1. apríl 2008 | 24 stundir | 383 orð | 2 myndir

Dansarar fara ekki til Serbíu þrátt fyrir margra mánaða undirbúning

Dönsurum Euro-bandsins sparkað

Eurobandið hefur látið fjóra dansara sína fjúka og ætlar að fá bakraddir í staðinn. Páll Óskar tekur ábyrgð á ákvörðuninni og segir lagið ekki hafa verið samkeppnishæft.

— 24stundir/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Björn Braga Arnarsson bjornbragi@24stundir.is „Við erum búnar að starfa mjög náið með þessu fólki frá byrjun, gefa okkur 150% í þetta allan tímann og skipuleggja framtíðina alveg í kringum þessa keppni.
Eftir Björn Braga Arnarsson

bjornbragi@24stundir.is

„Við erum búnar að starfa mjög náið með þessu fólki frá byrjun, gefa okkur 150% í þetta allan tímann og skipuleggja framtíðina alveg í kringum þessa keppni. Síðan er okkur tilkynnt um þessa ákvörðun með einu litlu símtali á föstudagskvöldið,“ segir dansarinn Sigrún Birna Blomsterberg.

Fjórum dönsurum, sem hafa verið með í Eurovision-atriði Eurobandsins, var síðastliðið föstudagskvöld tilkynnt að nærveru þeirra verði ekki óskað þegar This Is My Life verður flutt í Serbíu í lok maí. Stúlkurnar eru allt annað en sáttar við ákvörðunina.

Ráða ekki við lagið

„Mér þykir líka skrýtið að Páll Óskar hafi tilkynnt okkur þetta,“ segir Sigrún. Henni þykja aðferðir Eurobandsins ófagmannlegar og ómanneskjulegar. „Maður sem við höfum ekkert starfað með, hann er allt í einu orðinn höfuð og herðar í þessu öllu.“ Hún segir Pál hafa gefið þá ástæðu að Friðrik Ómar og Regína réðu ekki fullkomlega við lagið og þyrftu að njóta liðsinnis bakraddasöngvara, en aðeins sex mega vera á sviðinu í hverju atriði. „Ég get alveg leyft mér að fullyrða að við erum ekki rekin vegna frammistöðu okkar. Við erum góðir dansarar og höfum sinnt okkar starfi vel. Ég held líka að Íslendingar hafi verið að kjósa atriðið í heild, en ekki bara lagið,“ segir Sigrún og á ekki von á að atriðið muni líta vel út án dansara.

Breyta atriðinu frá grunni

„Ég og Örlygur Smári ráðum því hvernig atriðið á að vera. RÚV ræður okkur til starfa og við gerum þetta nákvæmlega eins og okkur sýnist. Við ætlum að breyta öllu atriðinu frá grunni og erum að teikna framsetningu þess upp á nýtt. Þáttur í því var að skipta út dönsurunum fyrir bakraddasöngvara,“ segir Páll Óskar.

„Ef það á að dæma einhvern fyrir þessa ákvörðun þá er ég ábyrgur. Ég skil vel að þetta valdi þeim vonbrigðum, en ég kaus að hugsa um hagsmuni lagsins. Ég veit að þetta er óvinsæl ákvörðun, en ég get lofað því að atriðið verður margfalt betra fyrir vikið. Þegar kemur að því að búa til gott „show“ er ég manna bestur.“

Málsaðilar áttu fund á sunnudag, sem Sigrún segir að hafi skilað litlu. „Við náðum að hreinsa aðeins andrúmsloftið, en fengum annars lítið út úr fundinum. Þessu er ekki lokið af okkar hálfu,“ segir hún, en Páll telur málinu lokið af hálfu Eurobandsins.

Fletta í greinum frá þessum degi

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.