Rukkað með handafli Stefan Schaefer í hlutverki Wolfi og Benedikt Erlingsson í hlutverki Snata í <strong> Stóra planinu</strong> .
Rukkað með handafli Stefan Schaefer í hlutverki Wolfi og Benedikt Erlingsson í hlutverki Snata í Stóra planinu .
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
ÍSLENSKA kvikmyndin Stóra planið er tekjuhæsta kvikmynd nýafstaðinnar helgi en hún var frumsýnd á föstudaginn síðastliðinn.
ÍSLENSKA kvikmyndin Stóra planið er tekjuhæsta kvikmynd nýafstaðinnar helgi en hún var frumsýnd á föstudaginn síðastliðinn. Myndina prýðir föngulegur leikarahópur með spéfuglinn Pétur Jóhann Sigfússon í aðalhlutverki sem stendur sig vel að mati gagnrýnanda Morgunblaðsins. Hann gaf myndinni þrjár stjörnur. Í Stóra planinu segir af heldur treggáfuðum handrukkara, Davíð, og félögum hans í glæpagengi nokkru sem heyrir undir glæpaforingjann Alexander sem Michael Imperioli leikur. Inn í þá sögu fléttast samskipti Davíðs við dularfullan leigusala sinn, Harald Haraldsson grunnskólakennara, sem reynir að leiðbeina Davíð í lífinu með litlum árangri.

Þess ber að geta, sem fyrr, að miðaverð er hærra á íslenskar kvikmyndir en erlendar en Stóra planið skýtur þó myndinni í öðru sæti, Vantage Point , ref fyrir rass hvað tekjur af miðasölu varðar með tæpar sex milljónir króna á móti rétt rúmum 1,6 milljónum þeirrar síðarnefndu. Teiknimyndin um fílinn Horton dettur niður um tvö sæti, úr því fyrsta í það þriðja og önnur fjölskyldumynd dettur einnig um tvö, The Spiderwick Chronicles sem er nú í 4. sæti. Ný mynd á lista með hinni snoppufríðu Jessicu Alba, The Eye , stekkur í 6. sæti en sá hrollur hefur hlotið heldur neikvæða gagnrýni. Þeir sem halda því fram að enginn nenni að fara að sjá íslenskar myndir í bíó verða heldur betur að éta það ofan í sig eða éta hattana sína því Brúðgumi Baltasars Kormáks er búinn að vera á lista yfir tíu tekjuhæstu myndirnar í 11 vikur. Um 53.000 manns hafa séð myndina, um sjötti hver Íslendingur hvorki meira né minna.