Þessi fyrirsögn hefði vel getað birst í erlendum fjölmiðlum eins og til dæmis Financial Times eða Wall Street Journal. Þetta er tilvitnun í varaformann Samfylkingarinnar, Ágúst Ólaf Ágústsson. Þetta sagði hann í þættinum Vikulokin 29. mars síðastliðin.

Þessi fyrirsögn hefði vel getað birst í erlendum fjölmiðlum eins og til dæmis Financial Times eða Wall Street Journal. Þetta er tilvitnun í varaformann Samfylkingarinnar, Ágúst Ólaf Ágústsson. Þetta sagði hann í þættinum Vikulokin 29. mars síðastliðin. Miðað við ummæli annarra stjórnmálamanna, sem hafa talað um ónýta krónu og þaðan af verra, voru þetta hófsamleg ummæli, svo ekki sé minnst á ummæli trúboðanna, sem telja að boðskapurinn um ónýta krónu flýti fyrir aðild okkar að Evrópusambandinu.

„Hún er ekki trúverðugur gjaldmiðill,“ sagði varaformaður ríkisstjórnarflokks um gjaldmiðilinn. Er einhver furða þó að Moody's, Fitch, danskir blaðamenn og bankamenn láti sér detta í hug að eitthvað alvarlegt sé að.

Ekki sannfærðir

Stutt er um liðið síðan ákveðið var að telja dönskum blaðamönnum hughvarf, en þeir hafa ekki, frekar en aðrir, verið sannfærðir um að allt sé eins og best verður á kosið í íslenskum fjármálum. Utanríkisráðherra var fenginn til að halda fund með dönskum fjölmiðlum. Með henni fór Sigurður Einarsson, bankastjóri Kaupþings. Hann hefur nýlega haft þau ummæli um danskan bankamann að hann sé annað hvort heimskur eða illa að sér.

Bankastjórinn er líka nýlega búinn að sigra í málaferlum við danska blaðið Extrabladet. Þó að flestir danskir blaðamenn líti niður á Extrabladet, standa þeir með starfsbræðrum sínum gegn útlendingum.

Sveitamennska

Það er betra að skilja sitt umhverfi. Í fyrsta lagi hoppa Danir ekki hátt þó að íslenskur ráðherra vilji ávarpa þá. Í öðru lagi eru danskir blaðamenn ekki sérlega upprifnir yfir mönnum, sem gera lítið úr þeim, hvort sem er í máli eða málaferlum. Í þriðja lagi býður það dönskum blaðamönnum ekki neina frétt þó að Ingibjörg Sólrún og Sigurður Einarsson vilji rétta hlut íslenskra banka. Árangurinn varð sá að danskir fjölmiðlar höfðu fundinn nánast að engu, nema einn sem gerði grín að tiltækinu.

Lausmælgi Íslendinga og blaður heima fyrir er ekkert nýtt. Ráðherrar, þingmenn og kaupsýslumenn hafa þráfaldlega farið niðrandi orðum um einstaklinga, fyrirtæki og stofnanir í útlöndum, greinilega í þeirri trú að þetta muni ekki fréttast. Þetta er ótrúleg sveitamennska. Þessir menn virðast ekki vita að hér á landi eru sendiráð og konsúlöt, sem beinlínis réttlæta tilveru sína með því að safna slíkum upplýsingum. Hér starfa úrklippuþjónustur, sem safna viðeigandi ummælum úr fjölmiðlum. Flestir sem hagsmuna eiga að gæta hafa hér einhverskonar umboðsmenn, sem upplýsa þá um allt, sem um þá er sagt. Þessir umboðsmenn eru fleiri en menn halda. Þegar Ingibjörg Sólrún hittir næst erlendan seðlabankastjóra, er öruggt að hann hefur í höndunum ummæli varaformanns hennar um gjaldmiðilinn.

Orðstír heillar þjóðar

Jón Hákon Magnússon hefur bent á það í greinum að undanförnu að við Íslendingar þurfum sérfræðinga í hverju landi til að veita okkur tilsögn. Þeir hefðu getað sagt það strax að fundurinn í Kaupmannahöfn myndi mistakast. Af hógværð sinni nefndi Jón Hákon ekki að það þyrfti vitiborna íslenska ráðgjafa til að vinna með þeim útlendingum. Því miður er það þannig að ef menn leita ekki ráða fá þeir ekki ráð.

Að eignast traust og virðingu verður ekki aðeins gert með því að haga sér þannig að maður sé orð-

stírsins verður. Það er ekki fyrr en einhver veit um verðleika viðkomandi, sem þeir verða að orðstír. Þegar um er að ræða orðstír heillar þjóðar og fjármálakerfis hennar, vinnst ekki orðstír með því að senda ráðherra og bankastjóra til að halda fundi, sem menn reyndust ekki nenna að sinna. Það gerist með þrotlausri vinnu ærlegra kunnáttumanna, sem vita að maður kaupir ekki orðstír og eignast hann aldrei í skyndingu. Orðstír er ekki „viðskiptavild“ og ekki hægt að bókfæra sem eign, vegna þess að menn verða að vinna fyrir honum dag frá degi um allan aldur.

Höfundur er

fyrrverandi sjónvarpsfréttamaður