Ólafur Brynjólfsson
Ólafur Brynjólfsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
UMHVERFISSTEFNA Árvakurs fær sérstaka umfjöllun í Focus , sérriti um umhverfismál sem fylgir aprílhefti tímarits IFRA, alþjóðasamtaka dagblaðaútgefenda og dagblaðaprentiðnaðarins. Samtökin standa m.a.

UMHVERFISSTEFNA Árvakurs fær sérstaka umfjöllun í Focus , sérriti um umhverfismál sem fylgir aprílhefti tímarits IFRA, alþjóðasamtaka dagblaðaútgefenda og dagblaðaprentiðnaðarins. Samtökin standa m.a. fyrir viðamiklum fagsýningum, rannsóknum og veita iðnaðinum ýmsa faglega þjónustu. Hægt er að lesa tímaritið á vefslóðinni www.iframagazine.com/green.

Ólafur Brynjólfsson, umhverfis- og gæðastjóri Árvakurs, prýðir forsíðu Focus en aðalgrein blaðsins fjallar um hvernig sætta má rekstrarleg sjónarmið og umhverfissjónarmið. Þar er bent á að í fréttum sé mikið fjallað um loftslagsbreytingar og hvernig sé hægt að sporna við þeim. Spurt er hvað dagblöðin sjálf geri í þeim efnum. Útgefendur dagblaða hvarvetna í heiminum megi eiga von á strangari löggjöf um umhverfismál og dagblöðin finni sig knúin til að draga úr umhverfisáhrifum sem fylgi útgáfunni.

Í greininni kemur fram að umhverfisstefna sé oft nátengd gæðastjórnun og heilsufarsstefnu fyrirtækja. Því sé umhverfisstefna oft hluti samþættrar stjórnunarstefnu. Morgunblaðið er nefnt sem dæmi um fyrirtæki sem hafi slíka stefnu og fylgir sérstakt rammaviðtal við Ólaf Brynjólfsson um umhverfisstefnu Morgunblaðsins.

Þar kemur m.a. fram að árið 2002 hafi Morgunblaðið fengið ISO 14001-vottun sem varðar strangar kröfur um umhverfismál. Ólafur kveðst telja að ISO 14001 sé ekki síður gæðastaðall en umhverfisstaðall. Hann segir að Morgunblaðið hafi fylgt þessum áfanga eftir með því að setja sér ný markmið í umhverfismálum á hverju ári síðan. M.a. að draga úr magni úrgangs, hætta notkun skaðlegra efna við framleiðslu og vinna að því að fá vottun norræna Svansins og að geta skartað Svansmerkinu á framleiðsluvörum fyrirtækisins.

Bygging nýrrar prentsmiðju og kaup á nýrri prentvél fyrir fjórum árum auðvelduðu Morgunblaðinu að laga sig að hertum umhverfiskröfum. Nýja prentsmiðjan er mun fullkomnari og umhverfisvænni en sú fyrri. Prentvél prentsmiðjunnar, sem nú er rekin undir merki Landsprents ehf., hefur sjálfvirkan þvottabúnað sem dregur mikið úr notkun hreinsiefna og bætir mjög starfsaðstöðu prentaranna. Andrúmsloftið í prentsmiðjunni er betra en var í gömlu prentsmiðjunni og líkamlegt vinnuálag minna, að sögn Ólafs. Hann segir einnig að ISO 14001-vottunin sé góður grunnur að frekari sókn í umhverfis- og gæðamálum. Þannig hafi Morgunblaðið átt gott samstarf við umhverfisráðuneytið og umhverfissvið Reykjavíkurborgar hvað varðar umhverfis- og öryggismál og að hafa til reiðu rétta verkferla og verkfæri ef óhöpp kynnu að verða.

Ólafur segir einnig að aðrir prentsmiðjueigendur og útgefendur hér á landi, sem hafa áhuga á að byrja með umhverfisstjórnunarkerfi, hafi haft samband við sig. Þeir spyrji allir sömu spurninga: Hvað þetta kosti mikið, hve langan tíma það taki og hver ávinningurinn sé. Ólafur segir að í stuttu máli megi segja að þessar aðgerðir skili sér í lækkun kostnaðar, meiri gæðum og betri vinnuaðstöðu. Hann segir að undirbúningur vottunar Morgunblaðsins hafi tekið rúmlega tvö ár sem hafi verið of langur tími að hans mati.

Ólafur var beðinn um ráð til þeirra sem ætla að fara út í slíkt umhverfisverkefni hjá sér. Hann hvetur menn til að fara yfir efnisnotkun og losa sig við það sem er óþarft. Þá er mikilvægt að skrá alla ferla. Skoða þurfi meðferð prentpappírs, farfa og prentplatna. Í leiðinni eigi að afla sér öryggisleiðbeininga og útbúa öryggisgátlista. Síðan þurfi menn að setja sér markmið. Hann segir að gott sé að hafa ráðgjafa sérhæfða í innleiðingu ISO 9001-vottunar með í ráðum við þessa vinnu.

Í hnotskurn
» Morgunblaðið fékk ISO 14001-umhverfisvottun árið 2002. Fyrirtækið hefur síðan byggt á þeim grunni við frekari þróun umhverfisstefnu fyrirtækisins.
» Umhverfis- og gæðastjóri Árvakurs, Ólafur Brynjólfsson, segir að fyrirtækið keppi nú að því að fá norræna umhverfisvottun Svans-merkisins og að því að geta sett það á allar framleiðsluvörur fyrirtækisins.
» Umhverfisstefna Árvakurs hefur leitt til sparnaðar á ýmsum sviðum, minni sóunar og minni losunar hættulegra efna. Þá hafa breytingarnar sem fylgdu orðið til þess að bæta vinnuaðstöðu starfsmanna til mikilla muna.