UM ÞESSI mánaðamót var innsiglaður fullnaðarsigur öryrkja í mikilsverðu mannréttindamáli. Nú er hætt að skerða bætur til öryrkja ef maki hans hefur tekjur umfram lágmarks framfærslukostnað.

UM ÞESSI mánaðamót var innsiglaður fullnaðarsigur öryrkja í mikilsverðu mannréttindamáli. Nú er hætt að skerða bætur til öryrkja ef maki hans hefur tekjur umfram lágmarks framfærslukostnað. Loksins lítur samfélagið svo á að öryrkjar séu eins og annað fólk, sjálfstæðir einstaklingar sem þurfi að geta framfleytt sér.

Þegar Öryrkjabandalagið hóf baráttu fyrir afnámi tenginga við tekjur maka fyrir rúmum áratug síðan fengu fjölmargir innan við 20 þúsund krónur á mánuði af því að makar þeirra höfðu tekjur. Hlutskipti þeirra var að leita til maka síns um framfærslu alla ævi eða komast undan óréttlætinu með því að staðfesta aldrei formlega sambúð sína, skilja á pappírunum eða jafnvel slíta sambúð. Í stað þess að afnema þetta augljósa óréttlæti börðust stjórnvöld fyrir viðhaldi þess, en voru lögð að velli í sögufrægum dómi Hæstaréttar. Við það var dregið úr óréttlætinu, en loks nú er það afnumið að fullu og öllu. Afnámið er um leið áfangi í baráttu gegn launamisrétti kynja því auðvitað voru það að meirihluta fátækar konur sem voru hýrudregnar með þessum fornaldarviðhorfum.

Breytingin bætir umtalsvert kjör margra sem munar um það. Sá stóri hópur sem lagði öryrkjum lið í þessari baráttu á þakkir skildar. Má þar nefna lögfræðing bandalagsins, Ragnar Aðalsteinsson, siðferðilegan stuðning Þjóðkirkjunnar við hjónaband öryrkja og þann skilning sem kjör öryrkja hafa jafnan notið á ritstjórn Morgunblaðsins. Við í ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks getum verið stolt af þessum stóra áfanga um leið og ljóst er að á næstu mánuðum þurfum við að tryggja öryrkjum almennt þær kjarabætur sem þeir lægst launuðu fengu í kjarasamningunum.

Höfundur er alþingismaður Samfylkingar í Reykjavík og öryrki.