Hannes Þ. Sigurðsson var aðeins 7 mínútur að komast á blað sem markaskorari hjá sínu nýja félagi í sænsku knattspyrnunni, Sundsvall .
H annes Þ. Sigurðsson var aðeins 7 mínútur að komast á blað sem markaskorari hjá sínu nýja félagi í sænsku knattspyrnunni, Sundsvall . Hannes skoraði fyrsta mark liðsins þegar það vann Vaasa frá Finnlandi, 4:0, í fyrrakvöld, í síðasta æfingaleiknum áður en keppni í sænsku úrvalsdeildinni hefst um helgina. Eitt marka Sundsvall kom eftir að Ari Freyr Skúlason átti hörkuskot í stöng en finnska liðið varð í 10. sæti efstu deildar í fyrra. Sverrir Garðarsson lék ekki með Sundsvall vegna meiðsla. Hannes var keyptur á dögunum frá norska liðinu Viking frá Stavanger en þar hafði hann verið í rúmlega eitt keppnistímabil.

Víkingur frá Ólafsvík , sem leikur í 1. deildinni í knattspyrnu, hefur fengið til sín sóknarmanninn Eyþór Guðnason frá HK . Eyþór, sem er 32 ára og lék lengi með Njarðvík , spilaði fimm leiki með HK í úrvalsdeildinni síðasta sumar.

Berglind Íris Hansdóttir varði alls 19 skot fyrir íslenska landsliðið í handknattleik kvenna í eins marks tapleik liðsins gegn Kínverjum á æfingamóti í Portúgal í gær. Kína sigraði með 21 marki gegn 20 en staðan í hálfleik var 15:9 fyrir Kína. Þegar 20 mínútur voru liðnar af leiknum munaði aðeins einu marki á liðunum, 9:8, en á næstu 10 mínútum skoraði kínverska liðið 6 mörk gegn 1. Íslenska liðið náði að rétta sinn hlut verulega í síðari hálfleik og þegar 5 mínútur voru eftir af leiknum var Ísland tveimur mörkum yfir, 20:18. Íslendingar náðu ekki að fylgja því eftir og eins marks tap var niðurstaðan. Þórey Rósa Stefánsdóttir og Stella Sigurðardóttir skoruðu 5 mörk hvor fyrir Ísland.

Íslenska U-17 ára landslið kvenna í knattspyrnu tapaði 4:2 gegn Dönum í undankeppni Evrópumótsins en leikurinn fór fram í Danmörku í gær. Danir komust yfir í fyrri hálfleik en Arna Sif Ásgrímsdóttir jafnaði fyrir Ísland á 26. mínútu og var staðan 1:1 í hálfleik. Danir bættu við tveimur mörkum í síðari hálfleik áður en Berglind Þorvaldsdóttir skoraði fyrir Ísland sjö mínútum fyrir leikslok. Íslenska liðið lagði allt kapp á sóknarleikinn á lokakafla leiksins og við það opnaðist vörn liðsins. Danir nýttu tækifærið og bættu við fjórða markinu og gulltryggðu sigurinn.

Þetta var annar tapleikur íslenska liðsins í keppninni en liði tapaði gegn Rússum 4:3. Síðasti leikur liðsins er gegn Finnum á laugardag. Danir eru með 4 stig fyrir lokaumferðina líkt og Finnar sem lögðu Rússland, 1:0, í gær. Ísland er í neðsta sæti án stiga.