Átak fólksins í þágu fatlaðra "Biðlistinn er ótrúlega langur í dag ­ á fimmta hundrað ­ og endurspeglar auðvitað aukinn vanda öryrkja varðandi húsnæðismál nú þrátt fyrir allt sem aðhafzt er, sem auðskilið er raunar nú, þegar svo þrengir almennt að í...

Átak fólksins í þágu fatlaðra "Biðlistinn er ótrúlega langur í dag ­ á fimmta hundrað ­ og endurspeglar auðvitað aukinn vanda öryrkja varðandi húsnæðismál nú þrátt fyrir allt sem aðhafzt er, sem auðskilið er raunar nú, þegar svo þrengir almennt að í þjóðlífinu sem raun ber vitni."

Málefni fatlaðra hafa miklum framförum tekið á margan veg á undangengnum árum. Ekki skal þó undan dregið að alltof margt er enn ógert og nægir að líta til aðgengis-, atvinnuog húsnæðismála, þar sem ótalmargt er á annan veg en vera skyldi, þó vissulega hafi margt áunnizt þar einnig. Staðreynd er að sannarlega hefur víða orðið slík breyting að við byltingu jaðrar.

Í allri umfjöllun okkar um margvíslegan vanda daganna, gleymum við of oft að vekja athygli á því sem vel er unnið, áfangasigrum sem ávinningum sem ekki mega gleymast í önn daganna.

Ég dreg t.d. í efa að almennt geri fólk sér grein fyrir hversu húsnæðis- og búsetumál fatlaðra hafa miklum framförum tekið og kemur þar margt til. Stefnumörkun hefur verið að þróast til æ sjálfstæðara búsetuforms þeirra fötlunarhópa sem áður var talið útilokað.

Síðasta lagabreyting veitti mikilvægt liðsinni í þá veru. En auk margs konar átaka af hálfu hins opinbera hefur einnig margt annað verið aðhafzt til ávinnings og af því fólkið á svo giftudrjúgan hlut að stærsta átakinu þá hygg ég að verðugt sé að vekja athygli á hinni miklu uppbyggingu húsnæðis fyrir fatlaða á vegum Hússjóðs Öryrkjabandalagsins. Sú saga spannar nokkuð á þriðja áratug og framan af má í raun segja að hún hafi verið ævintýri líkust, en þar fóru í senn fullhugar og bjartsýnismenn miklir sem og raunsæir um leið, með Odd Ólafsson yfirlækni og síðar alþingismann í fararbroddi fremstan. Oddur vann víða að málefnum fatlaðra, en háhýsin við Hátún 10 eru ein sér stórkostlegur minnisvarði um óbilandi dug og þrautseigju, þar sem Oddur stýrði öllu til farsældar heilu í höfn. Fannborgarátakið í Kópavogi fylgdi svo í kjölfarið.

En þrátt fyrir þetta stórvirki sem leysti vanda svo ótalmargra var alveg dagljóst að áfram þyrfti að halda, svo allur sá fjöldi, sem enn beið, mætti fá framtíðarúrlausn sinna húsnæðismála. Og eldhuginn Oddur lét ekki sitja við innantóm orð frekar en fyrri daginn heldur leitaði ásamt öðrum nýrra leiða sem mættu árangri skila fyrir fatlaða í framtíðinni.

Þannig varð Íslenzk getspá ­ lottóið ­ til. Fyrst kom raunar fram frumvarp á þingi með mjög víðtækum stuðningi þingheims þar sem Öryrkjabandalag Íslands var eitt aðili máls, en síðar varð samkomulag um það að ÍSÍ og UMFÍ skyldu vera aðilar einnig.

Þannig fóru svo lög um talnagetraunir ­ grunnur Íslenzkrar getspár ­ í gegn á Alþingi vorið 1986 og hlutur Öryrkjabandalagsins þannig lögfestur, en hann nemur 40% af tekjum. Íslenzk getspá er afar farsælt fyrirtæki og hefur verið vel stjórnað í hvívetna af framkvæmdastjóranum, Vilhjálmi Vilhjálmssyni, og hans fólki. Þar hefur verið farið með fullri gát samhliða raunsæi og djörfung.

Um ráðstöfun þess fjár sem þannig fæst í hlut Öryrkjabandalags Íslands segir svo í lögunum: "Til að greiða stofnkostnað við íbúðarhúsnæði fyrir öryrkja á vegum Öryrkjabandalags Íslands eða standa undir annarri starfsemi bandalagsins í þágu öryrkja."

Það ætti því enginn að velkjast í vafa um það til hverra hluta löggjafinn ætlaðist af hálfu Öryrkjabandalagsins varðandi þá fjármuni er í þess hlut koma.

Á árunum frá stofnun Íslenzkrar getspár hefur þessum fyrirmælum löggjafans verið hlýtt vel, sem bezt sannast á því að á þessum árum hafa verið byggðar eða keyptar yfir 180 íbúðir til útleigu fyrir öryrkja á svo sanngjörnu verði sem framast er kostur.

Ekki þykir undirrituðum minna um það vert að utan höfuðborgarsvæðisins eru íbúðir á vegum Hússjóðs orðnar 45 talsins, enda þörfin ekki síður bráðbrýn þar og mun fullt framhald verða á því.

Húsnæðismál fatlaðra eru sannarlega byggðamál og skipta oft sköpum um búsetu; ekki aðeins hinna fötluðu sjálfra, heldur og þeirra sem að standa. Sannast sagna hefðu menn getað haldið að slíkt viðbótarátak við 290 íbúðir áður hefði átt að anna eftirspurn, en því fer fjarri að svo sé.

Biðlistinn er ótrúlega langur í dag ­ á fimmta hundrað ­ og endurspeglar auðvitað aukinn vanda öryrkja varðandi húsnæðismál nú þrátt fyrir allt sem aðhafzt er, sem auðskilið er raunar nú, þegar svo þrengir almennt að í þjóðlífinu sem raun ber vitni.

Vissulega þarf því atbeina almennings í landinu til enn frekari átaka sem gætu skilað sem flestum öryrkjum í öruggt skjól. Það fólk sem úrlausn hefur fengið býr við hina margvíslegustu fötlun, enda eðlilegt þar sem Öryrkjabandalag Íslands hefur 21 félag innan sinna vébanda ­ þar eru heildarsamtök fatlaðra á landi hér með yfir 14 þús. aðildarfélaga, enda mála sannast að þar er fólk með nær alla tegund fötlunar.

Hlutur þroskaheftra mun þó vera drýgstur í húsnæðismálunum og er það vissulega af hinu góða. En svo sem lög segja til um fara fjármunirnir frá Íslenzkri getspá til "annarrar starfsemi bandalagsins í þágu öryrkja".

Öryrkjabandalag Íslands sinnir í dag afar fjölþættu og yfirgripsmiklu starfi í þágu öryrkja í landinu, enda er leitað til þess alls staðar að um aðstoð og atbeina í ýmiss konar réttinda- og réttlætismálum. Þó meginhluti fjármagnsins hafi eðlilega farið til Hússjóðs Öryrkjabandalagsins, sem vel að merkja er sjálfseignarstofnun, þá hafa félög bandalagsins fengið aðstoð til fjölmargra verkefna í þágu sinna félagsmanna, verkefna sem þau annars hefðu ekki ráðið við.

Útgáfa viðamikils fréttabréfs er mikilvæg jafnt inn á við sem út á við og á að sýna þverskurð þess sem efst er á baugi hverju sinni og á um leið að vera svo öflugt baráttutæki í hagsmunabaráttu fatlaðra almennt sem frekast er kostur.

Dýrmæt aðstoð við starfsþjálfun fatlaðra, mörg og mikilvæg samvinnuverkefni með Þroskahjálp, og átök í atvinnumálum fatlaðra, en bandalagið rekur vinnustofur í Hátúni 10 ­ allt þetta og miklu fleira fæst fyrir þá fjármuni sem fólkið í landinu lætur bandalaginu í té.

Sá sem um árabil hefur fylgzt allvel með málefnum fatlaðra og vinnur nú þar á vettvangi finnur vel hversu dýrmæt þessi fjáruppspretta fólksins er og hve miklu hún skilar ótöldum fjölda fatlaðra. Þess vegna er einmitt dýrmætt einnig að fólkið í landinu fái að fylgjast með því, hversu fjármununum er varið, svo áfram megi í horfi halda sem allra bezt. Næg eru verkefnin sem vinna þaf og varðstaðan þarf að vera sem vökulust og bezt í hverri tíð.

Til þeirrar varðstöðu, til áframhaldandi átaka og ávinninga, skal enn heitið á liðsinni fólksins í landinu í fullvissu þess að fatlaðir megi njóta aukins öryggis í afkomu sem aðstöðu allri. Snar þáttur þess felst í farsælli úrlausn þeirra mála, sem hér hefur helzt verið unnið að með öflugum liðsstyrk almennings.

Svo þarf áfram að verða, því verkefnagnótt er framundan.

Höfundur er fyrrv. alþingismaður og félagsmálafulltrúi Öryrkjabandalags Íslands.