1. apríl 2008 | 24 stundir | 198 orð | 1 mynd

Deilt um eignarhald á Ofurmenninu

Framtíð Súpermans í uppnámi

Deilur um eignarrétt á ofurhetjunni Súperman milli erfingja hins upprunalega höfundar og D.C. Comics hafa valdið því að framtíð Súperman-kvikmynda er í uppnámi.
Eftir Viggó I. Jónasson

viggo@24stundir.is

Nú hafa dómstólar vestanhafs úrskurðað að D.C. Comics og kvikmyndaframleiðslufyrirtækið Warner Brothers þurfi að greiða aðstandendum Jerry Siegel, hins upprunalega höfundar Súpermans, hluta af gróðanum sem fyrirtækin hafa halað inn frá árinu 1999, en það árið riftu erfingjar Siegels samningnum um eignarrétt D.C. Comics á Súperman.

Nánast öruggt er að Warner Bros. mun áfrýja úrskurðinum en ef dómurinn stendur er ljóst að Warner þarf að afhenda erfingjum Siegels dágóðan skerf af þeim 200 milljónum dollurum sem Superman Returns-myndin halaði inn.

Justice League í hættu?

Þessi dómur breytir býsna miklu varðandi framtíðaráform Warner Bros. um hina bláklæddu ofurhetju. Ef dómurinn nær fram að ganga mun Siegel-fjölskyldan öðlast eignarréttinn á Súperman árið 2013 og þar með mun ekkert kvikmyndaver geta framleitt mynd um hetjuna miklu án þess að greiða fúlgu fjár til ættingja Siegels. Nú þegar er fyrirhugað að framleiða tvær myndir um ofurmennið, framhald af Superman Returns og svo Justice League þar sem úrvalslið ofurhetja svo sem Súperman, Batman og fleiri snýr bökum saman til að berjast gegn illmennum.

Þessi dómur hefur haft þær afleiðingar að Warner Bros. hefur fengið bakþanka um framleiðslu myndanna og verður þeim frestað eða jafnvel hætt við gerð þeirra.

Fletta í greinum frá þessum degi

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.