ALI Babacan, utanríkisráðherra Tyrklands, segir að hætta sé á að viðræðum Tyrkja við Evrópusambandið um aðild verði frestað ef dómstólar banni stjórnarflokk Recep Tayyip Erdogans forsætisráðherra, AKP.
ALI Babacan, utanríkisráðherra Tyrklands, segir að hætta sé á að viðræðum Tyrkja við Evrópusambandið um aðild verði frestað ef dómstólar banni stjórnarflokk Recep Tayyip Erdogans forsætisráðherra, AKP. Ríkissaksóknari Tyrklands fór fyrr í mánuðinum fram á að stjórnlagadómstóll bannaði flokkinn á þeirri forsendu að AKP bryti lög um aðskilnað ríkisvalds og trúar með því að ota fram trúarlegum sjónarmiðum í stjórnsýslunni.

Talið er að liðið geti sex mánuðir áður en málið um lögmæti flokksins verður útkljáð. ESB hefur þegar stöðvað viðræður um átta af alls 35 mikilvægum málaflokkum sem fara þarf yfir áður en ríki geti fengið aðild. Ágreiningur er milli aðilanna vegna þess að Tyrkir neita að veita gríska hluta Kýpur tollaívilnanir komi til aðildar en gríski hlutinn er nú aðili að ESB. Einnig er andstaða við aðild Tyrkja hjá mörgum leiðtogum í sambandinu.