HLUTHAFAR sem ráða um 14% hlut í sænska hugbúnaðarfyrirtækinu Teligent hafa krafið fyrirtækið og Kaupþing í Svíþjóð, sem ráðgjafa þess, um skaðabætur.

HLUTHAFAR sem ráða um 14% hlut í sænska hugbúnaðarfyrirtækinu Teligent hafa krafið fyrirtækið og Kaupþing í Svíþjóð, sem ráðgjafa þess, um skaðabætur. Eru aðilarnir sakaðir um að hafa fegrað stöðu Teligent í útboðslýsingu sem gefin var út í sambandi við hlutafjárútboð félagsins í september sl. Teligent var þá lent í töluverðum lausafjárvandræðum og réðst í útboðið til þess að bæta lausafjárstöðu sína en í lýsingunni, sem Kaupþing vann, sagði að miðað við þáverandi pantanastöðu og markaðsaðstæður ætti fjármögnunin að duga í tólf mánuði. Á lokafjórðungi síðasta árs skilaði rekstur Teligent hins vegar miklu tapi og þurfti að lengja í lánum.

Hluthafar, undir forystu Kent Olsson, segja Kaupþing hafa villt um fyrir markaðnum en Robert Charpentier, forstjóri Kaupþings í Svíþjóð, vill í samtali við di.se ekkert gefa upp um málið með vísan til bankaleyndar.