Frelsi Þórlindur Kjartansson, formaður SUS, Erlendur Hjaltason, formaður viðskiptaráðs, Margrét Pála Ólafsdóttir, stofnandi Hjallastefnunnar, og Kjartan Gunnarsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins.
Frelsi Þórlindur Kjartansson, formaður SUS, Erlendur Hjaltason, formaður viðskiptaráðs, Margrét Pála Ólafsdóttir, stofnandi Hjallastefnunnar, og Kjartan Gunnarsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins.
SAMBAND ungra sjálfstæðismanna afhenti á fimmtudag Frelsisverðlaun SUS sem gefin eru til heiðurs Kjartani Gunnarssyni, fyrrum framkvæmdastjóra Sjálfstæðisflokksins.

SAMBAND ungra sjálfstæðismanna afhenti á fimmtudag Frelsisverðlaun SUS sem gefin eru til heiðurs Kjartani Gunnarssyni, fyrrum framkvæmdastjóra Sjálfstæðisflokksins. Að þessu sinni hlutu verðlaunin þau Margrét Pála Ólafsdóttir, stofnandi og framkvæmdastjóri Hjallastefnunnar, og viðskiptaráð Íslands.

Að mati SUS hefur Margrét Pála með störfum sínum verið framúrskarandi fyrirmynd öllum þeim sem í krafti eigin hugmyndaauðgi og dugnaðar skapa nýja valmöguleika fyrir meðborgara sína og stuðla þannig að bættu samfélagi. Það er afrek Margrétar Pálu að bjóða upp á raunverulegan valkost í menntakerfinu, segir meðal annars í umsögn SUS.

Viðskiptaráð Íslands fagnaði á síðasta ári því að 90 ár eru liðin frá stofnun samtakanna. „Samtökin hafa frá stofnun verið vettvangur þar sem ríkt hefur trú á markaðsbúskap og athafnafrelsi. Á síðustu árum hefur viðskiptaráð verið mikill aflvaki nýrra hugmynda um hvernig unnt sé að auka hag íslensku þjóðarinnar. Metnaðarfullar tillögur ráðsins hafa vakið verðskuldaða athygli og verið kveikja málefnalegrar umræðu um nýjar og frumlegar hugmyndir,“ segir m.a. í umsögn.

Frelsisverðlaun SUS voru afhent í fyrsta skipti árið 2007. Stjórn SUS ákvað þá að nefna þau eftir Kjartani Gunnarssyni, fyrrum framkvæmdastjóra Sjálfstæðisflokksins, til að heiðra það mikla starf sem hann hefur skilað til þess að auka frelsi og bera út hugmyndir frjálshyggjunnar.