Eftirsóknarvert? Hrukkubaninn bótox nær til heilans í gegnum taugakerfið.
Eftirsóknarvert? Hrukkubaninn bótox nær til heilans í gegnum taugakerfið. — Morgunblaðið/Golli
BÓTOX-MEÐFERÐ hefur notið vinsælda hjá þeim sem telja sig þurfa að losna við hrukkur en nýleg rannsókn sýnir fram á að taugaeitrið í efninu getur borist til heilans. Vefmiðillinn forskning.

BÓTOX-MEÐFERÐ hefur notið vinsælda hjá þeim sem telja sig þurfa að losna við hrukkur en nýleg rannsókn sýnir fram á að taugaeitrið í efninu getur borist til heilans. Vefmiðillinn forskning.no sagði frá þessum uppgötvunum í gær og hefur þær eftir tímaritinu Nature .

Bótox inniheldur hið kröftuga taugaeitur botulinum en eiturefnið getur lamað vöðva á 4-6 mánuðum. Með því að sprauta efninu á hrukkusvæði sléttist úr hrukkunum því vöðvarnir geta ekki lengur dregist saman.

Mönnum var þegar kunnugt um að botulinum getur breiðst út frá svæðinu þar sem sprautað er en ekki að það gæti fundið sér leið til heilans. Hins vegar vöruðu heilbrigðisyfirvöld í Bandaríkjunum við því í febrúar sl. að taugaeitur gæti dreifst út frá sprautusvæðinu.

Breytti ekki hegðun

Rannsóknin var gerð á rottum á vegum taugasérfræðinga í Písa á Ítalíu. Taugaeitri A, botulinum, var sprautað í kinn en eiturefnið er það sama og notað er í bótoxi. Vísindamennirnir undirstrika að rotturnar sýndu ekki breytta hegðun í kjölfar sprautunnar og þeir telja að lítill skammtur af bótoxi í mönnum auki ekki hættuna á að skaða heila að neinu marki.

Botulinum brýtur niður próteinið SNAP-25 en þremur dögum eftir að rotturnar höfðu fengið efnið í sig sáust einmitt merki þess í heilastofni þeirra sem benti til að hluti taugaeitursins hefði breiðst út.

Botulinum hefur áhrif á taugakerfið og það útskýrir m.a. hvernig það nær til heilans en rannsakendur telja að örlítill hluti eiturefnisins komist til heilans í gegnum taugakerfið. Menn álíta á hinn bóginn að sú vitneskja geti einnig reynst gagnleg. Efnið er notað við meðhöndlun spastískra hreyfinga og eru leiddar að því líkur að það geti nýst flogaveikum því með þessu móti sé hægt að ná til heilans og draga þannig úr þeirri auknu virkni einstakra hluta heilans sem verður við flogaveiki.