Eitt framboð - enginn veikur hlekkur Árna Þór Sigurðsson "Eindrægni og samheldni frambjóðendahópsins skiptir einnig sköpum og það er mikið í húfi fyrir borgarbúa." Sameiginlegt framboð félagshyggjuflokkanna í Reykjavík við borgarstjórnarkosningar í vor er...

Eitt framboð - enginn veikur hlekkur Árna Þór Sigurðsson "Eindrægni og samheldni frambjóðendahópsins skiptir einnig sköpum og það er mikið í húfi fyrir borgarbúa." Sameiginlegt framboð félagshyggjuflokkanna í Reykjavík við borgarstjórnarkosningar í vor er nú að verða að veruleika. Í rúman mánuð hefur verið unnið sleitulaust að því að ná samkomulagi milli Alþýðubandalags, Alþýðuflokks, Framsóknarflokks og Kvennalista um sameiginlegt framboð með það að markmiði að fella meirihluta Sjálfstæðisflokksins í borginni. Nú sér fyrir endann á undirbúningsvinnunni og búast má við málefnasamningur flokkanna verði kynntur í þessum mánuði. Hið sameiginlega framboð hefur þegar fengið góðan byr í seglin og greinilegt er að mikill áhugi er á því að breyta um stjórn og starfshætti í Reykjavík. Það tekst hins vegar ekki nema með öflugum framboðslista og samhentum hópi frambjóðenda sem vinna saman og mynda trúverðuga heild.

Við sem unnið höfum að sameiginlega framboðinu á undanförnum vikum, vitum manna best að slíkar viðræður standa og falla með því að trúnaður skapist milli manna. Árangurinn í viðræðunum um eitt framboð þessara fjögurra flokka má ekki síst þakka góðri samstöðu og gagnkvæmu trausti sem tekist hefur með fulltrúum flokkanna í fjögurra manna samninganefndinni. Þessum árangri er brýnt að fylgja eftir og vænleg leið til þess að það takist er væntanlega að fela þeim sem unnið hafa verkið hingað til að halda því áfram. Ekki síst þess vegna ákvað ég, sem hef verið fulltrúi Alþýðubandalagsins í fjögurra manna viðræðunefnd flokkanna, að gefa kost á mér í forvali Alþýðubandalagsins sem fram fer næstkomandi laugardag og sækjast eftir öðru sæti Alþýðubandalagsins, sem er 5. sætið á listanum.

Nú þegar eitt framboð er í sjónmáli er mikilvægt að þar verði enginn veikur hlekkur. Alþýðubandalagið verður að leggja sitt lóð á vogarskálina til að vel takist um stjórn borgarinnar með því að tefla fram öflugri og samhentri sveit. Guðrún Ágústsdóttir gefur kost á sér til að skipa fyrsta sæti Alþýðubandalagsins á sameiginlega listanum. Ég hvet menn eindregið til að stuðla að góðri kosningu hennar.

Lykillinn að velgengni R-listans er ekki bara kominn undir ágæti þeirra einstaklinga sem veljast á listann. Eindrægni og samheldni frambjóðendahópsins skiptir einnig sköpum og það er mikið í húfi fyrir borgarbúa. Gegnum kynni mín af forystufólki samstarfsflokka okkar og árangursríkt samstarf að undirbúningi hins sameiginlega framboðs hef ég ástæðu til að ætla að ég geti lagt mitt af mörkum í þágu góðrar samvinnu þessara aðila. Þess vegna sækist ég eftir því að skipa annað sæti Alþýðubandalagsins á R-listanum.

Höfundur er formaður Kjördæmisráðs Alþýðubandalagsfélaganna í Reykjavík og tekur þátt í forvali Alþýðubandalagsins 12. febrúar.

Árni Þór Sigurðsson