* Árshátíð Íshesta var haldin með pomp og prakt á Fjörukránni nú á laugardagskvöld.
* Árshátíð Íshesta var haldin með pomp og prakt á Fjörukránni nú á laugardagskvöld. Fyrirtækið hefur verið í fararbroddi í ferðaþjónustu hér á landi í meira en aldarfjórðung en á síðustu árum hefur það einnig skipað sér fremst í flokk þeirra fyrirtækja sem boða sjálfbæra ferðaþjónustu og sem dæmi má nefna að hrossatað Íshesta er nýtt til að græða upp hraunið fyrir ofan Hafnarfjörð. Á meðal gesta á Fjörukránni var Guðni Ágústsson, formaður Framsóknarflokksins og fyrrverandi landbúnaðarráðherra. Guðni hélt stutta tölu og brást víst ekki bogalistin frekar en fyrri daginn, enda með vinsælli ræðumönnum. Af öðrum nafnkunnum einstaklingum má svo nefna Samúel Örn Erlingsson og Helga Björnsson tónlistar- og athafnamann sem gerði sér lítið fyrir og stýrði gestum í fjöldasöng en eiginkona Helga, Vilborg Halldórsdóttir, er ein leiðsögumanna Íshesta. Þá var nýtt Íshesta-lag frumflutt á árshátíðinni sem Magnús Kjartansson tónlistarmaður og Hafnfirðingur samdi og vel var látið af.