Elin Myrmel-Johansen
Elin Myrmel-Johansen
Eftir Guðmund Sverri Þór sverrirth@mbl.is „HJÁ okkur hefur það verið langtímastefnumótun að verða samfélagslega ábyrgt fyrirtæki. Við tókum þessa ákvörðun í upphafi 10.
Eftir Guðmund Sverri Þór

sverrirth@mbl.is

„HJÁ okkur hefur það verið langtímastefnumótun að verða samfélagslega ábyrgt fyrirtæki. Við tókum þessa ákvörðun í upphafi 10. áratugarins þar sem við teljum þetta vera hvata til þess að reka fyrirtækið á arðbærari hátt.“ Þetta segir Elin Myrmel-Johansen, yfirmaður samfélagslegra ábyrgðarmála hjá norska fjármálafyrirtækinu Storebrand. Hún mun á morgun halda erindi á ráðstefnu Útflutningsráðs um samfélagslega ábyrgð fyrirtækja, efni sem mikið hefur verið skoðað og fjallað um á erlendri grundu en lítið hefur verið í umræðunni hér á landi.

Myrmel-Johansen segir það mikilvægt fyrir fyrirtæki að ná forskoti á þessu sviði og ráða við að framleiða vöru og þjónustu á þann hátt sem hafi jákvæð áhrif bæði á rekstur, t.d. í formi aukinna tekna, og á samfélagið. Slíkt hafi keðjuverkandi áhrif, meðal annars á starfsfólk og starfsanda innan fyrirtækisins. „Við höfum orðið vör við að starfsmenn Storebrand eru mjög stoltir af því að starfa hjá fyrirtækinu og er það að stórum hluta vegna samfélagslegrar ábyrgðar fyrirtækisins. Starfsfólkinu finnst þetta mjög mikilvægur hluti starfseminnar og það er mjög áhugasamt og ánægt með að eiga hlut í þessu starfi. Samfélagsleg ábyrgð okkar hefur einnig gert okkur það mun auðveldara að ná til okkar góðu starfsfólki og nýútskrifað ungt fólk er meðal þeirra sem sækja í fyrirtæki með skýra stefnu hvað varðar samfélagslega ábyrgð,“ segir hún og bætir við að stórir viðskiptavinir, á borð við fyrirtæki og stofnanir, leggi sífellt meira upp úr því að eiga í viðskiptum við fyrirtæki sem hefur tekið samfélagslega ábyrgð.

Eykur tryggð

Aðspurð segir hún erfitt að segja nákvæmlega til um hver áhrifin hafa orðið á rekstur Storebrand í krónum og aurum. „Við höfum unnið mikið af greiningum um áhrifin af samfélagslega ábyrgum fjárfestingum. Margir telja aukinn kostnað falinn í samfélagslegri ábyrgð en okkar niðurstaða er sú að það hafi ekki áhrif á kostnaðarhliðina þegar á heildina er litið og þegar litið er til þess að samfélagsleg ábyrgð eykur tryggð viðskiptavina og starfsmanna við fyrirtækið þá er ljóst að hún margborgar sig. Við höfum dæmi um að stórfyrirtæki á borð við Det Norske Veritas hafi beint viðskiptum sínum til okkar vegna stefnu okkar.“

Hvernig skilgreinir þú samfélagslega ábyrgð?

„Samfélagslega ábyrg fyrirtæki eru fyrirtæki sem mæta samfélagslegum þörfum í gegnum kjarnastarfsemi sína. Þá á ég ekki við góðgerðarstarfsemi heldur að sníða afurðir sínar í takt við samfélagslegar þarfir. Það verða að verða einhver varanleg áhrif af því sem fyrirtækið gerir og í raun er öll starfsemin lögð undir. Það er vissulega jákvætt að vinna með góðgerðarstofnunum og ýmsum félagasamtökum en það tengist á engan hátt samfélagslegri ábyrgð sé það það eina sem fyrirtækið gerir,“ segir Myrmel-Johansen.

Volkswagen datt út

Aðspurð hvernig fjárfestingar- og lífeyrisvörslufélag á borð við Storebrand geti fjárfest á samfélagslega ábyrgan hátt segir hún félagið hafa sett sér mjög strangar reglur þar sem kveðið er á um þau skilyrði sem fyrirtæki þurfa að uppfylla áður en hægt er að fjárfesta í þeim.

„Í dag höfum við útilokað 96 af þeim fyrirtækjum sem finna má í heimsvísitölu Morgan Stanley,“ segir hún en segir það þó stefnu fyrirtækisins að gera ekki opinbert hvaða fyrirtækjum það fjárfesti í. Þó geti hún sagt að þýski bílaframleiðandinn Volkswagen hafi á sínum tíma dottið út vegna alvarlegra spillingarmála sem þar komu upp. Þar hafi þó verið tekið til og þar með hafi Storebrand fjárfest í félaginu á ný.

Aðrir þættir sem Storebrand horfir til eru að sögn Myrmel-Johansen mannréttindamál og umhverfismál auk þess sem ekki er fjárfest í tóbaksframleiðendum, framleiðendum jarðsprengna, kjarnorkuvopna og klasasprengna. Þá eru þau 10% fyrirtækja sem verst eru í hááhættuiðnaði ekki til þess hæf að fjárfest sé í þeim.