Andrés Pétursson
Andrés Pétursson
Andrés Pétursson skrifar um Evrópusambandsmál: "Löggjöf Evrópusambandsins hefur áhrif á nánast hvern einasta einstakling á Íslandi á hverjum degi."
NOKKRAR deilur hafa blossað upp um hve mikið af regluverki Evrópusambandsins við Íslendingar tökum upp í gegnum EES-samninginn. Menn flagga tölum frá 6,5% upp í 80% eftir því sem viðkomandi vill sanna hve samtvinnað Ísland er reglugerðarsetningu Evrópusambandsins. Staðreyndin er hins vegar sú að ekkert ESB-land tekur upp allt regluverk Evrópusambandsins þannig að svona talnaleikfimi segir ekki nema hluta sannleikans. Eiríkur Bergmann Einarsson, forstöðumaður Evrópufræðaseturs Háskólans á Bifröst, hefur rannsakað þetta manna mest og hefur bent á að Ísland taki upp um 80% af því sem Svíþjóð taki upp. Sú tala segi mun meira en þær tölur sem menn eru að deila um hér á landi.

Ísland tekur reyndar upp nánast allt reglugerðaverk Evrópusambandsins varðandi innri markaðinn og þar með flest þau lög sem tengjast verslun og viðskipum þar með talda samkeppnislöggjöf, neytendavernd og þjónustutilskipun ESB. Löggjöf Evrópusambandsins hefur því áhrif á nánast hvern einasta einstakling á Íslandi á hverjum degi. Það má því örugglega færa rök fyrir því að við höfum tekið upp á milli 70-80% af ESB reglum sem snerta málefni hins innri markaðar.

Við tökum hins vegar ekki upp einstakar reglugerðir sem tengjast tímabundnum aðgerðum eins og niðurgreiðslu á mjólkurafurðum í Mið-Evrópu, svæðisbundnum aðgerðum í landnýtingu á Írlandi eða skyndilokanir á veiðisvæðum í Eystrasalti. Evrópusambandið setur lög með reglugerðum, tilskipunum og ákvörðunum. Tilskipanir (directives) eru rammalöggjöf og yfirleitt viðamestar en reglugerðir (regulations) og ákvarðanir (decisions) eru margfalt fleiri en hafa yfirleitt tímabundna og/eða takmarkaða lögsögu.

Sigurður Kári Kristjánsson alþingismaður fór mikinn á síðum Morgunblaðsins fyrir skömmu og vísaði þar í svar sem Davíð Oddsson, þáverandi utanríkisráðherra, hafði gefið við fyrirspurn hans um hver við tækjum upp af lögum ESB. Í svarinu kom fram að frá því EES-samningurinn gekk í gildi árið 1994 og fram til ársins 2004 hafi ESB samþykkt 1.047 tilskipanir, 27.320 reglugerðir og 10.569 ákvarðanir. Ísland hafði á þessum tíma tekið upp 2.527 gerðir frá ESB þar á meðal stóra lagabálka varðandi samkeppnismál, um óréttmæta viðskiptahætti, neytendamál, umhverfisvernd og fleira. Með því að blanda saman öllum þessum gerðum fékk utanríkisráðherrann út að Ísland tæki 6,5% af reglugerðaverki ESB í innlend lög.

Flestir hugsandi menn sjá að sú framsetning gefur alls ekki rétta mynd af mikilvægi þeirrar lagasetningar sem Ísland hefur tekið upp. Fyrst skal nefna að ótækt er að leggja tilskipanir, reglugerðir og ákvarðanir Evrópusambandsins að jöfnu enda greinir ESB ávallt vel þar á milli. Í öðru lagi er mikilvægi þessara lagagerða mjög misjafnt og ekki hægt að leggja þær allar að jöfnu. Í þriðja lagi er síðan ljóst að ekkert land tekur upp allar þessar reglugerðir og því eru þessar tölur vart samanburðarhæfar.

Fyrir þá sem vilja kynna sér þessi mál er gott að lesa grein Eiríks Bergmanns Einarssonar „Á kafi í Evrópusamrunanum“ á slóðinni

http://www.bifrost.is/default.asp?sid_id=22905&tId=1 en þar fjallar hann um hve vandmeðfarið er með svona tölfræðiupplýsingar. Eftir því sem ég best veit hefur enginn dregið í efa þær rannsóknir sem Eiríkur birtir þar.

Höfundur er formaður Evrópusamtakanna.