Guðríður Arnardóttir
Guðríður Arnardóttir
Guðríður Arnardóttir skrifar um heimgreiðslur til foreldra í Kópavogi: "Það er ódýrara að senda konurnar aftur inn á heimilin en reka leikskóla!"
NÝVERIÐ samþykkti borgarstjórn Reykjavíkur að greiða foreldrum í Reykjavík nokkurs konar biðlaun þar til börnin þeirra fá inni á leikskóla. Biðlaun sem kölluð eru heimgreiðslur. Ákvörðunin hefur vakið nokkra athygli fjölmiðla og fjölmargir gagnrýnt þá ákvörðun. Gyða Margrét Pálsdóttir sem vinnur doktorsritgerð um samræmingu fjölskyldulífs og atvinnu hefur m.a. bent á að það eru fyrst og fremst konur sem draga úr vinnu sinni og fara aftur inn á heimilin og hefur því efasemdir um gildi þessara greiðslna. Samfylkingin hefur gagnrýnt þessar heimgreiðslur harðlega og bent á að í þeim löndum í kringum okkur sem bjóða upp á heimgreiðslur eru það láglaunakonur sem hverfa af vinnumarkaði og þá gjarnan innflytjendur. Það eru því helst börn láglaunakvenna sem missa af því mikilvæga námi sem fer fram á leikskólunum.

Rétt er að benda á í þessari umræðu að foreldrar barna í Kópavogi sem nýta ekki þjónustu leikskólanna fá 35.000 kr. mánaðarlega með hverju barni frá því að fæðingarorlofi lýkur þar til þau fara í grunnskóla! Þarna erum við að tala um alvöru kvennagildru, skref aftur á bak í jafnréttisbaráttunni.

Í Noregi hafa slíkar greiðslur verið í gildi í nokkur ár en nú íhuga Norðmenn að leggja þær af þar sem þær hafa nær eingöngu verið nýttar af mæðrum og stuðlað að því að konur hverfi af vinnumarkaðnum sem vinnur gegn jafnrétti kynjanna.

Það má einnig velta fyrir sér hver raunverulegur tilgangur leikskólans er. Hlutverk leikskólans er tvíþætt, annars vegar er hann gæsla fyrir börnin okkar og niðurgreiddur leikskóli er stuðningur við barnafólk svo það geti stundað vinnu utan heimilis. En hitt er ekki síður mikilvægt, leikskólinn er nefnilega skilgreindur sem fyrsta skólastigið og er öllum ljóst að hann er öflug undirstaða grunnskólans og þar fer fram mikilvægt nám bæði bóklegt og félagslegt. Börn sem fara á mis við leikskólann eru því að missa af miklu og eru verr undirbúin fyrir grunnskóla.

Og orkar það þá ekki tvímælis að nú skuli sveitarfélag eins og Kópavogur greiða foreldrum fyrir að nýta ekki þjónustu leikskólanna? Heimgreiðslur eru nefnilega leið til að draga úr útgjöldum sveitarfélagsins því þær eru lægri en sem nemur kostnaði við hvert pláss á leikskóla.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er kveðið á um lengingu fæðingarorlofs. Það er eðlileg leið til þess að gefa foreldrum tækifæri til þess að vera lengur heima með börnunum sínum. Auðvitað er það val hvers og eins hvort viðkomandi nýtir sér þjónustu leikskólanna eða kjósi að vera heima með börnunum sínum fram að skólagöngu. Það val er ekki af neinum tekið þótt engar séu heimgreiðslurnar. En er eðlilegt að greiða foreldrum fyrir að nýta ekki þá þjónustu sem er í boði? Er t.d. eðlilegt að greiða okkur sem sjaldan förum í sund ákveðna upphæð mánaðarlega fyrir að nýta ekki þjónustu sundlauganna? Eða við sem erum heilsuhraust, eigum við ekki rétt á greiðslum fyrir að nýta okkur ekki þjónustu heilsugæslunnar?

Að baki heimgreiðslum í Kópavogi liggur engin önnur hugsjón en að spara krónur og aura því það er ódýrara að senda konurnar aftur inn á heimilin en reka leikskóla!

Höfundur er oddviti Samfylkingarinnar í Kópavogi.