Eftir Þórð Snæ Júlíusson thordur@24stundir.

Eftir Þórð Snæ Júlíusson

thordur@24stundir.is

„Við höfum möguleika á að setja upp öryggisvakt um viðkomandi hús á kostnað eiganda þess, beita dagsektum til að knýja á um að eigendurnir lagi húsin, látið gera úrbætur á kostnað eigenda eða hreinlega látið loka húsum,“

segir Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri höfuðborgarsvæðisins, um þau úrræði sem heimilt er að beita til að knýja fram úrbætur á mannvirkjum sem eldhætta getur stafað af. „Dagsektirnar geta verið dálítið þungt úrræði en þær skila miklum árangri. Ef við ætlum að láta gera úrbætur á kostnað eigenda verðum við að gera það með samþykki sveitarstjórnar ef við teljum hættuna ekki vera bráða.“

Útigangsmenn skapa eldhættu

24 stundir sögðu frá því í fyrradag að Jón Viðar hefði látið vinna greinargerð um auðar byggingar í miðborg Reykjavíkur í kjölfar þess að kveikt var í auðu húsi við Hverfisgötu 32 til 34. Samkvæmt greinargerðinni stóðu 57 hús auð að einhverju leyti í miðborginni. Í henni kemur einnig fram að margar þessara bygginga standi opnar öllum þannig að bæði útigangsmenn, fíkniefnaneytendur og aðrir hafi sótt inn í þær. Útigangsmenn hafi gripið til ýmissa ráða til að hita yfigefnu húsin, meðal annars með gasi, og því fylgi mikil eldhætta.

Heimild slökkviliðsstjóra til að beita ofangreindum úrræðum er að finna í lögum um brunavarnir. Þar segir að hámark þeirra dagsekta sem má beita sé hálf milljón króna. Jón Viðar segir þó að aldrei hafi svo háum sektum verið beitt. „Við stillum þeim í hóf. Markmiðið er ekki refsing heldur að þvinga fram úrbætur. Sektirnar eru frá tvö þúsund til 20 þúsund krónur á dag eftir umfangi. Við miðum vanalega við 0,005 prósent af brunabótamati eignarinnar. Sektirnar verða að vera í takt við það sem þarf að laga og upphæð þeirra nægilega raunhæf til að líklegt sé að hún verði innheimt. En þessar kröfur okkar eru mjög vel varðar og þeim þinglýst á eignina. Það er svo hægt að innheimta þær með fjárnámi.“

Í hnotskurn
Í úttekt skipulags- og byggingarráðs á auðum húsum í miðborg Reykjavíkur kemur fram að þau séu alls 37 talsins. Í greinargerð slökkviliðsstjóra eru þau þó talin vera 57, en sá fyrirvari settur að ekki sé um tæmandi lista að ræða.