Nú orðið gerir enginn neitt. Menn eru þess í stað að gera hlutina. Þingmenn eru að ræða málin, handknattleiksmenn eru að leika illa, ráðherrann er að blogga alla nóttina.

Nú orðið gerir enginn neitt. Menn eru þess í stað að gera hlutina. Þingmenn eru að ræða málin, handknattleiksmenn eru að leika illa, ráðherrann er að blogga alla nóttina. Það er nánast sama hver opnar munninn eða stingur niður penna, alltaf kemur þetta fáfengilega orðalag. Enginn er óhultur. Ég heyri sjálfan mig tala með sama hætti þó að ég reyni að vanda mig. Auðvitað getur stundum verið skaðlaust að taka svona til orða, sérstaklega ef lýsa á einhverju sem gerist samtímis því sem sagt er frá. Ræðumaðurinn er að stíga í stólinn, dyravörðurinn er að opna dyrnar núna. Í báðum tilvikum væri þó fallegra að segja frá með beinum hætti. Ræðumaðurinn stígur núna í stólinn og dyrvörðurinn opnar nú dyrnar. Ungur læknir sagði sjónvarpsáheyrendum frá því að fólk væri ekki að nota smokkinn, án þess að sýnilegt væri að hann væri að vísa á eitthvert ákveðið fólk á þeirri stundu.

Þorgeir heitinn Kjartansson, vinur minn, sá um skeið um útvarpsþátt þar sem hann fór með glens af ýmsu tagi. Í einum pistli gerði hann grín að þættinum um íslenskt mál sem ungu fólki þótti frámunalega hallærislegur, en menn hlustuðu þó á meðan aðeins var ein útvarpsrás á Íslandi. Einhverju sinni spurði hann útvarpshlustendur hvort þeir hefðu heyrt eitthvert orðatiltæki, sem hann sagði að væri mörgum framandi, einkum „okkur sem komin erum yfir miðjan aldur“. Þetta þótti okkur ákaflega fyndið vinunum, því að svona töluðu bara gamlir menn í útvarpið þegar þeir hneyksluðust á æskunni.

Nú er ég kominn í þessi spor sjálfur. Samt tala ekki bara börn og unglingar með þeim hætti sem ég lýsti hér að framan. Orðalagið hefur síast út í allt þjóðfélagið. Útvarpsmenn, þingmenn, ráðherrar, listamenn, læknar og iðnaðarmenn, ungir og gamlir, lærðir og leikir eru allir að gera, eru að tala, eru að skilja, eru að vinna. Mikið væri gaman ef okkur tækist að tala í gamaldags framsöguhætti. Hverjum fyndist það fallegt eða eftirminnilegt ef heimspekingurinn Descartes hefði sagt: Ég er að hugsa, þess vegna er ég að vera?

Höfundur er framkvæmdastjóri. bj@heimur.is

Leiðrétting 6. apríl - Rangt höfundarnafn

Í grein undir fyrirsögninni Ég er ekki að skilja þetta mistritaðist nafn höfundarins, Benedikts Jóhannessonar framkvæmdastjóra. Beðist er velvirðingar á þessum mistökum.