Hjarta Reykjavíkur, gamli miðbærinn, er sjúkt. Í umfjöllun fjölmiðla að undanförnu hafa komið fram margar hliðar á þeim sjúkleika. Eitt mest áberandi sjúkdómseinkennið er hversu fáir virðast bera virðingu fyrir miðborginni.
Hjarta Reykjavíkur, gamli miðbærinn, er sjúkt. Í umfjöllun fjölmiðla að undanförnu hafa komið fram margar hliðar á þeim sjúkleika.

Eitt mest áberandi sjúkdómseinkennið er hversu fáir virðast bera virðingu fyrir miðborginni. Hún er hverfið þar sem fólk drekkur sig út úr, brýtur glös og flöskur, hendir rusli og gubbar á útidyratröppur náungans. Miðbærinn er borgarhverfið þar sem flestar líkamsárásir, slagsmál og nauðganir eiga sér stað. Miðborgin er eftirlæti skemmdarvarga, sem krota á hús og kveikja í ruslafötum. Hundaskíturinn þornar á gangstéttunum, innan um sprautunálarnar og glerbrotin, þangað til næsti götusópari lætur sjá sig einhvern tímann með sumrinu.

Það eru ekki bara krotararnir og fyllibytturnar, sem bera enga virðingu fyrir elzta borgarhverfinu. Alls konar fínir framkvæmdamenn, sem vilja „uppbyggingu“ og „endurnýjun“ í miðbænum, búa í haginn með því að láta húseignir drabbast niður og verða veggjakroti, útigangsmönnum og brennuvörgum að bráð. Byggingarfulltrúi Reykjavíkur er svo upptekinn við að fylgjast með nýbyggingum í úthverfunum að hann hefur ekki tíma til að fylgjast með því að gömlum húsum sé haldið í horfinu.

Verktakaviðhorfið er að spýtur séu ósmartar en gler, ál og steinsteypa það sem koma skal. Smátt og smátt er sagan rifin úr miðborginni í nafni framfara. Hjáróma húsverndarfólk reynir að þvælast fyrir við lítinn orðstír og er grunað um að vera á móti nútímanum. Fólk, sem hefur jafnvel af eigin rammleik gert upp gömul hús og haldið sögu þeirra og arfleifð til haga, segist hafa fengið hótanir um að útigangspakki verði komið fyrir í næsta nágrenni ef það ekki selur eignir sínar í þágu „uppbyggingarinnar“.

Borgaryfirvöld hafa enga skýra stefnu um málefni miðborgarinnar. Að minnsta kosti lýsti lögreglustjórinn í Reykjavík eftir henni í útvarpinu í gær, stuttu eftir að hann lét lýsa eftir ofbeldismanninum sem barði samlanda sína í Breiðholtinu með hornaboltakylfu og dró þannig athyglina frá miðbænum um stund.

Borgarstjórnin hefur ekki náð neinum tökum á ástandinu. Í gær heyrðist loksins eitthvað af viti frá Vilhjálmi Þ. Vilhjálmssyni, formanni borgarráðs, sem ætlar að taka fastar á þeim sem láta hús drabbast niður og setja peninga í að hreinsa veggjakrot. En meira þarf að koma til. Það þarf skýra.

Þarf ekki borgarstjórinn líka að láta í sér heyra? Taka af skarið? Hvar er læknirinn þegar hjarta höfuðborgarinnar er fársjúkt?