Frá Reyni Harðarsyni: "SAMKVÆMT 73. gr. stjórnarskrárinnar eru allir frjálsir skoðana sinna og sannfæringar. Höskuldur Þór Þórhallsson er þeirrar skoðunar að engin ástæða sé til að fella út og umorða vísun í „kristilegt siðgæði“ í leik- og grunnskólalögum."
SAMKVÆMT 73. gr. stjórnarskrárinnar eru allir frjálsir skoðana sinna og sannfæringar. Höskuldur Þór Þórhallsson er þeirrar skoðunar að engin ástæða sé til að fella út og umorða vísun í „kristilegt siðgæði“ í leik- og grunnskólalögum. Hann telur „lofsvert“ að markmið uppeldis í leikskólum sé að efla kristilegt siðferði barna og að starfshættir grunnskóla skuli mótast af kristilegu siðferði.

Í frumvarpi menntamálaráðherra til laga um leikskóla er þetta markmið klárlega horfið. Í frumvarpi til laga um grunnskóla er sagt að skólastarf skuli mótast „af umburðarlyndi, jafnrétti, lýðræðislegu samstarfi, ábyrgð, umhyggju, sáttfýsi og virðingu fyrir manngildi“.

Höskuldur á erfitt með að skilja nauðsyn þessara breytinga. Sjálfur skil ég ekki af hverju markmið uppeldis í leikskólum er ekki bara að efla siðgæði barna. Orðið siðgæði segir allt sem segja þarf, gott siðferði. En að efla kristilegt siðferði er vafasamt. Kristur hlýtur að vera besti mælikvarðinn á kristilegt siðferði. Eftir honum er haft í Biblíunni: „Ef einhver kemur til mín og hatar ekki föður sinn og móður, konu og börn, bræður og systur og enda sitt eigið líf, sá getur ekki verið lærisveinn minn.“ (Lk. 14:26) „Sá sem elskar líf sitt, glatar því, en sá sem hatar líf sitt í þessum heimi, mun varðveita það til eilífs lífs“ (Jh. 12:25). Hatur í garð fjölskyldu og eigin lífs tel ég ekki eftirsóknarvert siðferði og í raun ámælisvert að skipa því öndvegi í uppeldi barna eða starfsháttum skóla.

Gagnrýnendur núverandi orðalags í lögunum kallar biskup ítrekað „hatramma“ og neitar að draga til baka. Prestar og afsprengi þeirra syngja einum kór að allt fari til helvítis verði orðalaginu haggað. Þeir eiga stutt að sækja tilvísanir í hatur og helvíti. Kristur boðar að lastmæli einhver náunga sínum eigi hann helvítisvist vísa, grátur og gnístran tanna í eldsofni algóðs guðs, um alla eilífð. Er það hollur boðskapur?

Með hundalógik má úthrópa Höskuld og aðra gagnrýnendur frumvarpa menntamálaráðherra sem hatramma andstæðinga umburðarlyndis, jafnréttis, lýðræðislegs samstarfs, ábyrgðar, umhyggju, sáttfýsi og virðingar fyrir manngildi. Svo ósanngjarn er ég ekki.

Í þeirri grein stjórnarskrárinnar, sem getið var í upphafi, segir að tjáningarfrelsi megi „aðeins setja skorður með lögum í þágu allsherjarreglu eða öryggis ríkisins, til verndar heilsu eða siðgæði manna eða vegna réttinda eða mannorðs annarra“. Til verndar siðgæði manna, ekki kristilegs siðgæðis þeirra! Sofa sannkristnir rólegir vegna þessa?

Siðgæði er gott siðferði. Kristilegt siðferði er vafasamt siðferði. Því fagna ég tillögum menntamálaráðherra. Lög eiga að efla siðmennt.

REYNIR HARÐARSON

sálfræðingur.

Frá Reyni Harðarsyni