móður okkar með nokkrum orðum. Frá því við fyrst munum eftir okkur var Auður alltaf hluti af okkar fjölskyldu en móðir okkar og hún voru miklar vinkonur allt sitt líf enda mjög líkar en þó svo ólíkar um margt. Ekki leið sá dagur að þær töluðust ekki við í síma meðan báðar lifðu.

Sem börn bjuggum við vestur á Gufuskálum, sem á þeim tíma var langt frá Reykjavík. Auður kom vestur að heimsækja okkur á næstum hverju sumri og það var alltaf mjög gaman þegar hún kom og ekki var síður mikið fjör að koma á Laugaveginn þegar við vorum í bænum.

Haustið eftir að foreldrar okkar fluttu austur á Selfoss flutti Auður til okkar og við bjuggum með henni í um eitt ár. Á þeim tíma hugsaði Auður alltaf mjög vel um okkur og sýndi okkkur mikla þolinmæði.

Sérstaklega er okkur minnistætt 70 ára afmæli þeirra systra, sem þær héldu upp á í Kaupmannahöfn. Auður geislaði af gleði þennan tíma en þetta var eina utanlandsferð hennar. Mikil var undrun hennar þegar hún hitti vinkonu sína í Tívolí fyrir tilviljun eitt kvöldið og eftirminnilegur er afmæliskvöldverður þeirra systra.

Auður var mjög góðhjörtuð og rausnarleg og nutu dætur Öldu, þær Karen og Eva, góðs af, bæði á jólum og þegar þær voru í heimsókn á Íslandi.

Við þökkum Auði fyrir samfylgdina, en minningin um hana lifir.

Alda og Gísli.