Astra Hvað þýðir ljósið sem sýnir mynd af bíl með skrúflykli yfir?
Astra Hvað þýðir ljósið sem sýnir mynd af bíl með skrúflykli yfir? — Morgunblaðið/Frikki
* Leó M. Jónsson vélatæknifræðingur svarar fyrirspurnum á leoemm@simnet.is (Ath. Bréf geta verið stytt). Eldri spurningar og ítarlegri svör eru birt á www.leoemm.com.
* Leó M. Jónsson vélatæknifræðingur svarar fyrirspurnum á leoemm@simnet.is (Ath. Bréf geta verið stytt).

Eldri spurningar og ítarlegri svör eru birt á www.leoemm.com.

2ja lítra Opel dísill

Spurt: Ég á Opel Astra–G–Caravan árgerð 2001 með 2ja lítra dísilvél sem hefur verið að gera mér lífið leitt. Er búinn að fara með hann á verkstæði umboðsins og 2 önnur verkstæði en enginn hefur fundið orsök bilunarinnar. Hún lýsir sér þannig að við gangsetningu kviknar ekki forhitunarljósið í mælaborðinu nema vélin sé köld eða kuldi úti. Til að koma vélinni í gang þarf að aftengja skynjara framarlega á vélinni miðri. Þegar vélin nær eðlilegum vinnsluhita kviknar vélarljós (safe mode) og viftuljós og vélin missir afl. Búið er að skipta 3svar um þennan skynjara, auk þess alternator, rafgeymi og einhverja straumloku. En ekkert hefur lagfært bilunina. Mér er sagt að þessar vélar séu vandræðagripir. Getur þú aðstoðað?

Svar: Þótt einhverjir hafi lent í vandræðum með þessar 2ja lítra Opel–dísilvélar er ekki þar með sagt að þær séu gallagripir. Þær eru einfaldlega öðruvísi en þær sem voru á undan. T.d. er sá munur að forhituninni er stýrt af vélartölvunni (ECU) en ekki sérstakri stýrieiningu. Það þýðir m.a. að forhitun er ekki notuð nema þegar hitastig vélar er undir 5 °C – þess í stað eykur tölvan innsprautað magn eldsneytis í gangsetningu sem eykur þjöppun. Eins og með allar aðrar dísilvélar er þrennt sem ræður því hvort gangsetning kaldrar vélar takist: Þjöppun verður að vera eðlileg, forhitun eða kaldstart verður að virka og réttur þrýstingur þarf að vera á eldsneytislögn að spíssum. Á meðal þess sem er öðruvísi í þessum 2ja lítra Opel–dísilvélum er að spíssarnir eru efst í miðju brunahólfinu – þeir eru í miðju heddinu undir kambásnum. Spíssunum er haldið föstum með armi (sem jafnframt leiðir eldsneytið frá dælu að spíss). Festiarmurinn er undir og á milli kamba kambássins. Armurinn stingst undir brún öðrum megin í heddinu en skrúfast niður með bolta hinum megin. Á milli armsins og spíssins eru kragahringur úr gúmi sem heldur spíssunum niðri auk þess að þétta milli hans og armsins (nefnast Traversendichtringe á þýsku). Þessir þéttihringir reyndust endast illa í sumum árgerðum. Þegar fór að leka með þeim, jafnvel mjög lítill leki, varð gangsetning erfiðari, sérstaklega í kulda vegna þess að þjöppunin minnkaði (blés upp með spíssunum). Smám saman má merkja aukinn leka á því að dísilolía blandast smurolíunni á vélinni en þá hefur þrýstingur eldsneytis að spíssunum einnig minnkað og gagnsetning verður enn erfiðari – vélarljósið lýsir. Það er mun minna mál en margur hyggur að endurnýja þessa þéttihringi, að vísu þarf að taka ventlalokið af en ekki þarf að hreyfa við kambásnum. Þetta tel ég vera ástæðu erfiðrar gangsetningar hjá þér (þegar skynjarinn er aftengdur fær vélin kaldstartblöndu og fer í gang en þegar hún hitnar fær hún ekki eldsneyti vegna þrýstingsfalls í lögninni að spíssunum). Bakrennslislögnin (slefrörið) á þessum vélum hefur einnig viljað leka vegna titrings en það má lagfæra með því að færa tengingu sleflagnarinnar aftar.

Enn meiri Opel–vandræði

Spurt: Ég er með Opel Vectra bensínbíl. Veistu hvað ljósið sem sýnir mynd af bíl með skrúflykli yfir þýðir? Það hefur verið að birtast af og til undanfarið en lifir ekki stöðugt. Ef bensíngjöfinni er sleppt þá helst snúningur oft hár einhverjar sekúndur áður en hann lækkar. Einnig hef ég tekið eftir skúmi í áfyllingunni á ventlalokinu. Það er búið að kóðalesa kerfið á 2 verkstæðum án árangurs.

Svar: Keyptu „Carburator Cleaner–úðabrúsa“ á næstu bensínstöð. Losaðu barka loftinntaksins af við inngjafarkverkina og notaðu stífan listmálarapensil og efnið til að þrífa óhreinindin af inngjafarspjaldinu báðum megin og úr kverkinni. Smurðu inngjafarásinn með WD 40 og liðkaðu þar til spjaldið sest eðlilega. Skúm í ventlalokinu er vegna þess að öndunin (PCV–lokinn og lögnin, L–laga slanga) er stífluð og skúmið mun fyrr en seinna að eyðileggja kambásinn. Taktu ventlalokið af, þrífðu það og kambásinn, skolaðu og blástu úr lokanum og lögninni. Settu lokið á með nýrri pakkningu og hertu boltana í 8 Nm.