[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Það er mikið gleðiefni hversu vel Gerður er kynnt og hvað fólk dáist að verkum hennar,“ segir Guðbjörg Kristjánsdóttir listfræðingur en í Gerðarsafni stendur yfir sýning á verkum Gerðar Helgadóttur.
Eftir Kolbrúnu Bergþórsdóttur

kolbrun@24stundir.is

Gerður Helgadóttir hefði orðið áttræð þann 11. apríl næstkomandi. Af því tilefni stendur yfir afmælissýning í Gerðarsafni. Á sýningunni getur að líta fjölbreytt úrval af verkum Gerðar.

Fullkomin verk

„Gerður kom fram sem fullskapaður listamaður árið 1952. Frá þessum tíma eru járnverk hennar, ótrúlega góð verk af svo ungum listamanni að vera. Þessi verk eru tímamótaverk í íslenskri myndlist og Gerður er brautryðjandi í þrívíðri abstraktlist á Íslandi,“ segir Guðbjörg Kristjánsdóttir listfræðingur.

„Við sýnum verk frá öllum tímabilum í ferli Gerðar, sem var stuttur en ákaflega frjór, og þar tekur hvert stílskeiðið við af öðru. Það er sama á hvaða efni hún snertir, hún nær alltaf svo góðu valdi á því. Verkin eru örugg og fullkomin í allri sinni gerð. Þau eru tímalaus.

Á þ essari sýningu höfum við líka lagt áherslu á glerglugga hennar. Hún skapar mikið stórvirki þegar hún gerir gluggana í Skálholtskirkju en h ún varð hlutskörpust í samkeppni sem haldin var um gerð þeirra. Henni var falið að gera ein alla gluggana í kirkjunni. Hún lagði sig ákaflega fram við það verkefni og fann mjög frumlega leið til að yfirfæra form sín úr skúlptúrunum á glergluggana. Hún gerði skýringar við þessi verk sín og ég fór yfir þessar skýringar sem liggja nú frammi í safninu þar sem fólk getur kynnt sér þær.

Líklega hefur enginn annar íslenskur myndlistarmaður unnið jafn mikið að kirkjulist og Gerður Helgadóttir. Þetta kemur æ betur í ljós eftir því sem verk hennar eru skoðuð betur.“

Eins og gamlir vinir

„Það er mikið gleðiefni hversu vel Gerður er kynnt og hvað fólk dáist að verkum hennar,“ segir Guðbjörg. „Á opnunarhelginni hitti ég eldri hjón, sem voru uppáklædd. Þau sögðu: Við komum alltaf þegar verkin hennar Gerðar eru til sýnis, það er svo gaman að sjá þau, alveg eins og að hitta gamla vini.“
Í hnotskurn
Gerður Helgadóttir fæddist árið 1928 og lést árið 1975 úr krabbameini, einungis 47 ára gömul. Í þessum mánuði gefur Gerðarsafn út veglega og ríkulega myndskreytta bók með greinum fjölmargra höfunda um Gerði og list hennar.