Íslensk stjórnvöld um innflutningshindranir Frakka á íslenskum fiski Er skýlaust brot á EES-samningnum Íslensk stjórnvöld hafa mótmælt formlega við franska sendiherrann, sem telur aðgerðirnar byggðar á misskilningi SENDIHERRA Frakka á Íslandi voru í gær...

Íslensk stjórnvöld um innflutningshindranir Frakka á íslenskum fiski Er skýlaust brot á EES-samningnum Íslensk stjórnvöld hafa mótmælt formlega við franska sendiherrann, sem telur aðgerðirnar byggðar á misskilningi SENDIHERRA Frakka á Íslandi voru í gær afhent formleg mótmæli íslenskra stjórnvalda við hindrunum þeim sem fiskinnflutningur hefur verið beittur í Frakklandi sl. tvo daga. Gámaflutningabílar, sem fluttu íslenskan fisk, aðallega frystan en einnig eitthvað af ferskum fiski, frá höfn í Hollandi, voru látnir bíða klukkustundum saman við landamærin að Frakklandi án þess að fá tollafgreiðslu á þriðjudag. Þeir sneru við, fengu tollafgreiðslu í Hollandi og héldu aftur til Frakklands um aðra landamærastöð. Þegar til Boulogne kom í gær fundu tollverðir alla annmarka á tollskjölum og var bílunum snúið við á nýjan leik. Íslensk stjórnvöld telja innflutningshindranirnar vera skýlaust brot á samningnum um evrópska efnahagssvæðið og hafa óskað þess að innflutningsbanni verði aflétt tafarlaust.

EB bað um frest

"Þessar aðgerðir Frakka, innflutningsbann á íslenskan fisk, eru skýlaust brot á EES-samningnum," sagði Þorsteinn Pálsson, sjávarútvegsráðherra. "Frakkar birtu auglýsingu um nýja reglugerð, sem fól í sér bann við innflutningi frá öðrum löndum en þeim, sem höfðu uppfyllt tiltekin skilyrði um að senda inn lista yfir viðurkenndar vörutegundir. Þar kom fram að fimm þjóðir uppfylltu þessi skilyrði, en Ísland var ekki þar á meðal. Þó sendum við slíkan lista inn fyrir rúmu ári, en EB bað hins vegar um frest á því að farið yrði að vinna eftir þessum nýju gæðareglum. Það er því alfarið vegna EB sem þessi tilhögun hefur ekki byrjað og þessar aðgerðir Frakka eru því eins skýlaust brot á EES-samningnum og hugsast getur. Ég trúi ekki öðru en að Frakkar falli fljótt frá þessum aðgerðum. Það er því of snemmt að segja til um hvort það gæti komið til þess að karfakvóti Frakka hér við land yrði afturkallaður," sagði Þorsteinn.

Hindrunarlaus aðgangur

"Við höfum heyrt haft eftir Norðmönnum að þeir hafi fengið orð frá frönskum embættismönnum um að sennilega sé þetta allt misskilningur, en þetta höfum við ekki fengið staðfest. Verði þetta ekki leiðrétt þegar í stað munum við taka þetta upp innan EES-nefndarinnar," sagði Jón Baldvin Hannibalsson, utanríkisráðherra. "EES-samningurinn er kominn í gildi og það þýðir að við höfum hindrunarlausan aðgang að þessum mörkuðum. Fyrsta skýringin sem við heyrðum var sú, að Íslendingar hefðu látið undir höfuð leggjast að tilkynna um útflutningsaðila. Það er rangt. Þá hefur verið vitnað til þess að EES sé ekki komið í gildi vegna þess að það er undanþága að því er varðar gildistöku reglugerðar um heilbrigðiseftirlit til 1. júlí. Það er auðvitað engin skýring, þarna er um undantekningu frá gildistökunni að ræða. Þriðja skýringin, sem einhver nefndi, var öryggisákvæði samningsins. Það er fjarstæða. Ákvæðið er á þann veg að ef um er að ræða meiriháttar þjóðfélagslega röskun þá geti samningsaðilinn, sem er EB en ekki einstök aðildarríki, tekið málið upp til samráðs innan EES-nefndarinnar."

Utanríkisráðherra sagði að hann teldi skýringu á málinu einfalda. "Það eru uppþot í Frakklandi af hálfu sjómanna. Ríkisstjórnin hefur látið undan þrýstingi, en umkvörtunarefni sjómanna eru ekki ljós. Það gæti vel verið að offramboð af Rússafiski sé ein ástæðan og hafi leitt til verðlækkana. Þetta kemur Íslandi ekkert við. Okkar framboð á fiski hefur minnkað frá því sem það var mest og verðið er langt fyrir ofan lágmarksverð EB. Við höfum gert meiriháttar milliríkjasamning og ef við eigum eftir að lenda í slíkum deilum þá er það auðvitað úrslitaatriði að við höfum haldið samninginn upp á punkt og prik. Því verður því miður ekki haldið fram að því er varðar einstök atvik sem hafa gerst á landbúnaðarsviðinu."

Listi sendur í desember 1992

Pétur G. Thorsteinsson, sendifulltrúi á viðskiptaskrifstofu utanríkisráðuneytisins, afhenti sendiherra Frakka, Francois Rey-Coquais, mótmæli íslenskra stjórnvalda í gær. Pétur sagði að mótmælin væru rökstudd m.a. með tilvísun í skuldbindingar Íslands og Frakklands í EES-samningnum og bent á að óheimilt væri að grípa til þessara aðgerða á grundvelli þess samnings. Utanríkisráðuneytið hefur falið sendiráði Íslands í París að koma samskonar mótmælum á framfæri við frönsk yfirvöld.

Aðgerðir í kjölfar óeirða

Kristján Skarphéðinsson, fiskimálafulltrúi Íslands í Brussel, sagði að svo virtist sem stjórnvöld í Frakklandi hefðu gefið tollyfirvöldum fyrirmæli um að stöðva fisk á landamærum og kæmu þau í kjölfarið á óeirðum franskra sjómanna og samningi stjórnvalda við þau. Hann sagði að ef ástandið breyttist ekki yrði það tekið upp á vettvangi framkvæmdanefndar Evrópubandalagsins í Brussel. Alþjóðlega fréttastofan Reuter túlkar útgáfu nýju reglugerðarinnar um hertar heilbrigðisreglur sem tilraun franskra yfirvalda til að binda enda á verkfall franskra sjómanna sem staðið hefur í 12 daga og í gær lýsti talsmaður sjómanna ánægju sinni með aðgerðir ráðuneytisins. Í dag ætla franskir sjómenn að greiða atkvæði um hvort binda eigi enda á verkfallið.

Byggt á misskilningi

Francois Rey-Coquais, sendiherra, segist ekki hafa meiri upplýsingar en þær sem þegar hafi komið fram í fjölmiðlum en hann hafi farið fram á það við franska utanríkisráðuneytið strax eftir fundinn með Pétri G. Thorsteinssyni í gær að það gerði nákvæma grein fyrir stöðu mála. Hann segir að gera megi ráð fyrir töfum við tollafgreiðslu í kjölfar hertra reglna en ekki eigi að vera um neinar sérstakar hindranir á innflutningi íslensks fisks að ræða þar sem um hann gildi almennir samningar sem öll EFTA-löndin eigi aðild að.

Margir eigendur

Gámarnir sem stöðvaðir voru við landamæri Frakklands voru flestir með frystum fiski og voru þeir í eigu ýmissa aðila sem flytja flestir fisk reglulega á markað í Frakklandi. Þeir fiskútflytjendur sem Morgunblaðið náði tali af í gær voru sammála um að gerðar hefðu verið athugasemdir við atriði sem aldrei hefði þótt neitt athugavert við hingað til. Þeir segjast ekki ætla að senda ferskan fisk á markað í Frakklandi fyrr en sú óvissa sem nú ríki sé úr sögunni.

Á vegum Kristins Ásgeirssonar voru tveir gámar með 26 tonn af fiski komnir til Boulogne í gegnum Bretland. Fiskurinn var tollafgreiddur í Bretlandi en samkvæmt reglum Evrópubandalagsins á tollafgreiðsla vöru í einu EB-landi að opna vörunni leið inn í önnur lönd bandalagsins. Kristinn segir að þegar fiskurinn kom til Boulogne hafi verið gerð sú athugasemd að tollskjal væri á ensku en ekki frönsku. Flutningabílnum var snúið til Belgíu, þar var skjalið þýtt og ekið með vöruna aftur til Frakklands. Ekki hafi verið neinar athugasemdir gerðar við heilbrigðisvottorð eða gæði fisksins, allir pappírar á Íslandi hafi farið athugasemdalaust í gegn.

Ísfang á Ísafirði sendir fisk á markað í Frakklandi í hverri viku en fiskur frá fyrirtækinu hefur enn ekki orðið fyrir töfum af völdum aðgerða franskra stjórnvalda. Ólafur B. Halldórsson, framkvæmdastjóri fyrirtækisins, segist ekki munu senda ferskan fisk til Frakklands að svo stöddu en í gærkvöldi sendi fyrirtækið 23 tonn af frystum fiski áleiðis til Frakklands. Nú eru 23 tonn í Hollandi sem áttu að fara á markað í Frakklandi og segir Ólafur að hann muni fara þangað á endanum, ekki verði vandamál að fá frystigeymslu fyrir fiskinn í Hollandi þangað til. Ólafur segist ekki trúa að þetta verði langvinnt ástand, Frakkarnir verði að svara fyrir hvernig aðgerðirnar samræmist EES.

Bjarni Lúðvíksson, framkvæmdastjóri hjá Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, sagðist ekki hafa fengið neinar nákvæmar skýringar á því sem væri að gerast en ljóst væri að þarna væri um pólitískar aðgerðir að ræða. SH átti freðfisk sem stoppaður var í Boulogne vegna tæknilegra galla í skjölum eins og það var kallað. Bjarni sagði að varan væri ekki í neinni hættu og eftir því sem hann best vissi hefði henni ekki verið vísað úr landi, hún væri enn í Frakklandi, en ótollafgreidd.

Morgunblaðið/Þorkell

Formleg mótmæli

SENDIHERRA Frakka á Íslandi, Francois Rey-Coquais, kemur af fundi Péturs G. Thorsteinssonar, sendifulltrúa á viðskiptaskrifstofu utanríkisráðuneytisins, sem afhenti sendiherranum mótmæli íslenskra stjórnvalda við innflutningshindrunum Frakka á íslenskum fiski.