Heyrir raddir Hendry, til hægri á myndinni, segist heyra raddir sem stýri fjárfestingum hans.
Heyrir raddir Hendry, til hægri á myndinni, segist heyra raddir sem stýri fjárfestingum hans.
Eftir Bjarna Ólafsson bjarni@mbl.is EINN þeirra erlendu fjármálamanna sem hagnast hafa á veikingu íslensku krónunnar stærði sig af því árið 2006 að hann vildi láta minnast sín sem mannsins sem gerði Ísland gjaldþrota.
Eftir Bjarna Ólafsson

bjarni@mbl.is

EINN þeirra erlendu fjármálamanna sem hagnast hafa á veikingu íslensku krónunnar stærði sig af því árið 2006 að hann vildi láta minnast sín sem mannsins sem gerði Ísland gjaldþrota.

Hugh Hendry, yfirmaður fjárfestingasviðs hjá breska vogunarsjóðsfyrirtækinu Eclectica Asset Management, sagði þetta m.a. í viðtali við breska blaðið Times þann 8. júlí 2006.

Einn sjóða Eclectica, The Eclectica Fund (TEF), er sjóður sem fjárfestir í hlutabréfum og gjaldmiðlum, hvort heldur sem er með hefðbundinni fjárfestingu eða svokölluðum skortstöðum, sem fela það í sér að fjárfestir veðjar á að viðkomandi hlutabréf eða gjaldmiðill falli í verði. Alls nema eignir í umsýslu TEF tæpum 160 milljónum evra (andvirði um 19,1 milljarðs króna á núvirði) og er því töluvert stærri en meðal-vogunarsjóðurinn, þótt ekki sé hann í hópi hinna stærstu.

Vísar til George Soros

Í yfirliti yfir stöðu sjóðsins í febrúarmánuði kemur fram að um 10% af fjárfestingum sjóðsins í gjaldeyri er skortstaða í íslensku krónunni, en ekki er gefið upp nákvæmlega hve staðan er stór. Miðað við það hver þróunin hefur verið á gengi krónunnar í marsmánuði má því leiða að því líkur að TEF hafi hagnast myndarlega á því að veðja á fall krónunnar.

Í viðtalinu er Hendry sagður geta virst sjálfumglaður eins og þegar hann segir: „Ég vil verða þekktur sem maðurinn sem gerði Ísland gjaldþrota“ en hann var þegar árið 2006 með umtalsverðar skortstöður í íslensku krónunni. Vísaði Hendry með orðum sínum til bandaríska auðjöfursins George Soros, sem frægur er, eða alræmdur, fyrir að hafa auðgast gríðarlega á, og stuðlað að, falli breska pundsins árið 1992, en breska ríkisstjórnin neyddist í kjölfarið til að draga pundið úr myntsamstarfi Evrópusambandsríkja.

Hendry gengst upp í ímynd sinni sem sérvitringur og í viðtalinu við Times líkir hann sér við Jóhönnu af Örk og segir oftar en einu sinni að hann heyri raddir sem stýri fjárfestingum sínum.