„Sveppurinn er ekki hættulegur í því magni sem hann er þarna,“ segir Runólfur Ágústsson, framkvæmdastjóri Keilis, um myglusvepp í íbúðum Keilis í Reykjanesbæ.

„Sveppurinn er ekki hættulegur í því magni sem hann er þarna,“ segir Runólfur Ágústsson, framkvæmdastjóri Keilis, um myglusvepp í íbúðum Keilis í Reykjanesbæ. Segir hann skemmdir vegna raka og myglu hafa komið upp í 30 íbúðum af þeim 500 sem Keilir hefur til útleigu á svæðinu svo um er að ræða „lítið hlutfall“ nemendaíbúðanna.

Börnin ekki óeðlilega oft veik

Í frétt í 24 stundum í gær er haft eftir íbúa á svæðinu að börn sem búsett séu þar séu „öll meira og minna veik“. Runólfur vísar þessu á bug og hefur það m.a. frá leikskólastjóra svæðisins að engin merki séu um að veikindi séu óeðlilega tíð hjá börnunum.

„Sveppurinn er heilbrigðum börnum ekki hættulegur en hann getur aukið astmaeinkenni hjá astmaveikum börnum,“ segir hann.

Galli í einangrun

Greinst hafa tvær tegundir af myglusveppi í húsnæði Keilis, að sögn Runólfs. Segir hann mygluna stafa af skorti á einangrun á ákveðnum blettum í íbúðunum.

„Þegar kvörtun kemur fram er íbúðin skoðuð og síðan gert við skemmdina í samráði við íbúa,“ segir Runólfur. Sé myglusveppur til staðar eru líka öll húsgögn tekin út og íbúðin sótthreinsuð. Þá hafa allir, sem þess hafa óskað fengið að skipta um íbúð að sögn Runólfs.

thorakristin@24stundir.is