Víkverji hefur fylgst af miklum áhuga með umræðunni um yfirgefnu húsin í miðbænum enda búsettur í þeim hluta borgarinnar.

Víkverji hefur fylgst af miklum áhuga með umræðunni um yfirgefnu húsin í miðbænum enda búsettur í þeim hluta borgarinnar. Og þar er allt að fara til helvítis – að minnsta kosti ef mark er takandi á þeim vinum og kunningjum Víkverja sem búsettir eru í öðrum bæjarhlutum. „Ósköp eru að sjá miðbæinn.“„En hvað ásýnd Laugarvegarins er hræðileg,“ segja þeir og hrista hausinn eftir að hafa slitið sig frá verslunarmiðstöðvunum einn laugardagseftirmiðdag eða svo til að bregða sér í sérstaka skoðunarferð um miðbæinn.

Jú, Víkverji verður að viðurkenna að Laugavegurinn hefur oft verið hressilegri ásýndar, þó hann sjái samt ekki alveg þá dómsdagsmynd sem blasir við úthverfafélögunum – en það er kannski bara af því að þetta er það útsýni sem hann sér dag hvern.

Hann er engu að síður sammála því að það er löngu orðið tímabært að gerður sé skurkur í málefnum miðbæjarins. Slík umræða var raunar þegar hafin á síðustu öld og minnist Víkverji þess vel að á þeim tíma fengu borgaryfirvöld breska arkitektaskrifstofu til að vinna tillögu að lífvænlegri skiptingu íbúabyggðar, verslana og veitingahúsa á svæðinu til að forða yfirvofandi andláti miðbæjarins. Sú vinna skilaði af sér breytingartillögu á skilgreiningu miðborgarsvæðisins samkvæmt þáverandi aðalskipulagi, sem samþykkt var í borgaráði. En henni var ætlað að skipta miðborginni niður í landnotkunarflokka svo betri stjórn mætti hafa á þróun svæðisins.

Á þeim níu árum sem liðin eru frá því að tillagan var samþykkt hefur Víkverji oft velt því fyrir sér hverju hún hafi skilað. Honum virðist árangurinn ekki sérlega sýnilegur, en hvað veit Víkverji svo sem? Kannski væri lágreisti miðbærinn sem honum þykir svo vænt um nú þegar horfinn undir græna torfu – eða öllu heldur steinsteypta háhýsabyggð – hefði breytingartillagan ekki verið samþykkt.