Samningur um sundrun Þóri Kjartansson "Málefni og hugsjónir hafa allir vinstri flokkarnir tekið sameiginlega ákvörðun um að leggja til hliðar enda kannski ekki skrýtið þar sem það myndi hvort sem er ekki verða trúverðugt að þessi samsuða vinstri flokkanna...

Samningur um sundrun Þóri Kjartansson "Málefni og hugsjónir hafa allir vinstri flokkarnir tekið sameiginlega ákvörðun um að leggja til hliðar enda kannski ekki skrýtið þar sem það myndi hvort sem er ekki verða trúverðugt að þessi samsuða vinstri flokkanna gæti nokkurn tímann orðið sammála um málefni, hugsjónir eða framkvæmdir."

Á nýju ári - ári fjölskyldunnar - ári sem engum datt í hug að íbúar höfuðborgar lýðveldisins Íslands þyrftu að kvíða ári sem að öllu jöfnu hefði átt að bera með sér í brjósti sér góða tíma þrátt fyrir erfiðan róður þjóðarinnar í landsmálum, þá virðist nú framtíðin bera boð um óvissu og óstöðugleika. Þetta gerist einmitt á þeim tímum þegar mest ríður á að þjóðin standi saman. Þrátt fyrir það hvað nútíminn lofar góðu virðist nú ógnargríma stjórnleysis, glundroða og þokukennds málflutnings vinstri flokkana vera að leggjast yfir borgarbúa á þann hátt að ekki er hægt að komast hjá því að hugsa stutta stund aftur til tímabilsins 1978­1982 þegar vinstri flokkarnir stjórnuðu borginni. Á þessum tíma ríkti alger glundroði í fjármálum og stjórnun borgarinnar og óánægja borgarbúa var alger og augljós á þeim tíma því í kjölfar þessa stjórnleysis veittu kjósendur Sjálfstæðisflokknum óumdeilt vald til að stjórna borginni og hafa gert það tvisvar síðan með sífellt skýrari skilaboðum um styrka stjórn sjálfstæðismanna.

Sameiginlegt framboð vinstri flokkanna

Sameiginlegur listi vinstri flokkanna sem nú hefur verið kynntur sem hugsanlegt framboð í næstu borgarstjórnarkosningum hefur komið skemmtilega á óvart þrátt fyrir að uppi hafi verið umræður í nokkurn tíma um að sameiginlegur listi væri hugsanlegur frá vinstri flokkunum. Veiku hliðarnar á sameiginlegu framboði vinstri flokkanna eru hins vegar þrjár að mínu mati. Skoðanaárekstrar, málefnafátækt og skortur á frambærilegum frambjóðendum með reynslu í borgarmálum. Málefni og hugsjónir hafa allir vinstri flokkarnir tekið sameiginlega ákvörðun um að leggja til hliðar enda kannski ekki skrýtið þar sem það myndi hvort sem er ekki verða trúverðugt að þessi samsuða vinstri flokkanna gæti nokkurn tímann orðið sammála um málefni, hugsjónir eða framkvæmdir. Flokkunum hefur þó að einhverju marki tekist að komast að samkomulagi um eitt markmið og það er að koma Sjálfstæðisflokknum frá völdum í borgarstjórn. Þrátt fyrir það að flokkarnir virðast vera orðnir sammála um þetta markmið er langt frá því að þeir séu sammála um það hvers vegna það sé heppilegt fyrir borgina að Sjálfstæðisflokkurinn víki. Það er dálítið einkennilegt að hópur fólks sem kemur úr mörgum vinstri flokkum skuli vera jafn ákveðinn í því að koma Sjálfstæðisflokknum frá völdum í borgarstjórn án þess að hafa sett fram neinar skýrar línur um það hvað skal koma í staðinn. Það væri fróðlegt að fá skýringar á því hverju vinstri flokkarnir ætli að breyta í borginni og þá í kjölfar þess að fá upplýsingar um það hvað frambjóðendur vinstri listans hafi til að bera eigi borgarbúar að geta treyst þeim fyrir hagsmunum sínum. Sjálfstæðismenn hefðu áreiðanlega mikinn áhuga á því að skoða slíkan lista því af þeim frambjóðendum sem nú er líklegt að skipi framboðslista vinstri flokkanna þá er erfitt að finna einstaklinga sem hafa einhverja haldbæra reynslu af ákvarðanatöku og ábyrgð í borgarmálum.

Styrk stjórn Sjálfstæðisflokksins

Sjálfstæðisflokkurinn hefur á undanförnum árum stórbætt allt ytra umhverfi borgarinnar með öflugu átaki í umhverfismálum. Þar má nefna stórfelldar aðgerðir í endurgerð skolpræsakerfis borgarinnar og uppbyggingu dælustöðva sem hefur orðið til þess að strendur borgarinnar eru orðnar margfalt hreinni en fyrir nokkrum árum. Einnig hefur verið varið miklum fjármunum til svokallaðra grænna svæða en markmiðið með því átaki hefur alltaf verið að gera borgina hreinni og fallegri. Í þessu sambandi má nefna Laugardalinn, þar sem risið hafa skemmtigarður og húsdýragarður, hafnarsvæðið við miðbæinn, endurnýjun torgsins fyrir framan gamla Morgunblaðshúsið, uppbyggingu nýrra hverfa og margt fleira.

Menntamál hafa einnig verið ofarlega á baugi hjá Sjálfstæðisflokknum og auk þess var komið fyrir heilsdagsþjónustu í flestum grunnskólum borgarinnar. Margir nýir skólar hafa verið reistir og aðstaða almennt mikið bætt. Jafnframt þessu hefur borgin unnið ötullega að uppbyggingu nýrra hverfa og reynt hefur verið að veita alla almenna þjónustu sem er á höndum borgarinnar sem fyrst í þessum nýju hverfum. Dagvistarplássum hefur fjölgað um 1.250 og stefnt er að því að öll börn yfir tveggja ára aldri hafi dagvistarpláss óháð hjúskaparstöðu foreldra í framtíðinni. Sjálfstæðisflokkurinn hefur einnig lagt ríka áherslu á að byggja upp íþróttaaðstöðuna í borginni og hefur borgin aðstoðað íþróttafélögin eftir fremsta megni í þeim efnum.

Enn er mörgu ólokið, en til þess að hægt sé að ljúka verkinu og styrkja stöðu borgarinnar þarf Sjálfstæðisflokkurinn áframhaldandi umboð borgarbúa í borgarstjórnarkosningunum í maí 1994.

Aðfarir að góðum verkum

Á sama tíma og þessi öfluga uppbygging borgarinnar heldur áfram eru vinstri flokkarnir að reyna að sjóða saman sameiginlegan lista til að bjóða fram í næstu borgarstjórnarkosningum. Fyrir mörgum virðist í fyrstu sem þessir "fersku" vindar séu spennandi kostur fyrir næstu kosningar. En ljóminn hverfur fljótt af þessu nýja sameiginlega framboði þegar menn fara að velta málunum betur fyrir sér. Upp koma spurningar eins og: Hver á að vera borgarstjóri? Hver á að vera forseti borgarstjórnar? Hver á að vera formaður borgarráðs? Hvaða málefnastefnu á að fylgja? o.fl. o.fl. Svörin við þessum spurningum eru ekki einföld og alls ekki á hvers manns vörum. Hvers vegna ættu vinstri flokkarnir allt í einu að verða sammála um það sem gera þarf í borgarmálum þegar þeir hafa í mörg ár rifist eins og hundur og köttur og átt í erfiðleikum með að koma sér saman um flest annað en að vera í fýlu út í Sjálfstæðisflokkinn fyrir að vera í meirihluta? Enn þá furðulegra er að skoða þá einstaklinga sem sitja væntanlegan sameiginlegan lista vinstri flokkanna. Ekki virðist frambjóðendahópur vinstri flokkanna vera sannfærandi og nægjanlega traustverðugur til að borgarbúar geti átt von á góðu ef þessi sameiginlegi listi nær meirihluta. Sem borgarstjóraefni bera vinstri flokkarnir á borð fyrir borgarbúa Ingibjörgu Sólrúnu alþingismann fyrir Kvennalistann. Borgarbúar hafa misjafnar skoðanir á Ingibjörgu Sólrúnu og hennar "afrekum". Það er þó hætt við því að þeir sem eru ánægðir með störf hennar skipti um skoðun ef vinstri flokkarnir fá tækifæri til að stjórna borginni. Vinstri flokkarnir hafa reyndar sannað "ágæti sitt í borgarstjórn" fyrir nokkrum árum þegar þeir stjórnuðu borginni og skildu hana eftir sem brennandi rústir þegar Sjálfstæðisflokkurinn tók við árið 1982. Á þessum tímum var engin birta í hugum borgarbúa heldur svartsýni og sáu borgarbúar ekki framundan bjarta framtíð borgarinnar heldur stöðnun, glundroða og óreiðu í öllum fjármálum og þjónustu borgarinnar.

Styrk stjórn eða tilraun með tímasprengju

Ingibjörg Sólrún hefur verið í fararbroddi fyrir Kvennalistann. Kvennalistinn hefur gefið sig út fyrir að vera stjórnmálasamtök sem auka eigi hróður og áhrif kvenna í íslensku þjóðfélagi og hefur Kvennalistinn einnig gefið sig út fyrir það að gera upp á milli kynjanna.

Í þann tíma sem Ingibjörg Sólrún hefur leitt Kvennalistann hefur ekki orðið nein stórbreyting á stefnu Kvennalistans. "Borgarstjóraefninu" hefur ekki tekist að fá Kvennalistann til að taka ákvörðun eða bera ábyrgð á málefnum ríkis og bæjar og hefur það vafalaust rúið flokkinn trausti og hefur það einnig komið skýrt fram í kosningum.

Kvennalistinn hefur ekki hingað til komið fram sem öflugur flokkur sem reiðubúinn er til að taka ábyrgð á þeim hlutum og framkvæma þá. Hins vegar hefur honum gengið ágætlega að gagnrýna af miklum krafti án þess þó að koma með neinar leiðir til breytinga og batnaðar. Sama virðist nú vera uppi á teningnum því þrátt fyrir það að gagnrýni Kvennalistans fylgi engin lausn og þrátt fyrir það að hingað til hafi ekki komið neinar tillögur frá Kvennalistanum um stefnumótandi breytingar í borgarmálum þá heldur Ingibjörg Sólrún því fram að með sameiginlegu framboði vinstri flokkanna muni margt breytast til batnaðar.

Það er óheiðarlegt og hreinasta móðgun við borgarbúa að halda því fram að þrátt fyrir það að nú eigi að bjóða fram sameiginlegan lista vinstri flokkanna muni eitthvað breytast. Staðreyndin er sú að í sameiginlega framboðinu er verið að ræða um svipaðan lista og boðinn hefur verið áður fram hjá vinstri flokkunum. Það er ekki trúlegt að þrátt fyrir það að verið sé nú að bjóða fram á einum lista samansafn fólks sem allt hefur mismunandi skoðanir á borgarmálunum og hefur ekki getað komið sér saman um eina heilsteypta stefnu í málefnum borgarinnar, þá muni verða einhver bylting til batnaðar. Þetta er einungis draumur stjórnmálahreyfinga sem í óreiðu sinni og nafnleysi hafa ekki séð neitt annað ráð en að breyta, breytinganna vegna. Það vakna líka upp spurningar um það hvernig flokkar sem hingað til hafa ekki getað hugsað sér að starfa saman, ætla nú að starfa sem ein stór fjölskylda. Þó að í ár sé ár fjölskyldunnar þá er þetta nú einum of langt gengið í sameiningu fjölskyldueininga þar sem Kvennalistinn hefur ákveðið að ganga að eiga Framsóknarflokkinn og taka að sér óskilgetin börn borgarpólitíkusa sem hétu einu sinni Alþýðuflokkurinn og Alþýðubandalagið en ganga nú um nafnlaus með lútin höfuð. Ef fyrirmyndarfjölskylda framtíðarinnar á að hafa mynstur svipað þessu þá munu fjölskyldugildi borgarbúa ekki lengi vera mikils virði.

Höfundur er verkfræðingur.

Þórir Kjartansson