Eftir Hjört Gíslason hjgi@mbl.is Svokallað netarall hefst á næstu dögum. Það er rannsókn sem beinist að hrygningarfiski, einkum þorski, og er með svipuðu sniði og togararallið. Netarallið vegur þó ekki jafn þungt í stofnmælingu botnfiska og...

Eftir Hjört Gíslason

hjgi@mbl.is Svokallað netarall hefst á næstu dögum. Það er rannsókn sem beinist að hrygningarfiski, einkum þorski, og er með svipuðu sniði og togararallið. Netarallið vegur þó ekki jafn þungt í stofnmælingu botnfiska og togararallið.

Valur Bogason fiskifræðingur hefur umsjón með netarallinu. Hann segir að búið sé að ganga frá samningum við fimm báta á hinum hefðbundnu netaveiðisvæðum og aðsamningar standi yfir við einn bát vegna rallsins fyrir Norðurlandi.

Tilboð frá níu bátum

Alls komu tilboð frá níu bátum um þátttöku í rallinu en reyndar ekkert vegna Norðurlandsins. Líklega verður það Þorleifur EA sem fer í rallið þar. Í Breiðafirði verður Arnar SH, Saxhamar SH verður á Faxaflóa, Friðrik Sigurðsson ÁR verður við sunnanvert Reykjanesið austur að Þrídröngum. Glófaxi VE verður í köntunum fyrir austan Eyjar og Hvanney SF verður á svæðinu út af Hornafirði. Gert er ráð fyrir því að rallið standi yfir í tíu daga til hálfs mánaðar en tíminn er mismunandi eftir svæðum. Að meðaltali eru um 50 stöðvar á hvern bát. Helmingur stöðvanna er fastur, það er netin eru alltaf lögð á sama stað ár eftir ár. Hinum stöðvunum ræður skipstjórinn innan vissra marka þó.

Lágmarksstærð og aðbúnaður

Hafrannsóknastofnun býður út þátttöku í rallinu og þar eru gerðar ákveðnar kröfur um stærð báta og aðbúnað. „Við erum með 115 tonna lágmarksstærð báta og þeir þurfa að vera yfirbyggðir, nema fyrir norðan þar sem bæði er gerð undantekning á stærð og yfirbyggingu. Við erum með ákveðna stigagjöf í útboðinu þar sem metin er aðstaða um borð og tilboð útgerðanna um hlutfall til þeirra úr aflanum. Aflinn fer á markað og kemur umsaminn hlutur til áhafnar og útgerðar,“ segir Valur.

Miklar upplýsingar

Niðurstöður úr netarallinu eru notaðar til stuðnings stofnmati. „Auk þess er safnað gríðarlegum líffræðilegum upplýsingum um hrygningarfiskinn sem er mjög mikilvægt, sérstaklega um elsta hluta stofnsins“ segir Valur.

Afli í netarallinu í fyrra varð mun meiri en árið áður. Þar sem aflinn í rallinu undanfarin ár hefur vegið mjög lítið í stofnstærðarmatinu, hafði það lítið að segja.

Í hnotskurn
» Hafrannsóknastofnun býður út þátttöku í rallinu og þar eru gerðar ákveðnar kröfur um stærð báta og aðbúnað.
» Að meðaltali eru um 50 stöðvar á hvern bát. Helmingur stöðvanna er fastur, það er netin eru alltaf lögð á sama stað ár eftir ár. Hinum stöðvunum ræður skipstjórinn innan vissra marka þó.
» Afli í netarallinu í fyrra varð mun meiri en árið áður. Þar sem aflinn í rallinu undanfarin ár hefur vegið mjög lítið í stofnstærðarmatinu, hafði það lítið að segja.