Finnur Árnason
Finnur Árnason — northphotos.net
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Finnur Árnason svarar leiðara Morgunblaðsins: "Ég hvet leiðarahöfund og Pétur til þess að kynna sér rannsóknir dr. Jóns Þórs áður en þeir draga frekari ályktanir um samband gengis og verðlags á innfluttum matvörum."
LEIÐARI Morgunblaðsins í gær fjallar um „ólgusjó verðbreytinga, vaxtahækkana, gengissveiflna og óróa á fjármálamörkuðum“. Hann fjallar einnig um mikilvægi þess að „neytendur standi vaktina og geri allt hvað þeir geta til þess að efla eigið verðskyn og verðaðhald“. Ég tek undir þessi orð á þessum óvissutímum og legg áherslu á mikilvægi þess að öllum ráðum sé beitt til þess að halda verðbólgu í skefjum.

Í leiðaranum er ég borinn fyrir þeirri fullyrðingu að 20% verðhækkun blasi við, ef krónan styrkist ekki á ný. Í leiðaranum kemur einnig fram að Pétur Blöndal hafi sagt í Kastljósi RÚV að ég reiknaði rangt og virðist leiðarahöfundur taka undir þá fullyrðingu. Eftir lestur leiðarans og almenna umfjöllun um verðlag undanfarna daga, m.a. um staðhæfingu mína um að verð á innfluttum matvörum gæti hækkað um 20% ef gengi krónunnar styrktist ekki, er mér ljóst að misskilnings gætir og afmörkuð staðhæfing mín hefur verið frjálslega útvíkkuð. Ekki bara á alla matvöru, heldur einnig allt verðlag. Mér er ljúft og skylt að leiðrétta þennan misskilning.

Til að varpa ljósi á hvað var sagt og hvað ekki er rétt að eftirfarandi komi fram. Upp úr klukkan 7.30 síðastliðinn þriðjudagsmorgun var ég í viðtali hjá Sveini Helgasyni í morgunútvarpi Rásar 1. Þá var síðasti viðskiptadagur með gjaldeyri miðvikudagur fyrir páska og markaðir höfðu ekki verið opnaðir eftir páska þegar viðtalið fór fram. Meðalgengi Evrunnar gagnvart íslensku krónunni síðasta viðskiptadag fyrir páska er skráð á vef Seðlabanka Íslands 122,51. Meðalgengi í febrúarmánuði er skráð 98,04. Ég sagði í viðtalinu við Svein að evran hefði hækkað frá því að kosta undir 100 krónur í lok febrúar í yfir 120 krónur og hæsta gengi fyrir páska hefði farið yfir 125 krónur. Að framansögðu er ljóst að evran kostaði tæplega 25% meira daginn fyrir páska en hún hafði gert að meðaltali í febrúar. Um 30% af matarkörfu heimilanna eru innflutt matvara. Ég sagði í viðtalinu að ef krónan styrktist ekki ættum við von á um 20% hækkun á innfluttum matvörum.

Leiðarahöfundur og Pétur Blöndal benda á að hluti af verði vörunnar sé innlendur kostnaður. Öll lækkun á gengi krónunnar komi ekki beint fram í verðhækkun. Það er rétt. Enda hef ég aldrei haldið öðru fram og mun aldrei gera. Kostnaðarverð lágvöruverslunar, sem ég þekki og selur matvörur er yfir 85% af smásöluverði án virðisaukaskatts. Mitt mat er að í íslenskri matvöruverslun í heild sé kostnaðarverðið öðrum hvoru megin við 80% af smásöluverði án virðisaukaskatts. Í þessu ljósi er rétt að skoða hvort staðhæfing mín um mögulega hækkun á innfluttum vörum sé röng. Það tel ég ekki. Leiðarahöfundur og Pétur Blöndal þurfa hinsvegar að fara yfir þær forsendur sem þeir gefa sér við sinn útreikning. Ég tel að þeir komist að niðurstöðu sem liggur nærri mínum útreikningum.

Pétur Blöndal var þingmaður í stjórnarliði ríkisstjórnar, sem tilkynnti haustið 2006 um aðgerðir, sem áttu skv. tilkynningu að skila 16% lækkun á matarverði. Samkvæmt óvéfengdum útreikningum Hagstofunnar í ársbyrjun 2007 var niðurstaðan að aðgerðirnar skiluðu 8,7% lækkun. Ekki bar á áhuga Péturs að upplýsa um þessa reikniskekkju í þá u.þ.b. 15 mánuði, sem neytendur voru með áróðri stjórnvalda látnir halda að þeir ættu von á 16% lækkun á matarverði, þrátt fyrir augljósar vísbendingar um rangan útreikning og óskir verslunarinnar um réttar upplýsingar.

Í leiðaranum er einnig haft orðrétt eftir Pétri Blöndal: „Vöruverð lækkaði ekki þegar gengið styrktist og þess vegna geri ég kröfu til markaðarins um hið sama nú, þegar krónan hefur veikst, að samkeppnin sjái til þess að vöruverð hækki ekki jafnmikið og gengið.“ Hér getur Pétur ekki verið að tala um matvörur. Eins og sjá má á meðfylgjandi mynd er mikil fylgni á milli þróunar á vísitölu innfluttrar matvöru annars vegar og gengisvísitölu Seðlabanka Íslands hinsvegar. Þegar gengisvísitalan hefur lækkað hefur verð á innfluttum vörum lækkað. Dr. Jón Þór Sturluson, aðstoðarmaður viðskiptaráðherra er líklega sá Íslendingur sem mest hefur rannsakað fylgni gengisbreytinga og verðlags á innfluttum matvörum. Ég hvet leiðarahöfund og Pétur til þess að kynna sér rannsóknir dr. Jóns Þórs áður en þeir draga frekari ályktanir um samband gengis og verðlags á innfluttum matvörum.

Forsvarsmenn ASÍ hafa einnig gagnrýnt mig og verslunina fyrir að vekja athygli á þeirri verbólguvá sem gæti verið framundan ef gengi krónunnar styrkist ekki. Málflutningur þeirra missir trúverðugleika, þegar ASÍ á fulltrúa í nefnd, sem tilkynnti nú að mjólk skuli hækka um 14,6%. Fulltrúi ASÍ sat hjá við afgreiðslu hluta ákvörðunarinnar, en mótmælti ekki. Sú ákvörðun sýnir hinsvegar þá alvarlegu stöðu sem blasir við íslenskum heimilum og ég hef reynt að benda á.

Að lokum þetta. Ég ítreka mikilvægi þess sem fram kom í fyrirsögn leiðara Morgunblaðsins í gær að neytendur standi vaktina. Ég legg líka áherslu á að verslunin standi sína vakt. Okkar hlutverk er að kaupa inn góða vöru ódýrt. Það hefur ekkert breyst. Eitt mikilvægasta verkefni þjóðarinnar nú er að halda verðbólgu í skefjum. Hagsmunir verslunarinnar og heimilanna fara þar saman.

Höfundur er forstjóri Haga.