Pólsk dagskrá Hrönn Þráinsdóttir píanóleikari og Margrét Hrafnsdóttir sópransöngkona hafa áður flutt lög Szymanovskys í Stuttgart.
Pólsk dagskrá Hrönn Þráinsdóttir píanóleikari og Margrét Hrafnsdóttir sópransöngkona hafa áður flutt lög Szymanovskys í Stuttgart. — Morgunblaðið/Jón Svavarsson
Eftir Bergþóru Jónsdóttur begga@mbl.is „ÞAÐ er gaman að koma heim með svona gullkorn í pokanum,“ segir Margrét Hrafnsdóttir sópransöngkona, en hún syngur á tónleikum í Salnum annað kvöld kl. 20 með Hrönn Þráinsdóttur píanóleikarara.

Eftir Bergþóru Jónsdóttur

begga@mbl.is

„ÞAÐ er gaman að koma heim með svona gullkorn í pokanum,“ segir Margrét Hrafnsdóttir sópransöngkona, en hún syngur á tónleikum í Salnum annað kvöld kl. 20 með Hrönn Þráinsdóttur píanóleikarara. Gullkornin eru sönglög sem við báðar efumst um að nokkurn tíma hafi verið flutt á Íslandi, eftir pólska tónskáldið Karol Szymanovsky. En hver er Margrét og hvaðan kemur hún inn á íslenskt söngsvið með tónleika sem hún segir sína fyrstu „virkilega opinberu“ tónleika hér heima?

„Ég er búin að vera í Stuttgart í 10 ár. Ég fór þangað í söngnám og lauk þremur prófum: söngkennaraprófi, einsöngvaraprófi og ljóðadeildarprófi. Ég starfa nú við söng og söngkennslu. Það gengur yfirleitt vel, en er stundum streð.“

Margrét segir það rétt að kreppa hafi þjakað þýsk óperuhús undanfarið og oft sé illa farið með unga óreynda söngvara. „Fólk er heppið ef það kemst á eins ár samninga og þeir eru endurnýjaðir á hverju ári. Það er ekki lengur neitt öryggi í þessu,“ segir Margrét. Hún segir það að starfa úti fyrst og fremst betra fyrir það hvað markaðurinn sé miklu stærri. „Söngvarar hér heima eru ótrúlega duglegir, þeir þurfa að vera allt í öllu og syngja hvað sem er, en það er orðið þannig úti líka.“

En hvað um gullmolann?

„Við sóttum um að syngja í Tíbrárröðinni af þeirri ástæðu að við vorum með lögin eftir Szymanovsky. Við vorum saman í ljóðadeildinni í Stuttgart og vorum þar hjá sérvitrum prófessor sem lét okkur aldrei syngja neitt þekkt. Enginn Schubert þar, nema óþekktur Schubert. Við kynntumst þessum ljóðum hjá honum og fluttum á pólskum tónleikum sem voru haldnir í samvinnu við pólskan tónlistarháskóla í Varsjá. Ég er svo heppin að Szymanovsky samdi þetta við þýskan ljóðaflokk við ljóð eftir eftir Dehmel og fleiri. Szymanovsky var hrifinn af þýskum ljóðskáldum en Dehmel var samtímamaður hans. Strauss samdi líka við ljóð eftir hann.“

Ljóðaflokurinn heitir Aufblick, og Margrét segir ljóðin mjög ólík, þótt tónskáldið noti svipaða hljóma aftur og aftur. „Það var sagt um Szymanovsky að hann væri pólskur impressjónisti. þetta eru þykkir og stórir hljómar, púra síðrómantík. En hann var líka fyrir einfaldleikann. Stundum tekur hann eitt orð úr ljóðinu og litar allt lagið með, annaðhvort lýsingarorð eða tilfinningu. Þetta er ótrúlega flott.“

Grieg, Schumann og Strauss eiga líka sína fulltrúa á tónleikunum.