Víða um miðborg Reykjavíkur standa hús sem eru að drabbast niður. Oft eru þetta gömul hús sem voru reist á fyrri hluta 20. aldar eða fyrr. Þau eru útötuð veggjakroti, rúður brotnar, neglt hefur verið fyrir glugga og dyr.
Víða um miðborg Reykjavíkur standa hús sem eru að drabbast niður. Oft eru þetta gömul hús sem voru reist á fyrri hluta 20. aldar eða fyrr. Þau eru útötuð veggjakroti, rúður brotnar, neglt hefur verið fyrir glugga og dyr. Þó er iðulega auðvelt að komast inn í þessi hús og borið hefur við að útigangsmenn finni sér þar samastað. Um helgina mátti ekki miklu muna að maður brynni inni þegar eldur varð laus í tveimur húsum í miðborginni um páskahelgina. Svo virðist sem í mörgum tilfellum hafi eigendur þessara húsa ákveðið að láta reka á reiðanum til að skapa þrýsting um að fá að rífa þau.

Hús, sem hefur verið látið drabbast niður svo mánuðum og jafnvel árum skiptir, er ekki til mikillar prýði og það er erfitt að vinna að því að blása lífi í verslun og viðskipti í miðborginni þegar slík lýti eru á umhverfinu. Að einhverju leyti er ábyrgðin á ástandinu hjá borginni og það er rétt sem Snorri Freyr Hilmarsson, formaður Torfusamtakanna, segir í Morgunblaðinu í gær að „allt of lengi hafi verið unnið með of opið deiliskipulag“. Það er líka rétt hjá Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, formanni skipulagsráðs Reykjavíkurborgar, að um leið og borgaryfirvöld geti ekki skorast undan ábyrgð verði framkvæmda- og fasteignaeigendur í borginni að axla sína ábyrgð.

Í yfirlýsingu frá Torfusamtökunum er það orðað svo að óviðunandi sé að „fyrirtæki sem hyggjast hagnast á framkvæmdum í miðbænum taki borgina í gíslingu [...] og setji t.a.m. verslun við Laugaveg í uppnám“.

Að undanförnu hefur orðið vakning fyrir gildi gamalla húsa. Saga húsa er sjaldnast letruð utan á þau, en hún getur þó verið merkileg, jafnvel þótt aðeins virðist vera um skúr að ræða. Það er ánægjulegt að lesa orð Hönnu Birnu þess efnis að mikilvægt sé að tryggja að hús, sem hugsanlega hafi sögulegt gildi, verði ekki rifin.

Víða bíða eigendur húsa eftir því að fá grænt ljós til niðurrifs. Nú þarf að hafa hraðar hendur og fara rækilega yfir þá byggingararfleifð sem um er að ræða og taka í framhaldinu ákvarðanir. Eigendur húsa þurfa einnig að gera sér grein fyrir því að þótt þeir hyggist rífa hús ber þeim skylda til að halda eignum sínum við og koma í veg fyrir að ástand þeirra skapi hættu. Borgin hefur ýmsar leiðir til að þrýsta á eigendur þessara húsa um að taka sér tak. Eigendur þeirra eiga ekki að láta sér detta í hug að vanræksla bæti stöðu þeirra til samninga.

Skipulagsráð hyggst nú taka á því hvernig bregðast megi við því að fjöldi húsa í niðurníðslu hafi aukist og er stefnt að samstilltu átaki borgaryfirvalda og hagsmunaaðila. Það gengur vonandi eftir því að ástandið er orðið óþolandi.